Kátur Það lá vel á Åge Hareide á fréttamannafundinum á Stade de Luxembourg í gær en hann stýrir íslenska liðinu í þriðja sinn í kvöld.
Kátur Það lá vel á Åge Hareide á fréttamannafundinum á Stade de Luxembourg í gær en hann stýrir íslenska liðinu í þriðja sinn í kvöld. — Ljósmynd/Alex Nicodim
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í kvöld mætir íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu liði Lúxemborgar í fimmtu umferð undankeppni EM 2024, á nýjum og glæsilegum þjóðarleikvangi Lúxemborgar í samnefndri borg

Í Lúxemborg

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Í kvöld mætir íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu liði Lúxemborgar í fimmtu umferð undankeppni EM 2024, á nýjum og glæsilegum þjóðarleikvangi Lúxemborgar í samnefndri borg.

Eins og var reifað á íþróttasíðum Morgunblaðsins í gær er lið Lúxemborgar á uppleið og ber að hafa varann á, enda fjöldi frambærilegra knattspyrnumanna í röðum þess og árangurinn í J-riðli undankeppninnar verið góður til þessa.

Stigasöfnunin hjá Íslandi hefur verið dræm, aðeins þrjú í fjórum leikjum, en spilamennskan góð, ef undan er skilin afleit frammistaða í fyrstu umferð þegar liðið tapaði 3:0 fyrir Bosníu og Hersegóvínu.

Núll stig úr síðasta verkefni, 1:2-tapi fyrir Slóvakíu og 0:1-tapi fyrir Portúgal, finnst manni ansi fátækleg uppskera. Liðið lék geysilega vel á löngum köflum og því þótti leikmönnum og öðrum málsmetandi aðilum ástæða til bjartsýni í framhaldinu.

Fyrsti sigurinn tímabær

Ég er einn af þeim og hef trú á því að íslenska liðið vinni sinn fyrsta sigur undir stjórn Åges Hareides. Það er ekki þar með sagt að það sé hlaupið að því að sigra.

Lúxemborg er með sjö stig og hefur haldið hreinu í þremur af fjórum leikjum. Erfitt gæti því reynst að brjóta heimamenn á bak aftur.

Fersk sóknarlína Íslands ætti þó hæglega að geta það enda færasköpunin í leikjunum gegn Slóvakíu og Portúgals með besta móti, þó nýtingin hefði mátt vera betri.

Hverjir byrja?

Að minnsta kosti þrjár breytingar verða gerðar á byrjunarliði Íslands frá því í síðasta leik þar sem Sverrir Ingi Ingason, Albert Guðmundsson og Willum Þór Willumsson verða ekki með. Sá síðastnefndi tekur út leikbann eftir að hafa fengið rautt spjald í síðasta leik gegn Portúgal.

Rúnar Alex Rúnarsson virðist hafa eignað sér markvarðarstöðuna og er líklegastur til þess að standa á milli stanganna.

Ákveðnar tilfærslur verða gerðar í vörninni vegna fjarveru Sverris Inga, þar sem Hörður Björgvin Magnússon, sem byrjaði síðasta leik í vinstri bakverði, færist pottþétt í miðvörðinn við hlið Guðlaugs Victors Pálssonar. Valgeir Lunddal Friðriksson heldur væntanlega sæti sínu í öðrum bakverðinum og þá er bara spurning hvort Alfons Sampsted eða Kolbeinn Birgir Finnsson byrji í hinum bakverðinum.

Á miðri miðjunni má búast við Jóhanni Berg Guðmundssyni og Arnóri Ingva Traustasyni eins og síðast og Jóni Degi Þorsteinssyni á vinstri kanti. Mikael Neville Anderson verður að teljast líklegur til þess að koma inn í stað Willums Þórs á hægri kantinn.

Alfreð Finnbogason ætti að halda sæti sínu í fremstu víglínu og má telja Hákon Arnar Haraldsson líklegastan til þess að taka sæti Alberts við hlið Alfreðs.

Sterkari á pappírnum

Þrátt fyrir uppgang Lúxemborgar undanfarin ár ætti Ísland að búa yfir sterkara liði, gera það í það minnsta á pappírnum, en leikir vinnast sjaldnast á pappír.

Útlitið er heldur dökkt þegar kemur að væntingum sem snúa að því að ná öðru sætinu í J-riðlinum. Ætli íslenska liðið að eiga minnsta möguleika á því er einfaldlega bráðnauðsynlegt að hrósa sigri í kvöld.

Af þeim leikjum sem Ísland á eftir í riðlinum eru leikirnir tveir gegn Lúxemborg og heimaleikir gegn Liechtenstein og Bosníu þeir fjórir leikir sem Ísland lítur helst til hvað möguleika á því að krækja í þrjú stig varðar.

Vilja enda sem efst

Fyrri leikurinn gegn Lúxemborg fer fram í kvöld og heimaleikurinn gegn Bosníu á mánudagskvöld. Sex stig í yfirstandandi landsleikjaglugga væru kærkomin og í raun nauðsynleg til að hefja þessa undankeppni loks almennilega.

Möguleiki á umspili um laust sæti á EM 2024 í gegnum Þjóðadeild UEFA er vissulega fyrir hendi ef ekki gengur sem skyldi í J-riðlinum. Hareide og leikmennirnir vilja eflaust síður fara í slíkt umspil en raunin er einfaldlega sú að eins og staðan er núna er það líklegri niðurstaða heldur en að ná öðru sætinu.

Ísland þarf að reiða sig á aðrar þjóðir til þess að komast þangað en það breytir því þó ekki að norski þjálfarinn vill enda eins ofarlega og mögulegt er í riðlinum, eins og hann sagði á blaðamannafundi á leikvangi Lúxemborgar í gær.

Gera sjálfir kröfu um sex stig

Jóhann Berg varafyrirliði Íslands sat fundinn með honum og var þar spurður hvort það væri aukin og óþægilegri pressa fólgin í kröfunni um sex stig.

„Það er bara raunveruleikinn. Þannig er staðan. Ef við ætlum að taka þátt í þessu þurfum við að byrja á því að vinna á morgun. Við þurfum að taka sex stig. Það er gríðarleg pressa sem fylgir því að spila fótbolta og menn verða bara að höndla pressuna, og vonandi vel. Vonandi getum við sýnt það á morgun því við höfum sagt það hérna sjálfir að við þurfum hreinlega að fá sex stig í þessum glugga,“ sagði Jóhann ákveðinn á fundinum.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson