Arnarbakki Fyrr á árum var blómleg verslun og þjónustustarfsemi í þessum húsum í Breiðholti. Um miðjan níunda áratuginn fór að halla undan fæti.
Arnarbakki Fyrr á árum var blómleg verslun og þjónustustarfsemi í þessum húsum í Breiðholti. Um miðjan níunda áratuginn fór að halla undan fæti. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Talsverð uppbygging er fyrirhuguð í Breiðholtshverfi á næstunni. Hér í blaðinu hefur verið sagt frá áformum um nýtt hverfi við Suðurfell í Efra-Breiðholti og uppbyggingu í Norður-Mjódd. Og nú stendur fyrir dyrum uppbygging á reit þjónustukjarnans við Arnarbakka í Neðra-Breiðholti. Þar gætu risið 3-4 hæða fjölbýlishús með 100 íbúðum. Gömul verslunarhús, sem hafa verið illa nýtt á undanförnum árum, víkja fyrir nýjum.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Talsverð uppbygging er fyrirhuguð í Breiðholtshverfi á næstunni. Hér í blaðinu hefur verið sagt frá áformum um nýtt hverfi við Suðurfell í Efra-Breiðholti og uppbyggingu í Norður-Mjódd. Og nú stendur fyrir dyrum uppbygging á reit þjónustukjarnans við Arnarbakka í Neðra-Breiðholti. Þar gætu risið 3-4 hæða fjölbýlishús með 100 íbúðum. Gömul verslunarhús, sem hafa verið illa nýtt á undanförnum árum, víkja fyrir nýjum.

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 8. júní 2023 var lögð fram fyrirspurn Byggingarfélags námsmanna um breytingu á deiliskipulagi Arnarbakka 2-6 sem felst í að heimilt verði að fjölga íbúðum án þess að auka byggingamagn, breyta notkun/koma fyrir leikskóla á jarðhæð Arnarbakka 4, stækka byggingarreit Arnarbakka 4 til austurs til að búa til nægilegt pláss fyrir fjögurra deilda leikskóla og breyta salarhæð húsa og þakhalla.

Deiliskipulag fyrir lóðir 2‐6 við Arnarbakka í Reykjavík var samþykkt í borgarráði 2. desember 2021. Þar er heimild fyrir niðurrifi bygginga á reitnum.

Á lóðum númer 2 og 4 er gert ráð fyrir námsmannaíbúðum. Á lóð 6 er gert ráð fyrir íbúðum á almennum markaði, en lóðin er hluti af grænum þróunarreitum Reykjavíkurborgar. Sl. vor fékk Byggingarfélag námsmanna (BN) vilyrði fyrir lóðunum nr. 2 og 4. Á sama tíma fékk fyrirtækið Alverk vilyrði fyrir lóð nr. 6.

Samstarf um uppbyggingu

Fram kemur í fyrirspurn Grímu arkitekta og Tendra arkitekta til skipulagsfulltrúa, fyrir hönd lóðarhafa, að þó lóðunum hafi ekki verið formlega úthlutað enn sem komið er, hafi lóðarhafar byrjað ákveðið samstarf að undirbúningi hönnunar bygginganna og verið í viðræðum um þær kröfur sem fram koma í deiliskipulagi. Í þeim viðræðum hefur m.a. komið fram að það er vilji BN að stíga fyrstu skrefin í átt að umhverfisvænni húsum og stefna að svansvottun, líkt og stefnan er fyrir hús á lóð 6. Ennfremur hafa átt sér stað viðræður á milli eignaskrifstofu Reykjavíkurborgar og BN um uppbyggingu leikskóla á jarðhæð Arnarbakka 4. Niðurstaða þeirra viðræðna er að samkomulag hefur náðst um þá uppbyggingu.

Ósk lóðarhafa á lóðum 2-4 er að fjöldi námsmannaíbúða aukist úr 65 í 70 án þess að auka byggingamagn. Frumhönnun leiði í ljós að miðað við þær íbúðastærðir sem BN notast við sé þetta vel mögulegt, þrátt fyrir leikskóla á jarðhæð. Lóðarhafi lóðar 6 óskar eftir að heimild fyrir fjölda íbúða hækki úr 25 í 30, án þess að auka byggingamagn. Frumhönnun bygginga hafi sýnt fram á að þessi íbúðafjöldi sé raunhæfur.

Lóðarhafar telja upp fleiri óskir sem m.a. lúta að salarhæð og þakhalla. Verkefnastjóri skpulagsfulltrúa tekur að flestu leyti jákvætt í óskir lóðarhafa en bendir jafnframt á atriði sem þarf að breyta og laga.

Fram kemur í húsakönnun Borgarsögusafns að við Arnarbakka 2 standi verslunar- og þjónustuhús sem var teiknað af Sigurði Ásmundssyni byggingartæknifræðingi og reist á árunum 1969-1971. Við Arnarbakka 4-6 stendur verslunar- og þjónustuhús sem var teiknað af Kjartani Sveinssyni byggingartæknifræðingi og byggt á árunum 1968-1969.

Jón B. Þórðarson kaupmaður opnaði fyrsta verslunarhúsnæði í Breiðholti í lok ársins 1969, við Arnarbakka 4-6. Áður hafði Jón rekið verslunina í bráðabirgðahúsnæði á lóðinni frá 1968. Búðin fékk nafnið Breiðholtskjör og var 450 fermetrar að stærð auk vörulagers í kjallara.

Síðar hófu starfsemi í húsunum lyfjabúð, bakarí, fiskbúð, bókabúð, verslanir, sjónvarpsviðgerðarverkstæði, pósthús, bankaútibú, rakarastofa, ísbúð, sjoppa, vídeóleiga, hárgreiðslustofa og húðflúrstofa, og er þá ekki allt upptalið.

Hallaði undan færi

Rekstur verslana og þjónustufyrirtækja í Arnarbakka virðist hafa gengið vel fram á miðjan níunda áratug síðustu aldar, segir í húsakönnun. Síðan fór að halla undan fæti. Starfsemin færðist smám saman í stærri verslunarkjarna, t.d. í næsta nágrenni í Mjódd. Nú er aðeins hárgreiðslustofan enn starfandi.

Reykjavíkurborg keypti fasteigninnar við Arnarbakka árið 2018 með það að markmiði að hleypa meira lífi í hverfiskjarnann. Til bráðabirgða var ýmiss konar starfsemi komið fyrir í húsunum. Má nefna verkefnið Karlar í skúrum, Hjólakraft og hljóðverið Kistuna.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson