Pálmi Stefánsson
Pálmi Stefánsson
Niðurstöður sýndu að ekki bara hvað etið er heldur hvenær skiptir máli.

Pálmi Stefánsson.

Í bók Bas Kast frá 2022, Næringaráttavitanum (Der Ernärungs Kompass), sem seldist í milljónaeintökum og Der Spiegel valdi í 1. sæti á sölulistanum, er sagt frá fróðlegum músatilraunum tveggja hópa. Mýsnar fengu sama fóður og átu jafnmikið á sólarhring, munurinn var sá að annar hópurinn fékk að matast 24 klst. en hinn bara 8 klst. Því voru étnar kaloríur þær sömu hjá báðum. En hvað átti sér stað? Jú, mýsnar á sólarhringsmataræðinu tútnuðu út og urðu feitar en hinar héldu áfram að vera spengilegar og grannar!

Vitað er að ef við borðum milli mála lengist dvöl máltíðar verulega og því ráðlagt að drekka bara milli mála og láta líða allt að 4 klst. milli áts fastrar fæðu. Það sem gerði gæfumuninn hjá músunum var 16 tíma fasta hjá öðrum hópnum sem líka eltist undarlega vel og í góðu formi. Hinn hópurinn fékk hina dæmigerðu öldrunarkvilla okkar manna eins og háan blóðþrýsting, fitulifur, hátt bólgustig og insúlínviðnám.

Niðurstöður um þetta komu í Cell Metabolism og sýnir að ekki bara hvað etið er heldur hvenær, skiptir máli. Þótt við séum ekki mýs er margt líkt með okkur. Sömu gen 86% og offjölgun.

Nú er vitað að það er aðallega frúktósi kolvetna eða sykra matarins sem ummyndast í fitu hjá manninum. Og allir megrunarmatarkúrarnir virðast oftast skila litlu nema borðað sé minna. Enn og aftur getum við e.t.v. lært eitthvað af dýrunum sem hafa lifað á jörðinni margfalt lengur en við.

Höfundur er efnaverkfræðingur.

Höf.: Pálmi Stefánsson.