Hjúkrun Fyrirhugað er að stækka hjúkrunarheimilið Sóltún og fyrirtækið sem rekur það hefur sótt um lóð í Hafnarfirði fyrir frekari uppbyggingu.
Hjúkrun Fyrirhugað er að stækka hjúkrunarheimilið Sóltún og fyrirtækið sem rekur það hefur sótt um lóð í Hafnarfirði fyrir frekari uppbyggingu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hörður Vilberg hordur@mbl.is „Þjóðin eldist hratt,“ segir Halla Thoroddsen, forstjóri Sóltúns heilbrigðisþjónustu. Hún bendir á að ef horft sé til aldurshópsins 80-89 ára þá muni fjölga í þeim hópi um 85% fram til ársins 2038, gangi mannfjöldaspár eftir. Úr 10.900 manns í 20.100.

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

„Þjóðin eldist hratt,“ segir Halla Thoroddsen, forstjóri Sóltúns heilbrigðisþjónustu. Hún bendir á að ef horft sé til aldurshópsins 80-89 ára þá muni fjölga í þeim hópi um 85% fram til ársins 2038, gangi mannfjöldaspár eftir. Úr 10.900 manns í 20.100.

Stórar áskoranir blasa því við í umönnun aldraðra á komandi árum. „Þetta er sá hópur sem þarf á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda,“ segir Halla, eftirspurnin eftir þjónustunni aukist hratt. „Hvað ætlum við að gera?“ spyr hún, og telur ljóst að aðgerða sé þörf. Framtíð öldrunarþjónustu á Íslandi er til umfjöllunar á ráðstefnu í Hörpu sem fer fram í dag.

Lausna leitað

„Við erum að fara yfir hvernig þetta lítur út í dag og velta upp ýmsum lausnum og miðla þeim.“ Íslenskir fyrirlesarar sem þekkja vel til mála stíga á svið auk sérfræðinga í nálægum löndum eins og Danmörku og Bretlandi. Meðal þeirra er Martin Green, forstjóri Care England, sem fer fyrir einkareknum fyrirtækjum í heilbrigðisþjónustu. „Hann mun ræða hvernig þróunin var í Bretlandi. Áður var ríkið þar allsráðandi í rekstri heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða. Þeir hafa hleypt einkaaðilum í auknum mæli að og hann mun sýna fram á hvaða áhrif það hafði á þjónustu, gæði og framboð.“

Framkvæmdastjóri hjúkrunarheimila í Bretlandi, Dara Ní Ghadhra, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Cornerstone Healthcare, mun einnig leggja gott til málanna. „Þau eru með sérhæfð úrræði fyrir fólk með geðraskanir og heilabilun. Það er sá hópur sem hefur ekki verið á réttum stað á Íslandi,“ segir forstjóri Sóltúns og telur að önnur úrræði en dvöl á almennum hjúkrunarheimilum henti honum betur. „Við viljum að þetta fólk fái sérhæfð úrræði.“

Íslenska þjóðin er að eldast og því fylgja aukin verkefni vegna endurhæfingar aldraðra. Sóltún hefur nýtt sér fyrirmyndir sem 35 sveitarfélög í Danmörku hafa gert þar sem m.a. er lögð áhersla á styrktarþjálfun á heimilum fólks sem nýtur heimaþjónustu.

„Ástæðan fyrir því að sveitarfélög eru að nýta sér hana er til draga úr frekari þörf á þjónustu. Það verður sagt frá því og árangri á Sóltúni heilsusetri, sem er nýtt endurhæfingarúræði.“ Halla segir það lið í að bregðast við mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu. „Sem allir eru að glíma við, bæði hérna á Íslandi og hjá nágrannaþjóðunum. Okkur vantar fleiri hendur. Bæði heilbrigðisstarfsfólk og ófaglært starfsfólk til að veita þjónustuna.“ Halla kveður skýrt að orði: „Ef við ætlum að veita góða þjónustu við aldraða og sinna okkar skyldum þannig að aldraðir fái gott ævikvöld þá þurfum við að hugsa í lausnum. Við getum ekki haldið áfram á óbreyttri braut. Við þurfum að skoða hvernig við getum minnkað eftirspurn eftir þjónustu og minnkað útgjöld.“

Markmiðið er að hennar mati ekki að rýra lífsgæði fólks heldur þvert á móti. „Að gera fólk hressara og hraustara.“ Hún telur mögulegt að snúa við þeirri þróun sem blasir við hjá fólki milli áttræðs og níræðs. „Þar eru tækifærin. Það vill enginn enda ævina á hjúkrunarheimili. Það vilja allir vera sjálfstæðir heima og búa þar lengi hamingjusamir og virkir og verja tíma sínum með fjölskyldunni og taka þátt í félagslífi. En ef þú hefur ekki heilsuna til, þá eru lífsgæðin ekki nægilega mikil.“

Fjárfesting nauðsynleg

Mikla fjárfestingu þarf í nýjum hjúkrunarheimilum. Halla segir stefna í gríðarmikinn vanda. Á næstu 15 árum vanti 717 hjúkrunarrými í Reykjavík en eitt hjúkrunarheimili er oft um 80 rými. Áform eru um að stækka Sóltún um 60 rými og færa jafnframt út kvíarnar í Hafnarfirði þar sem fyrirtækið er búið að sækja um lóð í Hamranesi. Þar er ætlunin að byggja 80 rýma hjúkrunarheimili en allt að sex milljarða kostar að reisa 100 rýma hjúkrunarheimili.

„Það þarf að fjárfesta fyrir tugi milljarða á næstu árum, sem Sóltún hefur hug á að vera þátttakandi í,“ segir Halla. „Þetta er ekki gott eins og þetta horfir við okkur núna.“

Höf.: Hörður Vilberg