Á vettvangi Sérsveit ríkislögreglustjóra þarf að takast á við ýmis krefjandi verkefni. Nú er auglýst eftir varðstjórum bæði í Reykjavík og á Akureyri.
Á vettvangi Sérsveit ríkislögreglustjóra þarf að takast á við ýmis krefjandi verkefni. Nú er auglýst eftir varðstjórum bæði í Reykjavík og á Akureyri. — Morgunblaðið/Eggert
Embætti ríkislögreglustjóra hefur auglýst til umsóknar 12 stöður varðstjóra í sérsveit embættisins. Um er að ræða fjórar stöður aðalvarðstjóra, fjórar stöður varðstjóra og fjórar stöður sérhópstjóra

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Embætti ríkislögreglustjóra hefur auglýst til umsóknar 12 stöður varðstjóra í sérsveit embættisins. Um er að ræða fjórar stöður aðalvarðstjóra, fjórar stöður varðstjóra og fjórar stöður sérhópstjóra.

„Auglýstar stöður innan sérsveitar ríkislögreglustjóra eru í samræmi við nýlegar skipulagsbreytingar innan embættisins þar sem markmiðið var meðal annars að skerpa enn betur á kjarnastarfsemi. Í þeirri vinnu voru öll störf kortlögð og í kjölfarið voru gerðar útkomumiðaðar starfslýsingar þar sem hlutverki og ábyrgð eru gerð nánari skil. Ekki er um að ræða fjölgun innan sérsveitar heldur taka auglýsingarnar mið af áðurnefndri kortlagningu starfa og nýjum útkomumiðuðum starfslýsingum,“ segir Ágústa H. Gústafsdóttir mannauðsstjóri ríkislögreglustjóra spurð um ástæður þess að stöðurnar eru nú auglýstar.

Þrjár stöður aðalvarðstjóra sérsveitarinnar eru í Reykjavík og sama gildir um þrjár stöður varðstjóra sem jafnframt eru titlaðir aðstoðarhópstjórar. Þá er ein staða aðalvarðstjóra á útstöð sérsveitar á Akureyri, eins og það er orðað í auglýsingu. Sá fær jafnframt með sér varðstjóra fyrir norðan. Fjórar stöður sérhópstjóra eru: varðstjóri Charlie, varðstjóri Alfa, varðstjóri Bravo og varðstjóri Delta.

Fyrirmyndir í einu og öllu

Ríkar kröfur eru gerðar til umsækjenda samkvæmt auglýsingu. Þeir þurfa að hafa próf frá Lögregluskóla ríkisins eða diplómapróf í lögreglufræðum, vera starfandi í sérsveit ríkislögreglustjóra og hafa starfað sem lögreglumenn í ákveðinn tíma. Þá þarf að hafa þekkingu á aðferðafræði viðkomandi sérhóps ætli umsækjendur sér að starfa innan þeirra.

Sérsveitarmenn þurfa samkvæmt auglýsingunni að vera fyrirmynd í einu og öllu eða „Lead by example, lead all the time“, eins og það er orðað. Þeir skulu vera hvetjandi og stuðla meðal annars að jákvæðri hegðun, vera lausnamiðaðir, opnir fyrir nýjungum og framsæknir. Þá skulu þeir sýnan undir- og yfirmönnum hollustu í hvívetna.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon