Stefán Birgir Pedersen ljósmyndari lést á Sjúkrahúsinu á Sauðárkróki 9. september sl., 86 ára að aldri. Stefán fæddist á Sauðárkróki 7. desember 1936. Foreldrar hans voru Sigríður Sigurlína Halldórsdóttir og Johan Pedersen

Stefán Birgir Pedersen ljósmyndari lést á Sjúkrahúsinu á Sauðárkróki 9. september sl., 86 ára að aldri.

Stefán fæddist á Sauðárkróki 7. desember 1936. Foreldrar hans voru Sigríður Sigurlína Halldórsdóttir og Johan Pedersen.

Stefán ólst upp á Sauðárkróki og gekk þar í barna- og gagnfræðaskóla. Lærði bakaraiðn um tíma hjá Guðjóni Sigurðssyni bakarameistara, lauk prófi frá Iðnskóla Sauðárkróks og lærði ljósmyndun hjá Sigurði Guðmundssyni í Reykjavík. Að því námi loknu árið 1958 opnaði Stefán ljósmyndastofu á Sauðárkróki og rak hana í rúm 60 ár, eða til 2019. Tók hann fjölda ljósmynda í héraði og víðar um land, hélt ljósmyndasýningar og var tökumaður fyrir Ríkissjónvarpið um árabil.

Stefán tók virkan þátt í félagsmálum og var afreksmaður í sundi á sínum yngri árum, vann þannig Grettisbikarinn í tvígang. Átti sæti í stjórn Umf. Tindastóls og UMSS, var formaður landsmótsnefndar og mótsstjóri á Landsmóti UMFÍ á Sauðárkróki 1971, á 100 ára afmælisári Sauðárkróks.

Hann tók þátt í bæjarmálum fyrir Framsóknarflokkinn og átti sæti í ýmsum nefndum og ráðum, m.a. var hann lengi í stjórn Sjúkrahússins á Sauðárkróki, á uppbyggingartíma þess. Stefán var meðal stofnenda Lionsklúbbs Sauðárkróks, var mjög virkur í uppbyggingarstarfi Golfklúbbs Sauðárkróks og lék golf um árabil með góðum árangri.

Stefán var mikill áhugamaður um menningu og listir. Hóf ungur að leika á harmoniku og spilaði á böllum í Skagafirði í mörg ár. Djassinn var í miklu uppáhaldi og þá teiknaði hann og málaði í frístundum. Stefán hlaut margs konar viðurkenningar fyrir störf sín og má þar nefna Samfélagsverðlaun sveitarfélagsins Skagafjarðar árið 2016. Þá var hann Melvin Jones-félagi hjá Lions og hlaut þar Kjaransorðuna, æðstu orðu Lions á Íslandi.

Eiginkona Stefáns var Ingibjörg Lúðvíksdóttir, f. 1941, d. 2004. Sonur þeirra er Árni Ragnar, kvæntur Kristínu Þóru Harðardóttur. Synir Árna með Ásu Dóru Konráðsdóttur eru Olgeir Ingi, Hólmar Smári og Stefán Atli.