Bólusetning Forgangs- og áhættuhópar fá boð í næsta mánuði.
Bólusetning Forgangs- og áhættuhópar fá boð í næsta mánuði. — Morgunblaðið/Eggert
Örvunarbólusetningar vegna covid-19 hefjast hérlendis í næsta mánuði og þá er inflúensubóluefni einnig væntanlegt. Bólusett verður með Pfizer XBB.1.5-bóluefni. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef landlæknis

Örvunarbólusetningar vegna covid-19 hefjast hérlendis í næsta mánuði og þá er inflúensubóluefni einnig væntanlegt. Bólusett verður með Pfizer XBB.1.5-bóluefni. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef landlæknis.

Þar segir að uppfærða bóluefnið hafi verið þróað í samræmi við ráðleggingar Lyfjastofnunar Evrópu, Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. „XBB.1.5-afbrigðið hefur verið í dreifingu undanfarna mánuði og það er einnig mjög skylt ýmsum öðrum afbrigðum sem eru í dreifingu um þessar mundir. Boðið verður upp á covid-19- og inflúensubólusetningu fyrir forgangs- og áhættuhópa, þ.m.t. alla einstaklinga 60 ára og eldri, sem hafa ekki frábendingu,“ segir landlæknir sem boðar nánari leiðbeiningar fljótlega.

Landlæknir getur þess jafnframt að flensutímabilið nálgist og óvíst sé hvernig covid-19 muni haga sér faraldsfræðilega og hvort það verði aukning á tilfellum á ákveðnum árstímum. „Síðastliðinn vetur geisuðu inflúensu-, RS-veiru- og gr. A streptókokka-faraldrar (GAS) á sama tíma og covid-19-tilfelli jukust, sem olli samanlagt miklum veikindum hjá börnum og eldra fólki og álagi á heilbrigðisþjónustu. Það má eiga von á inflúensu- og RSV-faraldri í haust/vetur og hugsanlega aukningu á covid-19 á sama tíma. Þá verða aðrar veirur, m.a. enteroveirur, adenoveirur og rhinoveirur, í dreifingu eins og venjulega á þessum árstíma.“