Vopnabræður Vel fór á með leiðtogunum á fundi þeirra í gærmorgun þar sem þeir ræddu samstarf ríkja sinna.
Vopnabræður Vel fór á með leiðtogunum á fundi þeirra í gærmorgun þar sem þeir ræddu samstarf ríkja sinna. — AFP/Vladimir Smirnov
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Úkraínumenn greiddu Svartahafsflota Rússa þungt högg í fyrrinótt þegar þeir gerðu stóra eldflauga- og drónaárás á höfnina í Sevastopol, en þar hefur flotinn haft höfuðstöðvar sínar um langa hríð. Skutu Úkraínumenn minnst tíu eldflaugum og sendu þrjá sjávardróna til árásarinnar að sögn rússneskra heimildarmanna, og náðu Rússar að skjóta niður alla drónana þrjá, en þrjár af eldflaugunum náðu til skotmarka sinna.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Úkraínumenn greiddu Svartahafsflota Rússa þungt högg í fyrrinótt þegar þeir gerðu stóra eldflauga- og drónaárás á höfnina í Sevastopol, en þar hefur flotinn haft höfuðstöðvar sínar um langa hríð. Skutu Úkraínumenn minnst tíu eldflaugum og sendu þrjá sjávardróna til árásarinnar að sögn rússneskra heimildarmanna, og náðu Rússar að skjóta niður alla drónana þrjá, en þrjár af eldflaugunum náðu til skotmarka sinna.

Míkóla Olesjtsjúk, yfirmaður úkraínska flughersins, gaf í skyn í gær að flugherinn hefði haft veg og vanda af eldflaugaárásinni, en hann þakkaði þar flugmönnum sínum fyrir frábæran árangur sinn um nóttina. Telja hernaðarsérfræðingar því að Úkraínumenn hafi beitt hinum langdrægu Storm Shadow-eldflaugum, sem Bretar og Frakkar hafa látið Úkraínumenn fá, til árásarinnar.

Á myndum og myndskeiðum af árásinni sem birtust á samfélagsmiðlum mátti sjá minnst tvær háværar sprengingar, en samkvæmt rússneskum heimildum lentu eldflaugarnar á annarri af tveimur slippstöðvum Svartahafsflotans og skemmdu mjög. Voru þá í slipp herflutningaskipið Minsk, sem og eldflaugakafbáturinn Rostov á Don, og bendir flest til þess að bæði skip hafi gjöreyðilagst í árásinni.

Umtalsverður árangur

H.I. Sutton, sérfræðingur í sjávarhernaði, sagði í gær á Twitter-síðu sinni að um væri að ræða umtalsverðan árangur fyrir Úkraínumenn, sér í lagi varðandi eldflaugakafbátinn, en hann var af gerð sem Atlantshafsbandalagið hefur nefnt Kíló. Þeir kafbátar eru knúnir af dísel og rafmagni, og eru meðal helstu vopna Rússa á Svartahafi.

Sutton sagði að Svartahafsflotinn hefði einungis haft yfir að ráða fjórum slíkum kafbátum af endurbættri gerð, en þeir hafa verið nýttir til þess að skjóta svonefndum Kalibr-eldflaugum á skotmörk vítt og breitt um Úkraínu. Þá væri það einnig stórmál fyrir Úkraínumenn að hafa skemmt slippstöðina, þar sem Rússar séu ekki vel búnir af slíkum stöðvum á Svartahafi.

Kim heitir stuðningi sínum

Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, hét því í gær á leiðtogafundi sínum með Vladimír Pútín Rússlandsforseta að Norður-Kóreumenn myndu styðja við bakið á Rússum í þeirra „réttláta stríði“ gegn Úkraínumönnum. Sagði Kim að Norður-Kórea stæði ávallt með Rússum gegn „heimsvaldasinnum“ og að hann tryði því að rússneski herinn myndi brátt sýna „heiður sinn“ á vígstöðvunum.

Talið er að leiðtogarnir hafi samþykkt samkomulag á fundi sínum, sem feli í sér að Norður-Kóreumenn sendi Rússum fallbyssuskot og eldflaugar í skriðdrekabana. Sagði Pútín í gær að Rússar myndu hjálpa Norður-Kóreumönnum við „könnun geimsins“.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson