Frábær „Arían var frábærlega sungin (og leikin) en þar sýndi Agnes svo ekki verður um villst að hún er miklum hæfileikum búin sem dramatískur sópran,“ segir um flutning Agnesar Thorsteins á aríu úr Cavalleria Rusticana.
Frábær „Arían var frábærlega sungin (og leikin) en þar sýndi Agnes svo ekki verður um villst að hún er miklum hæfileikum búin sem dramatískur sópran,“ segir um flutning Agnesar Thorsteins á aríu úr Cavalleria Rusticana. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Salurinn Þegar sópran hittir tenór, þá taka töfrar völdin ★★★★· Tónlist: Tsjajkovskíj, Tosti, Wagner, Mascagni, Verdi, Respighi, Villa, Falvo og Gunnar Þórðarson. Einsöngvarar: Agnes Thorsteins (sópran) og Omer Kobiljak (tenór). Píanóleikari: Marcin Koziel. Tónleikar í Salnum í Kópavogi sunnudaginn 10. september 2023.

Tónlist

Magnús Lyngdal

Magnússon

Það gustaði af Agnesi Thorsteins, ungri dramatískri sópransöngkonu, þegar hún steig á svið í Salnum í Kópavogi á svölu haustkvöldi í september og söng aríu Lísu úr fyrsta þætti Spaðadrottningarinnar eftir Pjotr Tsjajkovskíj (1840-1893), „Otkuda eti slezy, zachem one?“ Hér er um að ræða dramatískt hlutverk sem Agnes söng ekki bara af innlifun, heldur einnig geysilegu öryggi. Hún undirbyggði allar fraseringar vel og dýnamíkin var mikil.

Það fór býsna vel á því að skipta efnisskránni upp í dramatík og lýrík en á eftir Tsjajkovskíj hljómaði Napólísöngur Paolos Tostis (1846-1916), „À vucchella“ í fallegum (og lýrískum) flutningi bosníska tenórsins Omers Kobiljaks. Hann hefur fallega rödd sem naut sín vel í þessu fræga sönglagi. Þá tók dramatíkin við að nýju en Agnes söng þá tvö síðustu ljóðin úr Wesendonk-sönglagaflokknum eftir Richard Wagner (1813-1883), „Schmerzen“ og „Träume“. Flutningurinn var bæði músíkalskur og einkenndist af löngum línum og miklum styrkleikabreytingum.

Kobiljak söng þá aftur Tosti, að þessu sinni sönglagið „Malìa“, og það gerði hann aftur af smekkvísi áður en Agnes negldi dramatíska aríu Santuzzu, „Voi lo sapete, o mamma“ úr Cavalleria Rusticana eftir Pietro Mascagni (1863-1945). Arían var frábærlega sungin (og leikin) en þar sýndi Agnes svo ekki verður um villst að hún er miklum hæfileikum búin sem dramatískur sópran. Arían er alls ekki auðveld í flutningi en hér hljómaði hún afar sannfærandi.

Fyrri hluta efnisskrárinnar lauk svo með dúetti Violettu og Alfredos, „Parigi, o cara“ úr þriðja þætti La traviata eftir Giuseppe Verdi (1813-1901). Hér naut stór og dramatísk rödd Agnesar sín kannski síst (fyrir utan aukalagið) en flutningurinn var eftir sem áður giska fallegur.

Eftir hlé reið Kobiljak á vaðið með tveimur sönglögum, „Nevicata“ eftir Ottotino Respighi (1879-1936) og svo „Chitarra Romana“ eftir Claudio Villa (1926-1987). Hvorttveggja var ágætlega sungið. Hins vegar var ballaða Sentu, „Johohoe! … traft ihr“, úr öðrum þætti Hollendingsins fljúgandi eftir Richard Wagner kannski besta númer kvöldsins. Hér kom bersýnilega í ljós að Agnes hefur yfir gríðarlegum blæbrigðum að ráða ásamt hæfileikanum að láta tóninn „fljóta“.

Kobiljak flutti svo sönglagið fræga, „Dicitencello vuie“ eftir Rodolfo Falvo (1873-1937) áður en Agnes söng „Vetrarsól“ eftir Gunnar Þórðarson (f. 1945). Mér finnst alltaf fara illa á því að óperusöngvarar syngi popplög (eins og að söðla kú) og þrátt fyrir að Agnes hafi yfir gríðarlega miklu hljóðfæri að búa tókst henni ekki vel upp í þessum flutningi. Annað var uppi á teningnum í (formlegu) lokaverki efnisskrárinnar, dúetti þeirra Fritz og Suzel, „Suzel, buon dì“ úr öðrum þætti L‘amico Fritz eftir Pietro Mascagni. Þessi dúett er kannski ekki mikið þekktur út fyrir raðir óperuunnenda en hann var frábærlega fluttur af þeim Agnesi og Kobiljak. Aukalagið var svo „Libiamo ne‘lieti calici (Brindisi)“ úr fyrsta þætti La traviata eftir Giuseppe Verdi og féll það í góðan jarðveg.

Ég hef hér minnst á söng þeirra Agnesar og Kobiljaks, sem var góður. Meðleikari á tónleikunum var svo pólski píanóleikarinn Marcin Koziel. Ég get eiginlega ekki hrósað honum nægjanlega mikið. Hann hafði á valdi sínu mjög ólíkar stefnur í tónlistarsögunni og leikur hans var bæði dýnamískur og fullur af smekklegum blæbrigðum. Hann bæði andaði með tónlistinni og, það sem mikilvægara er, andaði með söngvurunum. Meðal annarra orða, fyrsta flokks píanóleikur.