Nýr kafli að hefjast „Ég held að ég sé að sigla inn í Bach-tímabil,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson.
Nýr kafli að hefjast „Ég held að ég sé að sigla inn í Bach-tímabil,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég veit að fólk hefur sterkar skoðanir á Bach og það þarf ákveðinn þroska til að sætta sig við það að maður getur aldrei gert öllum til hæfis.

Viðtal

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Fyrir mér er þetta verk eins og bréf til framtíðarinnar, enda var það svo langt ofan við það sem flestir gátu skilið og náð utan um á ritunartímanum,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari um Goldberg-tilbrigðin eftir Johann Sebastian Bach sem hann leikur á plötu sem Deutsche Grammophon (DG) gefur út 6. október. Aðeins tveimur dögum seinna tekur Víkingur á móti Opus klassik-verðlaununum sem einleikari ársins fyrir fimmtu plötu sína hjá DG, From Afar, við hátíðlega athöfn í Berlín.

Þó formlegi útgáfudagurinn á nýju plötunni sé ekki fyrr en eftir tæpan mánuð er Víkingur byrjaður að kynna hana með tónleikum. Þegar viðtalið við Víking fór fram um síðustu mánaðamót var hann þegar búinn að halda átta Goldberg-tónleika, sem er um 1/11 af heildartónleikaferðinni sem nær til næstum allra höfuðborga í hinum vestræna heimi og lýkur í Elbfílharmóníunni í Hamborg í júní á næsta ári. „Ég miðaði allt tónleikaferðalagið mitt við að ég yrði á Íslandi miðvikudagskvöldið 14. febrúar 2024,“ segir Víkingur, en þann dag fagnar hann 40 ára afmæli sínu með tónleikum í Eldborg Hörpu.

Óvenjulegt tónleikaár

„Það eru fyrstu einleikstónleikar mínir á Íslandi í yfir tvö ár, en ég mun alls halda 88 tónleika til að fylgja plötunni úr hlaði,“ segir Víkingur og tekur fram að svo skemmtilega vilji til að á nútímaflygli séu einmitt 88 nótur. „Þetta verður mjög óvenjulegt tónleikaár hjá mér því venjulega leik ég einleikstónleika í bland við tónleika þar sem ég spila konserta með sinfóníuhljómsveitum,“ segir Víkingur og bendir á að það sé raunar sjaldgæft að túrað sé jafnvíða og hann ætli sér að gera með aðeins eitt klassískt tónverk – en raunar eru Goldberg-tilbrigðin ekkert venjulegt verk, heldur „stórkostlegasta hljómborðsverk sögunnar sem ekkert annað einleiksverk jafnast á við,“ eins og Víkingur orðar það og tekur fram að verkið sé eins konar uppflettirit um hvernig megi láta sig dreyma á hljómborðshljóðfæri.

„Síðasta tónleikaárið mitt var stóra hljómsveitarárið mitt,“ segir Víkingur sem spilaði m.a. með Berlínarfílharmóníunni, Concertgebouw-hljómsveitinni, Cleveland-hljómsveitinni og fílharmóníusveitunum í New York og London. „Mig langaði til að eiga slíkt ár áður en ég færi í mína pílagrímsför með Bach að klífa Goldberg-tilbrigðin, m.a. í löndum og heimsálfum sem ég hef haft lítinn tíma til að spila í áður, eins og Ástralíu, Japan, Suður-Kóreu og Suður-Ameríku,“ segir Víkingur og tekur fram að í hans huga séu Goldberg-tilbrigðin eina verkið sem hann gæti spilað 88 sinnum um allan heim „án þess að verða sturlaður,“ enda felist heilmikil áskorun í verkinu sjálfu. „Markmið mitt er að vera nógu víðsýnn og djúphugull í þessu verki til þess að ég þurfi ekki endurtaka það 88 sinnum heldur takist mér að endurskapa það að einhverju leyti í nýrri mynd á hverju kvöldi.“

Ólympískar fimleikaæfingar

Þú skrifar um það í bæklingi plötunnar að þig hafi dreymt um að taka upp Goldberg-tilbrigðin í 25 ár og þú hefur í viðtölum lýst því að stjórnendur DG buðu þér útgáfusamning hjá útgáfunni á sínum tíma eftir að þeir heyrðu þig spila verkið á tónleikum í Berlín og höfðu þá áhuga á því að fyrsta platan þín hjá DG yrði Goldberg-tilbrigðin. Hvernig hefði verkið hljómað ef þú hefðir tekið þetta upp fyrr?

„Bach breytist eins og árstíðirnar og árin í lífi þeirra sem fást við hann. Goldberg-tilbrigðin hefðu hljómað talsvert öðruvísi í mínum meðförum ef ég hefði tekið þau upp fyrir sex árum. Mér finnst ég vera tilbúnari til að festa eina túlkun af þessu verki á plötu í dag en ég var þá. Í vissum skilningi er verkið eins og ólympískar fimleikaæfingar hvað tæknilegar kröfur varðar, en verkið er þó miklu stærra en það. Það fangar allt litróf lífsins og mér finnst öll lifuð reynsla skila sér inn í túlkunina. Ég upplifi innri tíma tilbrigðanna allt öðruvísi nú en fyrir tíu árum þegar ég lék þau fyrst á tónleikum. Nú finnst mér þetta eiginlega vera eins og heilt lífshlaup.“

Hvernig þá?

„Það er þessi fæðing. Þetta upphaf í aríunni, undur lífsins, aría allra aría ef þú spyrð mig. Við taka fyrstu fjórtán tilbrigðin eins og áhyggjulaus og hamingjurík æska, öll í G-dúr, sem kanna ótrúlegan fjölbreytileika sem Bach nær að móta úr hinum takmarkaða efniviði sem er hljómagangur aríunnar sem allt verkið byggist á. Ekkert undirbýr mann fyrir fyrsta áfallið, fyrsta harminn, það er tilbrigði númer 15 sem færir okkur allt í einu yfir í g-moll.

Glenn Gould talaði um þetta tilbrigði sem hina fullkomnu tónlist fyrir föstudaginn langa. Það er svolítið eins og í lífinu sjálfu. Ekkert getur í raun undirbúið manneskjuna fyrir fyrsta stóra harminn, fyrsta missinn. En eins og í lífinu sjálfu er eins og það sé í raun enginn valkostur annar en að safna kröftum og halda áfram, leita birtunnar. Og það gerir Bach með næsta tilbrigði sem er akkúrat miðja verksins, tilbrigði 16 af 30, sem hefst á fagnandi frönskum forleik. Í mínum skilningi er þetta í raun eins og upphafið á seinni þætti verksins eftir óvænt endalok fyrsta hluta. Það er eitthvað næstum óperulegt við þennan strúktúr. Við höldum áfram för að mestu í sólskini fyrir utan tilbrigði 21 og 25 þar sem harmurinn kemur aftur. Og í tilbrigði 25 er eins og Bach fari á stað sem hann hefur aldrei farið á í hljómborðsverkunum. Hann fer út í krómatískar og hljómrænar lendur sem nísta í sársauka sínum, alveg út á ystu nöf tjáningarinnar. Það er engu líkt.

Á eftir fylgja ótrúlega glæsileg tilbrigði sem fíra upp í öllum hreyflum, flugið er mikið áður en við lendum í síðasta tilbrigði þegar við nálgumst heimahagana aftur og fáum allt í einu þjóðlög, m.a. „Fram, fram fylking“ sem melódískan efnivið ofan á hljómaganginn sem við höfum nú heyrt í 30 ólíkum útfærslum. Og svo birtist hún aftur, arían, og það er eitt fallegasta augnablik tónlistarsögunnar. Við heyrum sömu tóna og í upphafi verks, en það eru ekki sömu tónarnir. Þeir hafa ótrúlega ólík áhrif á mann eftir allt ferðalagið. Eru eins og endurlit. Eins og maður horfi til baka með heilt lífshlaup að baki, upplifi aftur gleði og sorg og allt þar á milli sem gengið hefur á. Þessi endurlits-aría hefur eitthvað mjög ljúfsárt við sig, tregafyllsti G-dúr sem ég þekki. Ég óttast í raun alltaf endann, að síðasti hljómurinn deyi út, á sama hátt og ég óttast endalok lífsins. Ég vil ekki að verkið endi, en þögnin sem fylgir er oft mjög áhrifamikil.“

Víkingur tekur fram að ein meginspurning hans sem flytjanda hafi verið að hversu miklu leyti tengja eigi saman hin ólíku tilbrigði með strúktúr og innbyrðis tempósambandi. „Vinnur maður í átt að aukinni einingu milli ólíkra tilbrigða eða fer maður í þveröfuga átt? Vill maður að Goldberg-tilbrigðin séu eins og 30 plánetur sem eru á sveimi utan um eina sól, sem er arían, eða vill maður reyna að koma öllum tilbrigðunum fyrir á einni plánetu?“

Bach leikur á taugakerfið

Og að hvaða niðurstöðu komst þú?

„Ég held að tilbrigðin séu öll hluti af sama sólkerfinu, en að hvert einasta tilbrigði þurfi að fá að vera sinn eiginn heimur. Maður getur alveg gert hitt og ég ætlaði raunar að hafa upptökuna mína þannig. Ég hélt að ég væri svolítið búinn að ráða gátu verksins með vísindalegri nálgun, en hætti við það á fyrsta degi í stúdíóinu og kastaði öllu planinu mínu um tempó frá mér. Mér fannst ég of bundinn af því og ákvað að fylgja frekar og treysta innsæinu þegar kæmi að hraðavali, dýnamík og áferð í stað þess að niðurnjörva túlkunina eftir ákveðnum strúktúr.

Þetta verk er nefnilega miklu stærra en svo að maður geti reiknað það út. Þó strúktúr Bachs sé ótrúlegur þá er þetta ekki verk sem þú getur matreitt gervigreind af og hún þar með verið fær um að semja Goldberg-tilbrigðin. Galdur verksins felst í því sértæka, öllum frávikunum sem gera það svo mannlegt og fallegt. Verkið er skáldskapur umfram allt annað og þó túlkunin þurfi að vera skýr, strúktúral og tær þá er hún samt umfram allt frásögn,“ segir Víkingur og bendir á að það geti auðvitað virkað þægilegra og veitt visst öryggi að kortleggja alla hluti til að reyna að skilja þá.

Þarf ekki mikið hugrekki til þess að kasta planinu frá sér?

„Jú, en þetta er eins og svo margt annað þegar kemur að skapandi vinnu. Maður undirbýr sig og æfir í þaula til að geta síðan gleymt því á sviðinu og bara gefið sig frelsinu á vald, spunnið túlkunina. Þegar maður spilar þetta verk finnur maður fyrir því að Bach var mesti spunameistari tónlistarsögunnar. Maður finnur gleðina í fingurgómunum.“

Þú hefur upplýst á samfélagsmiðlum að tilbrigði númer 13 sé þitt uppáhalds. Hvers vegna?

„Það tilbrigði er svo ójarðneskt og flögrar um í mesta þyngdarleysinu í verkinu, sem er að öðru leyti almennt svo jarðtengt og kjarnmikið. Bach staðsetur tilbrigði 13 á milli mjög mergjaðra og virtúósískra tilbrigða. Þannig veitir það ákveðinn stundarfrið og frelsi til að dreyma. Önnur ástæða þess að þetta tiltekna tilbrigði er í miklu uppáhaldi hjá mér er vegna hljómfræðinnar, en það eru staðir í seinni hluta tilbrigðisins sem eru svo fallegir og ljúfsárir að ég fæ alltaf gæsahúð þegar ég spila þá. Bach leikur í raun oftar á taugakerfið í mér en nokkurt annað tónskáld.“

Erfiðast að finna frelsið

Eins og fyrr var getið eru Goldberg-tilbrigðin önnur platan þar sem Víkingur fæst við Bach, en fyrri platan kom út hjá DG 2018. „Á fyrri plötunni langaði mig að skoða Bach sem meistara hins knappa forms. Hann gat rissað upp ótrúleg portrett á örfáum mínútum með örfáum nótum, sambærilegt við það sem Picasso gat gert með nokkrum penslastrokum. Mig langaði því til að skoða Bach ekki í monumentalismanum, sem Goldberg-tilbrigðin eru, heldur sem meistara hins knappa forms,“ segir Víkingur og bendir á að sú vinna hafi tvímælalaust hjálpað honum þegar hann kom aftur að Goldberg-tilbrigðunum.

„Fyrri platan skýrði sýn mína á Goldberg-tilbrigðin. Hún frelsaði mig líka. Því það eru alltaf allir að segja manni hvernig Bach eigi að vera, hvort heldur það snýr að hljóðfæravalinu, pedalvinnunni eða tempóinu. Það eru allir með sín svör og tilbúnir að útskýra fyrir þér hvernig Bach eigi að vera,“ segir Víkingur og rifjar upp að á fyrri Bach-plötu sinni hafi hann meðvitað unnið með ólíka Bach-stíla, ekki síst til að losa sig „undan dogmunni um hvað mætti og mætti ekki gera þegar kemur að Bach og finna minn eigin Bach. Það frelsi tók ég síðan með mér yfir í Goldberg-tilbrigðin,“ segir Víkingur og áréttar að hann hafi orðið að koma með næstu Bach-plötu sína núna.

Hvers vegna?

„Bæði vegna þess að ég hef fengið ótal óskir um slíkt en ekki síður af því að ég fann mig knúinn til þess tónlistarlega,“ segir Víkingur og fer ekki dult með það að það hafi verið honum hjartans mál að fá tækifæri til að takast á við Goldberg-tilbrigðin í tengslum við 40 ára afmæli sitt. „Mér finnst að með þessari upptöku og tónleikaferðalagi sé ég að loka ákveðnum kafla í lífi mínu og hefja nýjan.“

Hvað mun einkenna næsta kaflann?

„Ég held að ég sé að sigla inn í Bach-tímabil. Ég er ekki þar með endilega að segja að næsta plata verði líka helguð Bach, en ég finn svo mikla ást á þessu viðfangsefni og mér finnst svo margt ósagt í verkum hans. Bach er, að mínu mati, mesti listamaður sögunnar. Einhverra hluta vegna eru furðu margir af fremstu píanistum heims sem fást lítið sem ekkert við hann,“ segir Víkingur og tekur fram að erfiðast sé að finna frelsið í höfundarverki Bachs.

Góð list sundrar oft

„Það tekur svo langan tíma að þróa sína nálgun á Bach. Maður þarf svolítið að frelsast undan hugmyndinni um Bach til að geta spilað hann og mér finnst ég vera að ná því betur og betur. Í dag er ég í raun hvergi frjálsari en í Bach. Ég veit að ég spila hann á afgerandi hátt og þess vegna geri ég enga kröfu um að fólki líki það sem ég er að gera. Ég veit að fólk hefur sterkar skoðanir á Bach og það þarf ákveðinn þroska til að sætta sig við það að maður getur aldrei gert öllum til hæfis. Allir mínar uppáhaldsflytjendur, þeirra á meðal Glenn Gould og Horowitz og Rakhmanínov, hafa gert afgerandi verk sem hafa skipt fólki í fylkingar. Góð list sameinar ekki alltaf, hún sundrar oft.“

Það er ekki hægt að sleppa þér án þess að forvitnast hvað tekur við þegar Bach-túrnum þínum lýkur.

„Á næsta ári bíður mín spennandi verkefni með tónskáldinu John Adams sem er einn af mínum bestu vinum í tónlistinni. Hann er að skrifa fyrir mig píanókonsert, sem er hans fjórði, og ég mun einnig flytja hina þrjá eftir hann á tónleikum og í framhaldinu taka alla fjóra konsertana upp með honum að stjórna á vegum DG með stórkostlegri hjómsveit, sem ég má ekki enn upplýsa hver er,“ segir Víkingur, en sú plata kemur ekki út fyrr en 2027 þegar Adams verður áttræður.

„Í framhaldinu fer ég á dúó-túr um Bandaríkin og Evrópu með Yuju Wang píanóleikara, sem verður mjög áhugavert og fyrsti dúó-píanótúrinn okkar beggja. Hún er auðvitað ótrúlegur píanóleikari. Svo er ég að fara að spila Brahms-konsertana báða með stórkostlegum hljómsveitum,“ segir Víkingur og tekur fram að það hafi verið töluverð áskorun að halda sig einvörðungu við að spila Goldberg-tilbrigðin í tæpt ár og halda sig alfarið frá frábærum hljómsveitum og stjórnendum.

Einn með ferðatöskuna

„En mér fannst nauðsynlegt og áhugavert að eiga ár með sjálfum mér, einn með ferðatöskuna, nóturnar og Bach. Ég er mjög spenntur að sjá hvar ég verði staddur í júní á næsta ári og vita hvað mér muni þá finnast um upptökuna mína þegar ég verð búinn að fara 88 ferðir í kringum aríuna með Goldberg. Kannski tek ég verkið upp aftur þá til að skrásetja breytta sýn mína á verkið, hvort sem ég gef það út eða ekki.“

Eru einhverjir tónleikastaðir fram undan sem þú hlakkar meira til að leika á en aðrir?

„Ég er í sannleika sagt spenntastur fyrir fertugsafmælisdeginum í Hörpu í febrúar, en ég er líka mjög spenntur fyrir Royal Festival Hall í London í næstu viku; Fílharmóníunni í Berlín í október; Müpa í Búdapest í nóvember, sem hannað er af sömu hljóðhönnuðum og gerðu Hörpu; einnig í Suntory Hall, sem er uppáhaldstónleikasalurinn minn í Tókýó, í desember; Carnegie Hall í New York í febrúar; Óperuhúsinu í Sydney í mars og Walt Disney-salurinn í Los Angeles í maí.“

Í ljósi þess að þú sendir ávallt frá þér nýja plötu hjá DG á 18 mánaða fresti, verð ég að spyrja hvort næsta plata þín sé væntanleg í mars 2025?

„Já, en ég get enn ekki sagt hvað verður á henni. Ég er í sannleika sagt með tvær hugmyndir og er enn ekki búinn að ákveða hvor þeirra verður ofan á. Það kallast á í mér að gera aðra Bach-plötu eða aðra fantasíuplötu í kringum annað tónskáld sem væri sambærileg í nálgun við það sem ég gerði á fyrri Bach-plötu minni og skoða það tónskáld út frá nýjum vinklum.“

Hvaða tónskáld væri það?

„Er það Beethoven, Schubert, Chopin, Brahms eða Schumann? Það er einn af þessum, en ég segi ekki meir í bili.“

Nefnt eftir besta nemanda Bachs sem hefði getað orðið stórkostlegt tónskáld

Goldberg-tilbrigðin eru verk flytjandans

Johann Sebastian Bach skrifaði Goldberg-tilbrigðin árið 1741 þegar hann var 56 ára gamall, en hann lést 1750. Goldberg-tilbrigðin voru eitt af fáum verkum sem Bach náði að gefa út á prent meðan hann lifði. „Á þessum tíma var farið að halla undan fæti hjá honum líkamlega, en sköpunarlega var hann á hátindi ferils síns þó hann hafi verið fallinn úr tísku hjá samferðafólki sínu og því öllum verið sama um það hvað hann var að semja,“ segir Víkingur og rifjar upp að ævisagnaritari Bachs frá því snemma á 19. öld hafi bent á að á tímum Bachs hefði píanóleikari getað slegið í gegn með færni sinni á hljómborði ef hann réði við að leika eitt eða tvö af tilbrigðunum 30 sem Goldberg-tilbrigðin innihalda.

„Þetta verk er svo yfirgengilegt að stærð á allan hátt, tæknilega, strúktúrískt og frásagnarlega. Það er erfitt að ímynda sér hvernig það hafi verið flutt á tímum Bachs,“ segir Víkingur og bendir á að þó Bach hafi augljóslega séð fyrir sér að verkið væri spilað sem heild, þar sem arían væri flutt í upphafi og lokin eftir að öll tilbrigðin 30 hafi hljómað, sé með öllu óljóst hvort einhver samtímamanna Bachs hafi flutt verkið þannig.

Í ljósi þess að Goldberg-tilbrigðin eru eitt lykilverka Bachs liggur beint við að spyrja hvort ekki felist ákveðin írónía í því að það sé ekki kennt við tónskáldið heldur fyrsta flytjanda þess?

„Írónína eða fegurð. Af því að þetta er verk flytjandans,“ segir Víkingur og rifjar upp að Bach hafi samið verkið að beiðni greifans Keyserlings sem átti erfitt með svefn, en tónlistin átti að hjálpa greifanum að sofa betur. „Johann Gottlieb Goldberg var á þessum tíma 14 ára nemandi Bachs sem dó því miður alltof ungur, því hann var besti nemandi Bachs og hefði mögulega getað orðið stórkostlegt tónskáld. Goldberg var látinn búa í næsta herbergi við Keyserling í höll greifans og lék tilbrigðin eftir þörfum. Auðvitað eru þetta Bach-tilbrigðin en þetta eru líka Goldberg-tilbrigðin, Glenn Gould-tilbrigðin, Víkings-tilbrigðin og hver sem spilar þau-tilbrigðin. Ef vel á að vera verður til ótrúlegur fundarstaður í tímaleysi milli flytjandans, Bachs og sólkerfisins sem þetta verk er – því þetta verk er heilt sólkerfi,“ segir Víkingur.

Höf.: Silja Björk Huldudóttir