80 ára Hope fæddist og ólst upp í Brooklyn, New York. Hún lauk bachelors-gráðu í sálfræði og heimspeki frá Brooklyn College/City University of N.Y. og mastersgráðu í iðjuþjálfun frá Columbia University

80 ára Hope fæddist og ólst upp í Brooklyn, New York. Hún lauk bachelors-gráðu í sálfræði og heimspeki frá Brooklyn College/City University of N.Y. og mastersgráðu í iðjuþjálfun frá Columbia University. Hún er fyrrverandi formaður Siðmenntar, iðjuþjálfi og aðgerðasinni.

„Ég starfaði átta ár við Bronx fylkisgeðsjúkrahús í New York sem geðiðjuþjálfi, yfiriðjuþjálfi og handleiðari. Einnig kenndi ég iðjuþjálfun við iðjuþjálfanámsbraut við Columbia University og hafði umsjón með iðjuþjálfanemum í verknámi við Bronx-geðsjúkrahúsið. Í New York starfaði ég í fjölda friðarhreyfinga gegn Víetnamstríðinu og kjarnorkuvopnum. Ég spila á píanó, gítar og fiðlu. Í menntaskólanum var ég í skólasinfóníuhljómsveit og í háskóla í stjórn þjóðlagafélags.

Þá flutti ég til Íslands 1974 og var iðjuþjálfi á Kleppsspítalanum í rúmlega tvö ár. Ég var einn af stofnendum Iðjuþjálfafélags Íslands, formaður þess í 22 ár, fulltrúi Íslands hjá Heimssambandi iðjuþjálfa í 26 ár og fréttastjóri fagtímarits Heimssambands iðjuþjálfa í 15 ár. Á áttunda og níunda áratugnum kenndi ég við ýmsar námsbrautir á heilbrigðissviði og var formaður Geðhjálpar í 5 ár. Einnig var ég stjórnarmaður í Kynfræðifélagi Íslands og í Samtökum heilbrigðisstétta (SHS).“

Hope stundaði rannsókn um ofbeldi í skólum 1984, hélt fjölda fyrirlestra um sama efni og skipulagði tvær ráðstefnur á vegum SHS um ofbeldi. Hope var stofnandi og formaður Félags nýrra Íslendinga í fimm ár. Hún var einn af stofnendum fyrsta Fjölmenningarráðs og formaður þess í fimm ár. Hún skrifaði fjölda greina í blöð um menningaráfall, blönduð hjónabönd, hvernig er að vera útlendingur, fjölmenningarlegt samfélag, geðheilbrigðismál, ofbeldi, neytendamál og húmanisma. Hún kom fram í útvarpi og sjónvarpi. Hope var frumkvöðull að borgaralegri fermingu og var verkefnastjóri þar í 31 ár. Hún var einn af stofnendum Siðmenntar og formaður í 15 ár.

„Ég er upptekin þessa dagana við að skrifa ævisögu mína.“


Fjölskylda Eiginmaður Hope er Einar Knútsson, f. 1944, flugvirki, flugvélstjóri og var viðhalds- og eftirlitsstjóri hjá Flugleiðum. Börn þeirra eru Tryggvi, f. 1974, og Katla Einarsdóttir, f. 1977. Foreldrar Hope voru Jack Emanuel Loewenstein eigandi prentsmiðju og Ruth Haskell Loewenstein grunnskólakennari.