Óskýrar skýringar

Fjárlagafrumvarpið kom út í vikunni og er 384 síðna bókhnullungur, auk 121 síðu kvers með fylgiritum; kærkomin haustlesning fyrir áhugamenn um ríkisfjármál. Hafi lesandinn ekki áhuga á ríkisfjármálum er rétt að minna á að ríkisfjármálin hafa óþægilegan áhuga á honum.

Einmitt vegna þess að ríkisfjármálin varða okkur öll skiptir máli að þau séu sett fram með skýrari, skorinorðari og skiljanlegri hætti en gert er í frumvarpinu. Því efnir fjármálaráðherra til kynningar á aðalatriðum frumvarpsins, birtir stutta samtekt á vefnum ásamt myndrænni framsetningu og öðrum gögnum.

Það er lofsverð viðleitni, en hún missir marks því það vantar þrjár lykilstaðreyndir í allt kynningarefnið: heildartekjur, heildarútgjöld og heildarafkomu. Hjá því er allt annað aukaatriði.

Í samantektinni er ekki heldur vikið að fjórða stærsta útgjaldalið ríkisins, vaxtagjöldum, ábyrgðum og lífeyrisskuldbindingum. Hins vegar er þar nokkuð rætt um frumjöfnuð, sem ótínd alþýðan gleðst vafalaust yfir að nóg sé til af.

Þetta væri ágæt skýrsla til stjórnar stórfyrirtækis en almennir skattborgarar, kjósendur, eiga betra skilið.