Gísli Sigurgeirsson
Gísli Sigurgeirsson
Gísli Sigurgeirsson veltir fyrir sér þeirri spurningu hvaða íslensku gestrisni talsmenn ferðaþjónustunnar vilja gera að útflutningsvöru.

Gísli Sigurgeirsson

„Íslensk gestrisni er útflutningsvara“ var haft eftir Jóhannesi Þór Skúlasyni fyrir skemmstu. Um leið kynnti hann að veita eigi 10 milljónir króna í kynningarátak erlendis um þessa meintu gestrisni landans. „Íslendingar eru frábærir gestgjafar, sem kemur fram í ánægju ferðamanna,“ bætti Jóhannes síðan við. Ég tel næsta víst að Jóhannes Þór telji sig hafa lög að mæla, enda góður drengur og af góðu fólki kominn. En ég velti fyrir mér um hvaða gestrisni hann er að tala.

Nú veit ég að fenginni reynslu, eftir ferðir um landið mitt, að gestrisni landans er einstök, eða var það í það minnsta. Ég fór í eina tíð í vinnuferðir um sveitir á Norður- og Austurlandi. Á hverjum bæ biðu hlaðin veisluborð þannig að ég var oft og tíðum illa haldinn af ofáti að kvöldi. En gestrisnina mældi ég þó ekki í hnallþórum; miklu fremur í þeirri hjartahlýju sem veitingunum fylgdi. Þetta var á þeim árum að það var ekki daglegt brauð að gesti bæri að garði til sveita. Stafaði það fyrst og fremst af lélegum vegaslóðum og litlum bílakosti. Nú eru bændur og búalið á þvælingi um allar sveitir alla daga og því engin nýlunda í gestagangi. Í seinni tíð hef ég því stundum upplifað íslenskan hlaðkulda.

Enskumælandi hjálpsamir ferðaþjónar

Já, ég velti því fyrir mér um hvaða gestrisni Jóhannes er að tala. Ég fór nýlega um byggðir og óbyggðir, allt frá Borgarfirði eystra til Reykjavíkur. Ég stoppaði víða og fékk mér hressingu. Nú mætti ég ekki glaðbeittum búendum sem sögðu mér skemmtisögur á kjarnyrtri íslensku. Nei, á hverjum einasta stað þurfti ég að vera stautfær í ensku til að geta gert ferðaþjónum skiljanlegt hvað ég vildi þarna upp á dekk. Þegar mér hafði tekist það greiddi þetta enskumælandi fólk götu mína af alúð og kurteisi. Það má þetta ágæta fólk eiga. Er það þessi gestrisni sem Jóhannes vill gera að útflutningsvöru?

Þetta er angi af straumi innflytjenda og flóttamanna til landsins, sem sumir alþingismenn hafa sagt stjórnlausan. Þar að auki hafi hann kostað þjóðarbúið á annan milljarð króna það sem af er ári. Fáir ráðamenn hafa haft kjark til að andmæla þessari þróun. Ástæðan er lýðhræðsla og atkvæðaveiðar. Þeir háu herrar sem eiga að stjórna þjóðarskútunni vita sem er, að þeir verða úthrópaðir á netmiðlum sem rasistar uppfullir af útlendingahatri ef þeir ámálga að stemma stigu við þessum stjórnlausa straumi innflytjenda. Samkvæmt nýjum tölum frá Þjóðskrá hefur erlendum ríkisborgurum á Íslandi fjölgað um 10,3% á undanförnum níu mánuðum. Hingað komu 6.665 einstaklingar á þessu tímabili, þar af 943 síðasta mánuðinn. Eru erlendir ríkisborgarar í landinu nú 71.250. Á sama tíma fjölgaði okkur Íslendingum um 0,4%, eða um 1.444 einstaklinga. Erlendir ríkisborgarar eru nú tæplega 18% af þeim sem búa landið.

Ég geri mér grein fyrir að margt af því fólki sem kemur til landsins er þjóðarbúinu mikilvægt, jafnvel nauðsynlegt í mörgum tilvikum. Það er nú einu sinni svo, að landinn fúlsar við mikilvægum störfum, t.d. við fiskvinnslu, byggingar og ferðaþjónustu, svo dæmi séu nefnd. Við fögnum þeim innflytjendum sem vilja koma til landsins til að vinna, læra málið okkar og aðlaga sig íslenskri menningu. En við höfum ekki efni á að taka á móti fólki sem kemur til að lifa góðu lífi á framfæri íslenska ríkisins.

Ríkisstjórnin verður að þora

Mér finnst ástæða til að ríkisstjórnin staldri við og hafi kjark og þor til að skoða þá þróun sem átt hefur sér stað. Hvers vegna sækjast svo margir eftir því að koma til Íslands? Kemur fólk hingað til að vinna? Hefur það vilja til að læra íslensku og stunda annað nám til að aðlagast íslenskum menningarheimi? Eru dæmi þess að hingað komi fólk til að lifa góðu lífi á kostnað íslenska ríkisins? Eru innan um og saman við glæpagengi, sem fara hér um rænandi og ruplandi og koma síðan þýfinu úr landi? Ég spyr vegna orðróms á götunni og við þessum spurningum og mörgum fleirum þarf að fá svör. Síðan verður að marka ákveðna kristaltæra stefnu í þessum málaflokki – og fara eftir henni. Setja sanngjarnar leikreglur sem sátt getur orðið um.

Ríkisstjórnin þarf að taka á fleiri málum með einurð. Það er hávær krafa um rafvæðingu bíla, skipa, flugvéla og áfram mætti telja. Í raun væri hægt að nýta græna raforku í stað olíu í margvíslegri vinnslu um allt land. En það standar á því að sömu þrýstihópar standa í vegi fyrir virkjunum. Sú orka sem framleidd er í dag er í raun uppseld og gott betur. Fyrir vikið er farið að örla á raforkuskorti í landi sem á gnægð af grænum orkukostum. Það eru jafnvel dæmi þess að díselvélar hafi verið gangsettar til að framleiða raforku til að hlaða nýju rafbílana!

Ég elska Íslendinga, landið mitt, menningu þess, sögu og íslenska tungu. Ekkert af þessu má glatast. En haldi þessi þróun áfram sýnist mér að smátt og smátt verði til ný þjóð á gamla hólmanum okkar; Íslandi. Þar verður tæpast töluð íslenska, nema ef til vill á sunnudögum.

Höfundur er kvikmyndagerðarmaður.

Höf.: Gísli Sigurgeirsson