Sigurður Helgi Líndal fæddist í Reykjavík 2. júlí 1931. Hann lést 2. september 2023 á Hjúkrunarheimilinu Grund.
Foreldrar Sigurðar voru Þórhildur Pálsdóttir Briem húsmóðir, f. 7.12. 1896, og Theodór Björnsson Líndal, lögmaður og síðar prófessor, f. 5.12. 1898. Systkini Sigurðar eru Páll Jakob, f. 1924, d. 1992, Álfheiður Birna, f. 1932, d. 2017, og Bergljót, f. 1934.
Eftirlifandi eiginkona Sigurðar er María Jóhannsdóttir, f. 1943, fv. skrifstofustjóri heimspekideildar HÍ. Foreldrar hennar voru Ísafold Kristjánsdóttir, f. 1907, d. 1996, og Jóhann Ingvar Pétursson, f. 1918, d. 1990. Dóttir Sigurðar og Maríu er Þórhildur, f. 1980, lögfræðingur, og sonur hennar er Sigurður, f. 2021. Dóttir Maríu fyrir hjónaband og uppeldisdóttir Sigurðar er Kristín Vilhjálmsdóttir, f. 1973, þýðandi. Synir hennar eru tvíburarnir Jóhann Pétur Jónsson og Valgarður Bent Jónsson, f. 2000, og Vilhjálmur Stefán Elíasson, f. 2011. Jóhann Pétur er í sambúð með Laufeyju Björt Jónsdóttur, f. 2000.
Sigurður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1951, BA-prófi í latínu og mannkynssögu 1957, embættisprófi í lögfræði 1959 og MA-prófi í sagnfræði 1968. Að loknu lagaprófi stundaði hann nám í réttarsögu við Kaupmannahafnarháskóla 1960 og við Háskólann í Bonn 1961-62. Hann lauk einkaflugmannsprófi 1967.
Sigurður var dómarafulltrúi við embætti Borgardómarans í Reykjavík 1959-60 og 1963-64, hæstaréttarritari frá 1964 til 1972 og gegndi jafnframt starfi lektors við lagadeild HÍ frá 1967 til 1972. Hann var skipaður prófessor í lagadeild 1972 og gegndi því embætti til 2001. Hann veitti Lagastofnun HÍ forstöðu frá 1976 til 2001. Árið 2007 var hann ráðinn prófessor við Háskólann á Bifröst og starfaði þar um skeið. Ennfremur kenndi hann námskeið við lagadeild Háskólans á Akureyri í nokkur ár.
Sigurður var forseti Hins íslenzka bókmenntafélags frá 1967 til 2015. Hann var ritstjóri Sögu Íslands, 11 binda verks, frá 1972 til 2016, og ritstýrði Skírni ásamt Kristjáni Karlssyni 1986-1988. Hann sat í stjórn Stofnunar Árna Magnússonar 1996-2006. Hann var ráðunautur landstjórnar Færeyja í sjálfstæðismálum 1997-2000. Hann átti að baki langan starfsferil á sviði lögfræði, sagnfræði og stjórnmálafræði og eftir hann liggur fjöldi ritverka á þessum fræðasviðum. Þá sat hann í ýmsum nefndum og ráðum og samdi margar álitsgerðir fyrir ýmsa aðila.
Útför Sigurðar fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 14. september 2023, klukkan 13. Streymt verður frá útförinni hér: https://streymi2.syrland.is
Hvernig skrifar kona um manninn sem gekk henni í föðurstað? Mínar fyrstu minningar af Sigurði eru þegar hann kom í heimsókn í Marklandið, þar sem við mamma bjuggum, og sagði mér skilmerkilega hvernig flugvél lendir og tekst á loft, svo skilmerkilega að um hríð langaði mig sjálfa að læra að fljúga. Þannig vil ég muna Sigurð, þann mikla sagnamann sem þreyttist aldrei á að segja okkur krökkunum sögur, hvort sem þær voru af dvölinni á Hallveigu Fróðadóttur, misskiljanlegir latínubrandarar, lög um friðun héra, tilvitnanir í Eglu og Njálu eða flökkusögur af hinum og þessum úr þjóðlífinu, sem við kunnum varla skil á sökum ungs aldurs. Heimilið stóð vinum og vinkonum okkar systra ætíð opið og Sigurður gaf sér iðulega tíma til að ræða við okkur, stríða okkur góðlátlega og fá okkur til að hugsa um hlutina, færa rök fyrir skoðunum okkar og skoða hvort þau rök stæðust. Fullkomlega óþolandi fyrir ungling í uppreisn, auðvitað, en ég lærði að meta það með árunum, því aldrei talaði hann niður til okkar þótt okkur greindi stundum á í skoðunum, alltaf sýndi hann okkur virðingu og áhuga, sömu virðingu og áhuga og hann sýndi drengjunum mínum mörgum árum síðar. Þannig fræddi hann mig um merkingu orða og túlkun, um hvernig hægt er að mistúlka það sem er illa orðað eða lesa meira í hlutina en til stóð. Það var brunnur sem ungum þýðanda þótti gott að geta leitað í.
Sigurður var alltaf til staðar. Manni líkaði ekkert endilega alltaf það sem hann hafði að segja um hlutina, þegar hann benti réttilega á að tilveran væri ekki svarthvít, á gráu svæðin sem ég vildi stundum líta algjörlega framhjá, en hægt og bítandi síaðist það inn og það var góður skóli. Það er því ekki sársaukalaust að kveðja.
Kristín Vilhjálmsdóttir.
Þegar ég minnist Sigurðar föðurbróður míns eru það einkum tvö orð sem koma í hugann, réttlætiskennd og ráðsnilld. Í mínum huga hafði hann til að bera ríka réttlætiskennd sem orð hans og gerðir báru sterkt vitni um. Ráðsnilldin var hvernig hann gat leyst úr málum þótt þeirra verði ekki getið hér. Sigurður var mikilsvirtur lögfræðingur og sagnfræðingur og eftir hann liggur fjöldi greina um þau efni.
Sigurður var á sínum tíma virkur þátttakandi í umræðu um þjóðfélagsmál. Hann gætti þess vel að skoðanir hans, þótt ýmsar hafi verið umdeildar, væru ætíð vel rökstuddar. Stundum urðu hugleiðingar hans um hin ýmsu mál efni til þess að úr ágreiningi leystist. Hinu er ekki að leyna að hann sagði skoðanir sínar umbúðalaust og gat verið herskár í greinum sínum. Hann hafði ætíð hugrekki til að segja hug sinn þótt valdamenn ættu hlut að máli. Er það meðal helstu mannkosta hans.
Sigurður var samt fyrst og fremst fræðimaður og kennari og kenndi almenna lögfræði og réttarsögu. Yfirleitt held ég að nemendur hafi kunnað vel við hann sem kennara þótt fyrir kæmi að hluti kennslustunda færi í að ræða málefni líðandi stundar þótt það ætti einhver tengsl við námsefnið. Sjálfur hafði ég gaman af þeirri umræðu.
Á ferli hans sem fræðimanns hygg ég að mesta þrekvirki hans hafi verið ritstjórn Sögu Íslands þar sem hann sjálfur átti fjöldi greina en ekki síður aðkoma hans að útgáfu Lærdómsrita bókmenntafélagsins.
Ég hef þekkt Sigurð frá því ég man eftir mér. Í barnæsku minni var hann frændinn í útlöndum sem kom heim yfir jólahátíðina. Eitt sinn man ég að hann hafði litla gufuvél meðferðis. Við frændurnir biðum þess í ofvæni að vélin yrði sett í gang. En vélar og þess háttar hlutir virtust ekki liggja vel fyrir Sigurði En að lokum fór vélin í gang – í stuttan tíma. Síðar afsannaði Sigurður framangreinda skoðun og tók einkaflugmannspróf og muni ég rétt var það áður en hann tók bílpróf. En þegar ég minnist þessa atviks verður ekki annað lesið en Sigurði hafði verið hugsað til okkar meðan hann dvaldi í Þýskalandi.Hann var frændgóður.
Sigurður var þannig í senn rökrænn hugsuður en um leið viðkvæmur á sinn hátt. Að minni hyggju er slík manngerð sú fyrirmynd sem við, sem eftur lifum, eigum að fylgja.
Þessari grein er ekki unnt að ljúka án þess að minnast á Maríu Jóhannsdóttir, eiginkonu Sigurðar. Að minni hyggju var hjúskapur þeirra það besta sem henti Sigurð á lífsleið sinni þrátt fyrir allar bækurnar frá gólfi til lofts. Þau eignuðust Þórhildi en áður hafði María átt Kristínu Vilhjálmsdóttur. Þórhildur hefur nú eignast annan Sigurð Líndal. Allar mægðurnar hafa sinnt eiginmanni og föður af stakri natni í veikindum hans.
Ég votta þeim mægðum og öðrum aðstandendum samúð mína og Sigríðar og þakka Sigurði samfylgdina.
Björn Líndal.
Við andlát Sigurðar Líndal, Sigga frænda eins og hann var kallaður á mínu heimili, verður mér ekki rótt nema skrifa stutta kveðju. Sigurður hafði meiri áhrif á líf mitt en flestir aðrir og mikil fyrirmynd. Sigurður var fróðleiksfús, áhugasamur, og fróðari en flestir um sögu, réttarfar, grunngildi, samhengi hluta, íslensku, rökvísi, flug og margt fleira. En umfram allt var hann góður maður og þrátt fyrir sterkar skoðanir hafði hann mildi fyrir duttlungum samtímans. Þegar við yngri kynslóðin sveifluðumst með samtímanum eða tískubylgjum sýndi hann hvorki andúð né predikaði en reyndi kannski að hjálpa manni á mildan hátt með því að setja hlutina í stærra samhengi og fá mann til að hugsa.
Sem barn þá las Sigurður fyrir mig þegar ég var hjá ömmu og afa og grátandi af heimþrá. Síðar las hann fyrir mig drög að greinum eða öðru efni sem ég vildi birta og voru athugasemdir hans alltaf uppbyggilegar og mildar. Ég leitaði oft ráða hjá honum þegar ég þurfti að skilja eitthvað betur eða setja eitthvað fram á skilmerkilegan hátt en umfram allt minnist ég allra jólaboðanna, og spjallsins í þeim sem gat náð yfir stjórnmál, fólk, trú, sögu, heimspeki, tungumál, samtímann eða hvað annað. Ef einhverjum þykir þetta frekar alvörugefið, þá hef ég sjaldan hlegið eins mikið og í þessum samtölum. Sigurður var einstakur húmoristi og fléttaði saman sögum og fróðleik þannig að úr varð hálfgert „standup“.
Sigurður skrifaði minningargrein um eldri bróður minn Theódór þegar hann lést í slysi 1969. Mig langar að vitna óformlega í hana af því að greinin endurspeglar hvaða mann Sigurður hafði að geyma en það er ekki auðvelt að skrifa um ævisögu barns. Hann segir þar m.a. að þegar þjóðskörungar falla frá séu allir sammála um að ævi þeirra hafi verið mikils háttar. En að ævi manns geti verið mikilsháttar í öðrum skilningi – jafnvel ævi 12 ára ungmennis. Ekkert er betur til þess fallið að opna augu manns fyrir því hversu merkilegt það er að vera manneskja en fylgjast með þroskaferli barns. En við sviplegt fráfall barna verður sérstakt tilefni til þess að staldra við og íhuga hið furðulega ævintýri lífsins. Ævisaga þeirra er því einnig mikils háttar sagði Sigurður.
Sigurður kenndi mér að íhaldssemi og framsækni geta farið saman. Að umburðarlyndi og kærleika þurfi ekki að fórna fyrir stefnufestu. Umfram allt elskaði ég Sigga frænda, og stundum skilur maður ekki af hverju við mannfólkið eigum svo oft erfitt með að sýna það dags daglega og að það þurfi sorg til að við getum komið því í orð. Ísland hefur misst einn sinn merkasta son og ég held að margir átti sig ekki á því hve missirinn er mikill. Með sting í hjarta og kökk í hálsinum votta ég og systur mínar, Agnes, Helga og Þórhildur, Maríu, börnum og barnabörnum samúð okkar og ást.
Tómas Ottó Hansson.
Eftir andlát föður okkar 1962 bauðst móður okkar ásamt okkur bræðrum barnungum að flytjast á heimili móðurafa okkar og ömmu á Bergstaðastræti 76, Reykjavík, þótt þau væru komin vel á sjötugsaldur. Þar bjuggum við næsta rúman áratuginn í góðu yfirlæti. Móðir okkar gat stundað fulla vinnu og þegar við fluttumst þaðan áttum við bræður þar eftir sem áður gott athvarf. Verður þetta seint fullþakkað.
Á Bergstaðastræti bjó þá einnig móðurbróðir okkar, Sigurður Líndal, sem í fjölskyldunni var alltaf nefndur Siggi. Hann fæddist í húsinu og bjó þar nánast ævina á enda nema þegar hann dvaldist erlendis við nám.
Sigurður var ekki maður mikilla tilfinninga og hafði ekki mikil bein afskipti af daglegu uppeldi okkar bræðra. Við nutum þó ávallt góðs af nærveru hans og samskiptum við hann og var hann náinn okkur alla tíð. Hann átti það til að skipa okkur til verka á heimilinu sem gerði okkur ekki nema gott. Sjálfur hafði hann reynt ýmislegt, sinnt sveitastörfum og verið til sjós á bæði togurum og millilandaskipum. Ekki eru tök á að rekja hér frekar náms- og starfsferil hans sem var bæði langur og gifturíkur.
Sigurður var íhaldssamur í bestu merkingu þess orðs og eltist lítt við nýjustu strauma í tísku og háttum. Hann hélt vel til haga mörgu af því sem gamalt var og sýndi því jafnan þá virðingu sem bar. Er t.d. margt með sömu ummerkjum á Bergstaðastræti í dag og löngum fyrr.
Sigurður hafði djúpa þekkingu á lögum, sögu og samfélagi, heimspeki, kristni og kirkju, ekki síst frá fyrri tíð. Hann var afar vel lesinn, minnugur og mikill vinnuþjarkur. Á hinn bóginn var hann lítið fyrir tildur og vegtyllur. Sigurður átti mikið bókasafn, m.a. biblíur og rit um lögfræði frá ýmsum tímum auk ritsafna af ýmsu tagi. Hann var kjörinn forseti Hins íslenska bókmenntafélags árið 1967 og gegndi því embætti í tæpa hálfa öld. Margt öndvegisrita var gefið út undir hans stjórn, m.a. Lærdómsrit bókmenntafélagsins og ritröðin Saga Íslands og oft sem góðir gestir sem að útgáfunum komu sóttu hann heim.
Sigurður var gjarnan hrókur alls fagnaðar á mannamótum, góður viðmælandi og hafði þá hæfileika að geta spjallað við nánast hvern sem var og gerði ekki mannamun. Hann hafði ákveðnar skoðanir á ýmsum málefnum samfélagsins en með þekkingu sinni, einarðri afstöðu og skýrri framsetningu ávann hann sér traust og virðingu og mikið byggt á því sem frá honum kom. Oft var leitað til hans um álit, jafnt af lærðum sem leikum, ekki síst af stjórnvöldum hvers tíma og fjölmiðlum og brást hann alla jafna vel við.
Sigurður gekk að eiga eftirlifandi konu sína Maríu Jóhannsdóttur 1979. Í anda Sigurðar var vígslumaður síðasti konungsskipaði sýslumaður landsins. Þessi ráðahagur reyndist Sigurði mikið gæfuspor. Fluttist María á Bergstaðastræti og þar ólust dætur þeirra, Kristín og Þórhildur, upp. Ávallt hefur verið gott þangað að koma og ekki líða úr minni jólaboðin sem þau héldu stórfjölskyldunni langt fram á þessa öld.
Við kveðjum kæran frænda og vin, sem auðgaði æsku okkar og raunar líf okkar allt svo um munaði.
Jónas B. og Guðmundur Þór Guðmundssynir.
Fallinn er í valinn Sigurður Líndal, einhver færasti og lærðasti lögfræðingur landsins.
Sigurður á að baki langa og árangursríka starfsævi. Margt liggur eftir hann í rituðu máli og einnig í sjónvarpsviðtölum.
Það var lán þjóðarinnar að ríkissjónvarpið leitaði oft til Sigurðar þegar lögfræðileg og fleiri spursmál voru til umfjöllunar, enda hafði hann einstakt lag á að fræða og skýra í meitluðu máli. Mikið efni á því að vera í fórum sjónvarpsins. Væri því við hæfi að sjónvarpið setti saman þátt um framlag Sigurðar á þess vegum gegnum árin. Fengist þar án nokkurs efa hin ágætasta yfirsýn yfir veigamikil réttarmál sem verið hafa á döfinni í hans tíð.
Sigurður var strangheiðarlegur fagmaður, sem lét dægurmál ekki hafa áhrif á sig. Hann gerð skýran greinarmun á fullveldi ríkisins og og eignarrétti þess, blandaði þessu tvennu ekki saman eins og nú hendir ýmsa sem telja sig með því afla fylgis.
Hins mikla og frábæra ævistarfs Sigurðar Lindals mun þjóðin njóta til framtíðar.
Jóhann J. Ólafsson.
Við leiðarlok er mér ljúft að minnast Sigurðar Líndal. Kynni okkar hófust fyrir tæpum fimmtíu og átta árum. Það var reyndar á Hótel Sögu 1. desember 1965. Um þær mundir átti að bjóða upp íslenskt skinnhandrit, Skarðsbók postulasagna, hjá Sotheby's í London. Ég taldi að við Íslendingar yrðum að eignast gripinn og hafði í nokkra daga kannað möguleika á því en ekki orðið ágengt. Og nú var ég kominn í návígi við mann sem ég taldi meðal merkisbera íslenskrar menningar. Ég vék mér að Sigurði og hann tók mér vel og hafði auðvitað áhuga á málinu. Hann virtist bundinn trúnaði og ekki geta sagt allt sem hann vissi. Ég fór samt rólegri af fundi hans. Skarðsbók var slegin Íslendingum og íslensku bankarnir borguðu. Við Sigurður áttum síðan spjall á förnum vegi nokkrum sinnum eftir þetta. Þær samræður enduðu með því að ég fór að vinna að málefnum Bókmenntafélagsins með Sigurði í byrjun árs 1970. Ég átti því láni að fagna að starfa með honum í 45 ár, lengur en með nokkrum öðrum manni. Starfið var mjög fjölbreytt. Það var ákaflega ánægjulegt og lærdómsríkt að starfa með Sigurði allan þennan tíma, í raun ákveðin forréttindi og gæfa. Fyrir það er ég þakklátur. Þekking hans var á við alfræðibók og hann ávallt reiðubúinn að miðla óspart af henni. Úrlausnarefnin voru ærin. Alltaf var Sigurður jákvæður og yfirvegaður. Mér fannst Sigurður síungur langt fram eftir aldri, og ekki skemmdi fyrir gott skopskyn hans.
Sigurður var forseti Bókmenntafélagsins lengur en nokkur annar maður eða í 48 ár. Árið 2001 gaf Bókmenntafélagið út afmælisrit til heiðurs Sigurði sjötugum. Bókin heitir Líndæla og í hana rita á fimmta tug fræðimanna greinar. Í henni er heillaóskaskrá meira en 1.400 einstaklinga, menningarstofnana, skóla og bókasafna. Í bókinni er einnig viðamikil ritaskrá Sigurðar. Ritverk hans voru fjölbreytt að efni og efnistökum, viðamikil fræðileg rit á sviði sagnfræði og lögfræði. Einnig fjölmargar greinar um málefni líðandi stundar, stjórnmál og stjórnskipunarrétt, þjóðernis-, mennta- og menningarmál. Árið 2015 var Sigurður kjörinn heiðursfélagi Hins íslenska bókmenntafélags. Í Sögu Íslendinga segir Þorkell Jóhannesson prófessor að stofnun Bókmenntafélagsins sé talin „einn hinn mesti atburður í sögu íslenskra mennta, því að hún táknar gagnger umskipti í viðhorfi manna gagnvart íslenzkri tungu og bókmenntum síðari alda“. Það var happ fyrir íslenska menningu að lærdóms- og þjóðfrelsismaðurinn Sigurður Líndal var kjörinn forseti Bókmenntafélagsins. Hann var einn af ötulustu frömuðum íslenskrar menningar. Eiginkona Sigurðar, María Jóhannsdóttir, reyndist honum heilladís. Ég þakka Sigurði og Maríu fyrir vináttu og ánægjulegar samverustundir á heimili þeirra á liðnum áratugum og sendi Maríu og öðrum ástvinum Sigurðar innilegar samúðarkveðjur.
Sverrir Kristinsson.
Það féllu tár þegar Lára Kristín Ingólfsdóttir, eiginkona Páls Ásgeirssonar, frænda Sigga, hringdi þann 3. september og lét mig vita af fráfalli hans.
Þegar við vorum litlir áttum við heima í sömu götu, á árunum 1937 og 1938. Hann var sérstakur krakki og við kynntumst lítið þá en við fylgdumst að í þeim skólum sem þá voru reknir og síðar í Menntaskólanum í Reykjavík. Hann var feiknagóður ræðumaður og mælskur mjög, honum varð aldrei orða vant, svaraði alltaf röksamlega fyrir sig og af einurð. Í Menntaskólanum virtust fundir okkar skólasystkina koðna niður ef hann vantaði. Hann hafði alltaf persónulegar skoðanir á öllu. Sem dæmi nefni ég er við fórum á uppboð hjá Sigurði Benediktssyni uppboðshaldara, þar sem boðnar voru upp eigur Guðbrands Jónssonar, sem hann hafði fengið að gjöf frá Göring og fleiri nasistum. Boðin var upp ljóðabók eftir Schiller (eða Heine) sem Guðbrandur hafði fengið að gjöf frá Göring. Sigurður uppboðshaldari kallar: Fæ ég boð? Þá kallar Siggi: Tvær krónur! Það varð þögn andartak, svo segir uppboðshaldarinn: Hvurslags er þetta! Þá svarar Siggi: ég varð ekki var við að það væru nein lágmarksákvæði á þessu uppboði. Svona var hann og var óhræddur við að láta skoðanir sínar í ljós. Hann lauk prófi í latínu og mannkynssögu frá Háskóla Íslands árið 1957 og cand. jur. frá sama skóla 1959. Hann lauk að auki cand. mag. frá HÍ 1968.
Aldrei varð ég var við pólitíska afstöðu Sigga, en einhvern tíma þegar við vorum strákar og Íslendingar við það að slíta stjórnarsamstarfi við Dani, þá strengdu Siggi og Halli vinur hans (sem lést um fermingu) borða yfir Bergstaðastræti, á milli húsa feðra þeirra, sem á stóð: „Niður með Danakonung“! Eftir að borðinn hafði hangið uppi í nokkra daga kom Guðmundur Vilhjálmsson (faðir Halla) og sagði: Er ekki komið nóg, drengir?! og fjarlægði borðann.
Einhverju sinni eftir að Siggi veiktist fékk ég þau hjónin til að koma á fund hjá okkur bekkjarbræðrum úr B-bekknum. Við vorum fjórtán á fundinum og Siggi hélt þar erindi um fullveldi Íslands og svaraði á eftir spurningum eins og ekkert væri, þrátt fyrir sjúkdóm sinn. Þau hjónin voru dugleg að mæta á mánaðarlega fundi okkar skólasystkinanna úr MR. Ef Siggi var spurður einhvers, þá svaraði hann alltaf af visku sinni, þrátt fyrir veikindin.
Hann vissi bókstaflega allt og var slíkur brunnur visku, að það ætti að reisa honum viskubrunn sem minnisvarða.
Ég sendi innilegar samúðarkveðjur til Maríu, Þórhildar, Kristínar og afabarna.
Jón Jónsson, bekkjarbróðir úr B-bekk MR 1951.
Kveðja frá Hinu íslenska bókmenntafélagi
Sigurður Líndal prófessor var forseti Hins íslenska bókmenntafélags í ein 48 ár, lengur en nokkur annar fyrr eða síðar. Sigurður tók hið forna félag að sér skömmu eftir 150 ára afmæli þess og var nýhættur störfum þegar 200 ára afmæli félagsins var fagnað árið 2016. Það kom í hans hlut að ferja þetta forna félag gegnum umbrotatíma og breyta því varanlega.
Óhætt er að kalla forsetaár Sigurðar blómaskeið í sögu félagsins að mörgu leyti. Má nefna ritröðina Lærdómsrit Bókmenntafélagsins sem hleypt var af stokkunum árið 1970 og eru þau nú á annað hundrað. Einnig ritstýrði Sigurður Líndal Sögu Íslands í ellefu bindum í tilefni 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar og skrifaði sjálfur ýmsa kafla í ritið. Hann ritstýrði einnig Skírni á tímabili og sat í stjórn Hins íslenska fornritafélags. Spor Sigurðar í íslensku bókmenntalífi eru stór og varanleg.
Ásamt Bókmenntafélaginu helgaði Sigurður Líndal Háskóla Íslands sín bestu ár. Hann var ekki síður sérfróður um sagnfræði en lögfræði og setti það mjög svip á störf hans. Hann kenndi réttarsögu við Háskóla Íslands áratugum saman og lét eftir sig mörg fræðirit á þessu sviði. Auk þess var hann margoft ráðunautur stjórnvalda í mikilvægum málum, m.a. þegar kom að endurskoðun stjórnarskrárinnar.
Sigurður Líndal var þægilegur í viðkynningu, lipur sögumaður, ritfær og greinargóður túlkandi laga og sögu, atorkumikill félagsmálamaður, fylginn sér en laginn að leysa úr flækjum og miðla málum. Bókmenntafélagið þakkar honum trausta forystu um langan aldur.
Ármann Jakobsson.
„Ef þið getið ekki útskýrt eitthvað fyrir manninum á götunni þurfið þið líklega að velta því fyrir ykkur hvort þið skiljið það sjálf.“ Einhvern veginn á þessa leið kom Sigurður Líndal því til skila á fyrstu vikum laganámsins að lögin væru síður en svo einkamál lögfræðinga og eins bærum við, jafnvel sem óharðnaðir laganemar, í því efni ákveðnar skyldur gagnvart samfélaginu. Sigurður sló þó ekki aðeins á hvers kyns „lögfræðingahroka“ heldur snerist kennslan, og raunar ævistarf hans, að verulegu leyti um um að varpa ljósi á lögin í víðara samhengi, einkum frá sjónarhóli sagnfræði og heimspeki, og þar með hefja lögfræðina upp yfir „lögtækni“.
Sigurður var að mörgu leyti óvenjulegur kennari og átti það bæði við um líflega framsögu og efnistök. Aldrei var leiðinlegt í tímum hjá Sigurði og varla kom það fyrir að ekki hefði þar eitthvað komið fram sem hvatti mann til umhugsunar, jafnvel fram á þennan dag. Erfitt er að koma orðum að því hversu mikla virðingu við bárum, og berum enn, fyrir djúpri þekkingu Sigurðar en þó ekki síður dómgreind hans, einkum þegar fram í sótti. En Sigurður var okkur þó ekki síður fyrirmynd að því leyti að hann var óhræddur við að stíga niður úr hinum „akademíska fílabeinsturni“ og taka að sér hagnýt verkefni, s.s. dómstörf og álitsgerðir, auk þess sem hann taldi það skyldu sína að stuðla að upplýstri umræðu um lögfræðileg mál í fjölmiðlum.
Okkur átti eftir að veitast sá heiður að starfa um skeið með Sigurði í lagadeild og taka að lokum við umsjón í þeirri grein sem hann hafði byggt upp í áratugi, almennri lögfræði. Þótt okkur væri ljóst að við værum þess ekki umkomnir að fylla það skarð sem hann skildi eftir, reyndum við að halda í heiðri arfleifð hans, ekki síst með því að leggja rækt við hin „gagnslausu vísindi“, svo notað sé orðalag hans sjálfs. Spor Sigurðar í íslenskri lögfræði, kennslu og lagahugsun liggja víðar og dýpra en svo að um það verði fjallað í þessum fáu orðum. Með fráfalli Sigurðar er þó ekki aðeins horfinn á braut lærifaðir sem sló okkur til sem lögfræðinga og vísaði veginn í ævistarfinu, heldur einnig kær vinur sem við minnumst með þakklæti, virðingu og söknuði.
Skúli Magnússon,
Róbert R. Spanó.
Einar Erlendsson arkitekt teiknaði árið 1927 hús fyrir Theódór B. Líndal cand. jur. á Bergstaðastræti 76. Þar fæddist Sigurður 2. júlí 1931 og bjó alla sína ævi, meðan heilsan leyfði. Sigurður gekk í Barnaskóla Austurbæjar og þar eignaðist hann Jónas Hallgrímsson að sessunaut. Jónas, síðar læknir, sagði að Sigurður hefði þá þegar verið einstaklega fróðleiksfús.
Sigurður gekk í Menntaskólann. Í fjórða bekk fór hann ásamt skólabróður til þess að standa við vegg Alþingishússins og verja það 30. mars 1949 og, eins og hann orðaði það síðar, „biðum þess er verða vildi“. Sigurður varð stúdent 1951. Þá tók við háskólanám í hans helstu áhugamálum, sögu, latínu og lögum, hér heima og erlendis. Eftir störf í héraðsdómi varð hann hæstaréttarritari 1964, lektor við lagadeild Háskóla Íslands 1967 og prófessor frá 1972. Í byrjun haustmisseris fór hann á hverju ári með fyrstaársnema til Þingvalla og sagði þeim frá Alþingi til forna. Var talið að þarna væri lögsögumaðurinn lifandi kominn. Þegar eldgosið hófst í Vestmannaeyjum 1973 dreif Sigurður hóp laganema með sér út um leið og leyfi fékkst til þess að moka ofan af húsum og bjarga því sem bjargað varð. Hann hafði verið á sjó á sumrin á námsárunum og kunni til verka.
Störfin hlóðust á hann. Í júní 1956 varð hann ritari Nemendasambands MR og formaður stjórnar þess frá júní 1967. Í júlí sama ár var hann kjörinn forseti Hins íslenska bókmenntafélags. Þar fengu hæfileikar hans að njóta sín svo um munaði. Ég kom í stjórn Nemendasambandsins 1972 og í fulltrúaráð Bókmenntafélagsins 1975 og naut stjórnar hans og leiðsagnar ásamt úrvalsfólki. Sigurður var fjölfróður og hafði áhuga á öllum menningarmálum. Hann tók mikinn þátt í þjóðmálaumræðu, var skýrmæltur og rökfastur í ræðu og riti, oft sem kerúb með sveipanda sverði og fjölmiðlar leituðu til hans um lögfræðileg efni. Allir fóru fróðari af hans fundi. Bækur voru hans yndi eins og sjá mátti af bókasafni hans. Eftir að systkinin voru flogin úr hreiðrinu og Sigurður einn eftir hjá foreldrum sínum var byggt við húsið stórt bókaherbergi Sigurðar. Það kom að góðum notum þegar hann og hans góða kona, María Jóhannsdóttir, héldu boð eftir aðalfundi Bókmenntafélagsins. Þær veislur verða lengi í minnum hafðar. En þegar hann varð sjötugur dugði ekki minna en að bjóða í Viðeyjarstofu. Hafi veislur hans verið góðar eru þær þó ekkert hjá verkum hans á fræðasviðum. Hann var eins og góður liðsforingi með Sverri Kristinsson bókavörð félagsins sér við hlið. Sigurður hreif fólk með sér og hafði lag á að fá vini og félaga til samstarfs um bækur og bókaflokka, rit og ritraðir. Hann var lengur en nokkur annar á forsetastóli, eða þar til forseti varð aftur Jón Sigurðsson. Níræður hélt hann enn veislu en nú á Bergstaðastræti, í sól og blíðu. Þá var heilsu Sigurðar farið að hraka. María var stoð hans og stytta í veikindunum.
Sigurður var stór í hugsun, háttum og verkum, hugrakkur og skemmtilegur, engum líkur. Það er heiður að hafa átt vináttu hans og verið honum samferða. Blessuð sé hans minning,
Garðar Gíslason.
„Jæja, nú gildir það!“ Þetta var herhvöt Sigurðar Líndal, höfð eftir leikfimikennaranum Valdimari Örnólfssyni. Það væri núna eða aldrei. Þannig greip Sigurður einatt til orða þegar ekki mætti láta deigan síga. Ekki svo að skilja að hann hafi verið ýtinn eða kröfuharður verkstjóri, enda hvatningin ætíð blandin prakkaralegri kerskni. Ég man fyrst eftir Sigurði sem agnarsmár polli við leik á Bergstaðastrætinu þar sem amma og afi bjuggu. Sigurður sótti sér timbur fyrir bókahillur í fyrirtæki afa míns sem fyrir vikið kallaði hann ætíð „herra smið“. Ef þeir tveir tóku hvor annan tali á Bergó gat ungur pjakkurinn orðið óþolinmóður og hugsað: „Ætlar þessi maður aldrei að hætta að masa?“
Leiðir okkar lágu svo saman á ný um aldamótin síðustu. Sigurður var þá að leita að aðstoðarmanni við ritstjórn ritraðarinnar Sögu Íslands. Í nokkur ár hafði orðið messufall í útgáfunni og tók ég þátt í að aðstoða hann við að stýra því fleyi á leiðarenda.
Er skemmst frá því að segja að fáir hafa haft eins afdrifarík áhrif á minn starfsframa, fyrst og síðast með því að treysta mér ungum að árum fyrir krefjandi verkefnum. Og hvílík forréttindi að vera samferða honum um söguna. Sigurði varð t.d. tíðrætt um að hafa tengingu við móðuharðindin í lok 18. aldar með einungis einum millilið og sjálfur var hann sem lifandi aldarspegill um atburði 20. aldar. Þannig kviknaði hið löngu liðna til lífsins þegar hann sagði frá af kankvísri innlifun með sinni björtu og þýðu rödd.
Ég gleymi aldrei þegar við vorum að tína saman myndir fyrir kafla um sögu Íslands á öndverðri 19. öld. Þetta var í miðju umróti bankahrunsins í október 2008. Ég vildi stundum gera hlé á vinnu til að hlusta með kvíðboga á útvarpsfréttir af nýjustu vátíðindum. Alltaf gat Sigurður létt lundina með því að rifja upp alls ótengdar gamansögur eða benda á kómískar hliðar í samtímanum. Þannig bar hann saman atburði ársins 1808 þegar breskur víkingur, Gilpin að nafni, framdi strandhögg í Reykjavík og hafði á brott með sér landsjóð Íslands. Reifaði Sigurður af æðruleysi hvernig þessi atburður kallaðist á við Icesave-deiluna 200 árum síðar þar sem íslenskir útrásarvíkingar höfðu farið glæfralega með sparisjóði Breta. „Vittu til, líkt og 1808 mun lífið halda áfram.“
Sigurður var þannig þrautagóður á raunastund. Alltaf tilbúinn að slá á létta strengi og vera sannur vinur í raun. Núna reikar hugurinn ósjálfrátt aftur til æskuáranna á Bergstaðastrætinu. Aldrei hefði ungi drengurinn rennt grun í að eiga eftir að klöngrast með þessum málglaða manni upp á Kínamúrinn, skríða um jarðgöng í Saigon, vera strandaglópar í Laos, púa vatnspípu í Teheran, týnast á fjallgöngu í Nepal og syngja um kartöflugarðana í Þykkvabænum með Árna Johnsen á bökkum Yangtze. Því síður gert sér í hugarlund að hann og Sigurður Líndal ættu eftir að verða svona góðir vinir.
Núna gildir það eitt að þakka einstökum félaga ótal samverustundir í lífi og starfi. Um leið sendi ég mínar allra innilegustu samúðarkveðjur til Maríu, Þórhildar, Kristínar og barnabarna.
Pétur Hrafn Árnason.
Það eru orðnir nokkrir áratugir síðan leiðir okkar Sigurðar Líndals lágu fyrst saman. Það var árið 1979 er Alexander von Humboldtfélagið á Íslandi – félag fyrrverandi styrkþega Alexander von Humboldt-stofnunarinnar í Þýskalandi – var stofnað. Sigurður var fyrst endurskoðandi reikninga félagsins á þeim árum er ég var gjaldkeri en árið 1989 kom hann sem ritari í stjórnina. Þar var Sigurður á heimavelli, skrifaði afar góðar og skýrar stjórnarfundargerðir auk bréfaskrifta á vegum félagsins. Svo öflugur var hann að við kusum hann árum saman til að rita fundargerð aðalfundar félagsins meðan heilsan leyfði. Það var afar ánægjulegt að vinna með Sigurði. Hann var hafsjór af fróðleik – bara spyrja Sigurð, hann átti oftast svarið. Hann var eins konar wikipedia síns tíma. Nú að leiðarlokum vil ég fyrir hönd okkar félaganna í Humboldt-félaginu þakka Sigurði fyrir löng og góð kynni. Við Helga sendum Maríu og dætrunum innilegar samúðarkveðjur.
Sigfús A. Schopka.
Að loknu stúdentsprófi fór ég í lögfræði við Háskóla Íslands. Meðal kennara minna fyrsta árið var Sigurður Líndal og mat ég hann mikils. Til dæmis bað ég hann að vera umsjónarkennara minn við ritun lokaritgerðar til embættisprófs sem fjallaði um verkbann, það er vinnustöðvun atvinnurekanda.
Eftir lokapróf 1981 fór ég að vinna í fjármálaráðuneytinu og vann þar næstu árin. Árið 1990 ákvað ég hins vegar að venda kvæði mínu í kross og snúa mér alfarið að rannsóknum á sviði skattaréttar. Í framhaldi hafði ég samband við Sigurð og spurði hvort hann gæti mælt með mér í tengslum við umsókn mína um styrk hjá Vísindasjóði sem þá höfðu nýlega verið auglýstir og var það auðsótt mál. Fékk ég hæsta styrkinn í mínum flokki, ekki eitt heldur tvö ár í röð.
Árið 1999 vann ég hjá endurskoðunarfyrirtækinu Grant Thornton. Þetta var í miðjum uppganginum og allt á fleygiferð. Til að lífga upp á skammdegið ákváðum við að skipuleggja ráðstefnu um alþjóðlega skattasniðgöngu. Í framhaldi hafði ég samband við Jan Pedersen, fyrrum kennara minn og einn helsta skattalögfræðing Dana, og spurði hvort hann gæti ekki aðstoðað okkur við ráðstefnuhaldið. Sjálfsagt mál, svaraði hann. Ráðstefnan gekk vel og sóttu hana um tvö hundruð manns.
Þá var aðeins eftir að þakka Jan. Ég var búinn að fara með hann í Bláa lónið svo þetta þurfti að vera svoldið töff. Hvers vegna förum við ekki með hann á Þingvöll og biðjum Sigurð Líndal að leiðsegja okkur, sagði einhver. Hann er jú sérfræðingur í stjórnskipunarrétti og þekkir auk þess sögu Þingvalla vel. Þá talar hann ágætis dönsku svo það er ekki vandamál og getur jafnvel borið fyrir sig þýsku ef þurfa þykir, svaraði annar. Þetta gekk eftir og áttum við góða stund saman. Því næst brunuðum við upp á Geysi og borðuðum kvöldverð hjá systur minni.
Síðan er liðinn um aldarfjórðungur og ávallt er við hittumst talar Daninn um „litla“ manninn, hversu frábær hann hefði verið í frásögn sinni. Vissulega var Sigurður minni en Jan, enda hávaxinn maður. En þennan dag var Sigurður hins vegar stærri en við allir til samans. Svo magnþrungin var frásögn hans að allt svo að segja lifnaði við. Þannig mun ég minnast hans.
Ásmundur G. Vilhjálmsson.
Sigurður Líndal var í raun stofnun út af fyrir sig. Vissulega voru til héraðsdómstólar og Hæstiréttur og síðar bættist Landsréttur við. En yfir þessu öllu sveimaði Sigurður Líndal og í raun var eins og hin endanlega niðurstaða væri ekki í höfn fyrr en hann hefði tjáð sig.
Sigurði tókst líkt og Sigurði Þórarinssyni, Kristjáni Eldjárn og jafnvel Ásgeiri Jónssyni að gera fræðigrein sína að almenningseign. Ekki með því að slaka á í fræðilegum efnum heldur með því að nota gott mál og hafa hugrekki til víkja ekki frá þeim aga sem fræðin krefjast. „Óskýrt orðalag ber vitni um óskýra hugsun,“ sagði Sigurður oft. Honum tókst að vera bæði talsmaður kvótakerfisins og andstæðingur fjölmiðlalaga, sem var nánast útilokað í samfélagi sem skipar sér í lið óháð málefnum. Hann var einfaldlega í liði lögfræðinnar og fannst hvort tveggja ótækt, að rugla saman fullveldisrétti og eignarrétti og samþykkja lög sem stæðust ekki stjórnarskrá.
Ég kynntist Sigurði vel þegar ég tók að mér að skipuleggja norrænt laganemamót. Þetta var tröllvaxið verkefni en hann hvatti mig áfram og hét mér stuðningi. Það munaði um minna. Við sátum oft á skrifstofu hans í Bergstaðastræti og nánast í hvert einasta skipti hringdu fjölmiðlar og leituðu álits á lögfræðilegum efnum. Sigurði varð ekki svarafátt þar frekar en annars staðar og átti ríkan þátt í að gera þá umræðu betri og faglegri. Þessu hlutverki hefur enginn tekið við og fyrir vikið hefur þjóðfélagsumræðunni hrakað hvað þetta varðar.
Þegar á reyndi var gott að leita til Sigurðar. „Farðu sparlega með lýsingarorð í lögfræðilegum texta,“ var eitt ráðið, og þegar yfirlesturinn dugði ekki til var leitað til hans um lögfræðilegar álitsgerðir. „Útvegaðu mér upplýsingar en ekki skoðanir. Mundu að þú átt álitsgerðina og þarft ekki að birta hana ef þér líkar ekki niðurstaðan.“ Með álitsgerð Sigurður Líndal í höndum þurfti yfirleitt ekkert meira.
Þótt Sigurður hefði sómt sér vel við hvaða háskóla sem var í heiminum leið honum samt alltaf best úti í íslenskri náttúru með prjónahúfu á höfði. Hann hafði gríðarlega þekkingu á íslenskri sögu og einstaka frásagnarhæfileika, alþjóðlegur en um leið mikill þjóðernissinni í bestu merkingu þess orðs.
Einhverju sinni þegar við stóðum og ræddum saman svifu á okkur tveir snyrtilegir menn sem vildu fræða okkur um guð. Sigurður spurði hvort þeir þekktu guðspeki Kants. Það gerðu þeir ekki. „Þá skuluð þið kynna ykkur Kant og koma síðan og tala við mig um guð.“ Hvað sem er þarna hinum megin versnar það ekki við að fá Sigurð Líndal og eins gott að þeir sem þar eru fyrir séu vel undirbúnir.
„Ég er farinn að gleyma nöfnum,“ sagði hann við mig í eitt af síðustu skiptunum sem við hittumst. Tilefnið var að reyna að fá hann til að rita ævisögu sína og leggja til skrásetjara, sem honum leist ekki illa á. Sagðist reyndar vera umtalsillur en við vorum sammála um að það væri kostur þegar ævisögur ættu í hlut.
Með Sigurði Líndal er genginn ógleymanlegur maður. Aðstandendum hans votta ég innilega samúð.
Helgi Sigurðsson.
Eyðist það sem af er tekið segir máltækið. Þetta virðist eiga við um flesta hluti, gögn og gæði. Þó sýnist sem betur fer vera ein veigamikil undantekning frá þessari reglu, en það er mannsandinn. Svo er að sjá sem andlegt atgervi manna geti aukist þótt af því sé tekið, einkum sé því deilt með öðrum. Sigurður Líndal og hans mikla ævistarf er glöggt dæmi um þessa mikilvægu undantekningu.
Við sem vorum svo lánsöm að fá að starfa með honum á vettvangi Hins íslenska bókmenntafélags vitum vel hversu mikilvirkur og vandvirkur hann var. Óeigingjörn störf hans sem forseti Bókmenntafélagsins í fjörutíu og átta ár samfleytt – lengur en nokkur annar – verða seint fullþökkuð.
Þessar alkunnu hendingar úr kvæði Stephans G. Stephanssonar mætti skoða sem einkunnarorð Sigurðar:
að hugsa ekki í árum en öldum,
að alheimta ei daglaun að kvöldum
því svo lengist mannsævin mest
Ritstörf hans á sviði lögfræði og sagnfræði voru afar umfangsmikil. Ég nefni stórvirki hans sem ritstjóri og einn höfunda Sögu Íslands sem hann vann að allt frá þjóðhátíðarárinu 1974 til verkaloka 2016 – allt var þetta mikla starf unnið við hlið mikilla embættisanna. Hann lét ekki aldurinn vefjast fyrir sér og allmörg ár eftir áttrætt var hann enn að kenna lögfræði við þrjá háskóla á Íslandi og skrifaði greinar í lærð tímarit og bækur bæði hér á landi og í öðrum löndum. Það merkilega við Sigurð Líndal var hversu ósérhlífinn hann var og örlátur á eigin verk og jafnan tilbúinn að hlusta á álit annarra – ef það virtist á viti byggt. Hann var afar vandvirkur fræðimaður og jafnframt skarpskyggn á kjarna hvers máls. Hann var oftast fljótur að mynda sér skoðun – og koma henni skipulega frá sér – á hverju því úrlausnarefni sem hann tók að sér að sinna. Það var landinu mikið lán að eiga slíkan mann.
Mig langar líka til að minnast á hversu mikið lán það var að fá að njóta leiðsagnar hans um Þingvelli við Öxará. Þar naut sín frábær frásagnargáfa hans bæði á íslensku og erlendum tungumálum, þekking hans á sögu staðarins og landsins; á staðháttum – og ekki síst á réttarsögu Íslands og nálægra landa. Allt fléttaðist þetta saman í frásögn Sigurðar. Margir samferðamenn bæði innlendir og erlendir höfðu orð á því hversu áhrifamikil samverustund á Þingvöllum með fræðaranum Sigurði hafi verið.
Í forsetatíð Sigurðar efldist Bókmenntafélagið mjög sem útgefandi alls konar bóka sem styðja og styrkja íslenska tungu – bókvísi og menntun.
Ég hef hér aðeins nefnt stórvirkið Sögu Íslands, en það er óhætt að fullyrða að með útgáfu Lærdómsritanna – sem hófst stuttu eftir að Sigurður tók við forsetastörfum – hafi verið brotið í blað í bókaútgáfu á Íslandi til mikils menningaauka. Ásamt Þorsteini Gylfasyni sem var fyrsti ritstjóri Lærdómsritanna ýtti Sigurður þessum merka bókaflokki úr vör árið 1970. Lærdómsritin, sem nú eru orðin 103, tengja Íslendinga við margt hið besta í menntun og vísindalegri hugsun í veröldinni frá fornöld til okkar daga.
Við sem tókum við af Sigurði í forystu Bókmenntafélagsins tókum við dýrmætum arfi sem við munum reyna að viðhalda og ávaxta eftir bestu getu.
Ég var svo lánsamur að vera náinn samverkamaður Sigurðar um langt árabil og vil að leiðarlokum þakka honum góð kynni og vináttu.
Við Laufey vottum Maríu og fjölskyldu hennar allri innilega samúð.
Jón Sigurðsson.
Vorið 2004 sat ég námskeið Sigurðar Líndal í réttarsögu við lagadeild HÍ. Sigurður var þar í essinu sínu. Hann rakti atburði íslenskrar og evrópskrar sögu og tengdi hana og hugmynda- og réttarheimspekilegar kenningar við samtímann. Þetta vor var óvenju róstusamt í þjóðfélagsumræðunni; fólk skiptist í fylkingar þvert á þá hópa sem iðulega voru samherjar. Sigurður tók þar þátt og í máli hans kom skýrt fram sá kjarni í eðli og lífsskoðunum hans að láta ekki tengsl, hagsmuni eða tíðaranda ráða því hvað hann sagði.
Sigurður lýsti sjálfum sér eitt sinn í viðtali sem frjálslyndum íhaldsmanni með félagslegu ívafi. Ýmsum kann að finnast þessi lýsing mótsagnakennd eða ósamrýmanleg en Sigurður batt sig ekki fjötrum tiltekinna hugmynda eða kerfis. Hann tók afstöðu til málefna dagsins; ekki einungis lögfræðilegra heldur líka þjóðfélagslegra eða stjórnmálalegra álitaefna. Hann var fjölmenntaður og takmarkaðist þekking eða áhugasvið hans ekki við lögfræði þótt hún væri aðalstarf hans. Sigurður varð því snemma álitsgjafi fjölmiðla þar sem hann greindi og svaraði spurningum skýrt og hnitmiðað í stað þess að lýsa í löngu máli hvaða lögfræðilegu niðurstöður væri hugsanlegar sem skildi viðmælandann eftir ringlaðri en áður um svar við spurningunni.
Þessi eiginleiki Sigurðar, auk óvenju góðra hæfileika hans til lögfræðilegrar greiningar, að skilja aðalatriði frá aukaatriðum og víðfeðmrar þekkingar, gerði hann sérstakan meðal íslenskra lögfræðinga. Í umræðu dagsins var hann sannarlega betri en enginn þar sem hann takmarkaði sig ekki við þröngt sjónarhorn álitaefnis eða tíðaranda heldur leit á það í stærra samhengi. Hann taldi það skyldu sína að upplýsa almenning og fjölmiðla og stóð vörð um réttarríkið, tunguna, landið og söguna. Hann var tortrygginn á breytingar breytinganna vegna.
Ég kynntist Sigurði fyrst fyrir tæpum þrjátíu árum þegar við Þórhildur, dóttir hans, urðum vinir. Ég veit fyrir víst að honum leist ekki alls kostar í upphafi á þennan pilt sem ætlaði ekki að láta námið í MR standa í vegi fyrir menntun sinni þótt síðar hafi þær áhyggjur að mestu horfið þegar piltur komst í gegnum nálarauga lagadeildar. Þau María voru einkar örlát og hlý og þótti sjálfsagt að opna glæsilegt heimilið á Bergstaðastræti 76 fyrir vinum og bekkjarsystkinum Þórhildar. Ég hitti Sigurð fyrst við slíkt tilefni og í fyrsta samtali okkar, sem þeim síðari, komu allir fyrrnefndir eðliskostir hans í ljós. Hann hafði gaman af fólki og aldur eða kynslóð viðmælanda skipti þar engu máli.
Síðustu árin hvarf samtíminn Sigurði smám saman. Á síðasta fundi okkar hafði hann fyrir nokkru gleymt því hver ég væri. Ég kynnti mig og sagði að hann hefði kennt mér í gamla daga. „Og var ég ekki leiðinlegur?“ spurði hann á móti. „Þvert á móti,“ sagði ég, „þú varst afskaplega skemmtilegur – og frábær kennari.“ Hann brosti til mín, glaður.
Sannarlega er lífið daufara að honum gengnum. Hjá Maríu, Þórhildi, Kristínu og strákunum þeirra er hugur minn og hjartans samúð. Einstakur maður er kvaddur. Hvíli hann í friði.
Ari Karlsson.