Marta Guðjónsdóttir
Marta Guðjónsdóttir
Frá 2012 hefur borgarstjórn ekki sýnt minnstu viðleitni til að greiða fyrir umferð í borginni.

Marta Guðjónsdóttir

Frá 2012 hefur stefna borgarstjórnar í samgöngumálum verið útópía. Stjórnvöld sem vinna að samgöngumálum eftir útópíu eru fyrir fram dæmd til að vinna gegn þegnum sínum. Í besta falli með því að koma engu í verk þó þróun og aðstæður hrópi á framkvæmdir og úrlausnir. En í versta falli með sóun fjármuna, tíma og annarra verðmæta samfélagsins. Sóun sem byggist á röngum ákvörðunum, rangri tímasetningu, vanáætluðum kostnaði, frestun framkvæmda, skorti á arðsemismati, skorti á rekstrarkostnaði og skorti á ábyrgð, heiðarleika og hreinskilni – í sem fæstum orðum sagt: Byggist á hugarórum sem aldrei verða að veruleika.

Frá 2012 hefur borgarstjórn ekki sýnt minnstu viðleitni til að greiða fyrir umferð í borginni. Viðleitnin hefur verið öðru nær: Að leggja stein í götu vegfarenda.

Þrjú forgangsverkefni

Við þessar aðstæður skrifuðu forsætisráðherra, fjármálaráðherra, samgönguráðherra, borgarstjóri og bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu undir samgöngusáttmála haustið 2019 fyrir höfuðborgarsvæðið.

Samkvæmt sáttmálanum átti upphaflega að leggja 53 milljarða í borgarlínu (67 ma. núvirt). Sú upphæð er komin í 126 milljarða, án þess að tekið sé með í reikninginn kaup á vögnum, framkvæmdir við borgarlínustöðvar eða rekstrarkostnaður sem þó mun hlaupa á a.m.k. þremur til fimm milljörðum árlega sem enginn veit hver á að greiða.

Í sérstöku ákvæði sáttmálans voru þrjú verkefni sett í algjöran forgang sem öll standa upp á Reykjavíkurborg: Ný umferðarljós (nútíma snjallljósastýring) sem borgaryfirvöld skuldbundu sig til að ráðast í án tafar, sem og ný gatnamót Bústaðavegar/Reykjanesbrautar og tenging Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar, sem hvoru tveggja átti að vera lokið við árið 2021.

Tækninýjungum hafnað

Ekkert bólar á nýjustu tækni í ljósastýringum.

Samtök iðnaðarins áætluðu stofnkostnað af snjallstýrðum ljósum í borginni um 1,5 milljarða króna árið 2019. Ávinningur af slíkum ljósum er um 15% tímasparnaður fyrir fólksbíla, 50% minni biðtími ökutækja í biðröðum og 20% meira flæði almenningssamgangna. Um 15% minni umferðartafir í borginni, með snjallljósastýringu, myndu þá skv. Samtökum iðnaðarins, skila um 80 milljörðum (102 ma. núvirt) í ábata fyrir fyrirtæki og heimili á líftíma fjárfestingarinnar. En borgaryfirvöld eru mótfallin þessum ábata fyrir samfélagið, með minna en tveggja milljarða króna kostnaði.

Borgaryfirvöld eru enn að svíkja skuldbindingar sínar um ný gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar, en þau sjá líklega ekki dagsins ljós á næstu sex árum. Þessi svik hafa verið – og verða enn um hríð – þúsundum borgarbúa dýrkeypt í tímaskatti og mengun, dag hvern.

Furðuleg forgangsröðun

Á sama tíma og borgaryfirvöld svíkja skuldbindingar sínar um forgangsverkefni vilja þau nú setja Fossvogsbrú í algjöran forgang sáttmálans. Núverandi uppfærslu á samgöngusáttmálanum lýkur ekki fyrr en í nóvember. En borgaryfirvöld vilja að farið verði í útboð með Fossvogsbrú nú í október, áður en uppfærslu sáttmálans er lokið.

Fossvogsbrúin er einungis ætluð fyrir gangandi vegfarendur, hjólreiðar og fyrsta áfanga borgarlínu, en ekki fyrir almenna umferð ökutækja. Hún hefur því mjög takmarkað notagildi fyrir fáa notendur. Upphaflegur kostnaður við brúna var áætlaður 2,25 milljarðar en er nú kominn í 7,5 milljarða. Borgaryfirvöld vilja því sóa sjö þúsund og fimm hundruð milljónum af skattfé almennings í það að flýta ferð þeirra Kársnesbúa í miðbæ Reykjavíkur um nokkrar mínútur sem kjósa að taka borgarlínu, þegar og ef hún nokkurn tíma kemst í gagnið. Einungis hluti af þessari upphæð gæti snjallljósavætt allar stofnbrautir höfuðborgarinnar, þúsundum vegfarenda til hagsbóta, dag hvern. Þessa háu fjárhæð mætti nýta margfalt betur, margfalt fleirum til hagsbóta.

Það er skylda kjörinna fulltrúa að koma í veg fyrir sóun á almannafé. Þess vegna lagði ég fram eftirfarandi tillögu á síðasta borgarstjórnarfundi, fyrir hönd okkar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: Borgarstjórn samþykkir að beina því til vinnu við endurskoðun samgöngusáttmálans að skoðaðir verði fleiri og hagkvæmari kostir á tengingu almenningssamgangna milli Reykjavíkur og Kársness. Kostnaðaraukning á framkvæmd við Fossvogsbrú, úr 2,25 milljörðum króna í 7,5 milljarða króna, krefst augljóslega slíkrar endurskoðunar.“ Tillagan var auðvitað felld af meirihlutanum.

Glórulaust vanmat á kostnaðaráætlun

Sama dag og tillaga okkar var felld gerði Vilhjálmur Árnason, formaður samgöngunefndar Alþingis, þessa sömu brú að umtalsefni í Morgunblaðinu og sagði þá m.a.: „Þetta hlýtur að kalla á það, í þessari framkvæmd, sem og öðrum sem stjórnvöld fari í, að hagkvæmni og skynsemi hverrar framkvæmdar sé endurskoðuð áður en ráðist er í svona mikla fjárfestingu.“

Tveimur dögum eftir borgarstjórnarfundinn birtist í Morgunblaðinu grein eftir Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra. Þar bendir hann á að kostnaðaráætlun samgöngusáttmálans hafi verið stórlega vanmetin, farið úr 160 milljörðum í 300 milljarða, eftir að allar tölur sem hann vitnar í hafa verið verðbættar frá 2019, miðað við vísitölu framkvæmda hjá Vegagerðinni.

Borgaryfirvöld halda hins vegar áfram að trúa á útópíu í samgöngumálum þótt þeim hafi góðfúslega verið bent á að ekki séu til fjármunir fyrir henni.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.