Boðið er upp á konsertþrennu með franska flautuleikaranum Emmanuel Pahud á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg Hörpu í kvöld kl. 19.30 undir stjórn Evu Ollikainen. Konsertanir eru Odelette eftir franska tónskáldið Camille Saint-Saëns, I Hear the Water Dreaming eftir japanska tónskáldið Toru Takemitsu og Concertino eftir franska tónskáldið Cecile Chaminade. Auk þess er á efnisskránni Forleikur að síðdegi skógarpúkans eftir Debussy og fyrsta sinfónía Brahms. Í kynningu frá sveitinni kemur fram að Pahud hafi orðið frægur á einni nóttu þegar hann tók við stöðu fyrsta flautuleikara Berlínarfílharmóníunnar árið 1993 aðeins 23 ára gamall. Síðan þá hafi hann verið afar eftirsóttur einleikari enda heimsþekktur fyrir sinn „gullna og flæðandi tón“, eins og skrifað hafi verið um í The Guardian. Sigurður Ingvi Snorrason sér um tónleikakynningu sem fer fram í Hörpuhorni kl. 18 þar sem aðgangur er ókeypis.