Þrýstilínur Kristín lét sér hvergi bregða.
Þrýstilínur Kristín lét sér hvergi bregða. — Skjáskot
Ég hef horft á veðurfréttir í sjónvarpi vítt og breitt og fullyrði við ykkur að veður­fréttir í íslensku sjónvarpi eru með því allra besta sem gerist í þessum heimi. Um aðra heima veit ég minna, því miður

Orri Páll Ormarsson

Ég hef horft á veðurfréttir í sjónvarpi vítt og breitt og fullyrði við ykkur að veður­fréttir í íslensku sjónvarpi eru með því allra besta sem gerist í þessum heimi. Um aðra heima veit ég minna, því miður. Við erum að tala um óvissuferð án enda, þar sem engin leið er að vita hvað gerist næst. Engin leið.

Hvar annars staðar í heiminum gerist það til dæmis að þrýstilínurnar stökkvi hreinlega út úr kortinu og yfir á dragt veðurfréttamannsins? Þetta gerðist sumsé á sunnudaginn var. Í eitt augnablik óttaðist ég hreinlega að þær tækju næsta stökk heim í stofu til mín og færu að þrýsta á mig. Dragt Kristínar Hermannsdóttur væri bara millilending. Hundurinn var líka byrjaður að gelta. Sem betur fer gerðist það þó ekki.

Kristín, sem á skömmum tíma hefur getið sér gott orð fyrir fumleysi á skjánum, lét sér hvergi bregða og ég er ekki einu sinni sannfærður um að hún hafi vitað af þrýstilínunum framan á sér – í öllu falli lét hún ekki á neinu bera. Enda var blessunarlega býsna langt milli þrýstilína þennan dag – sem manni skilst að sé gott.

Kristín er góð viðbót við vaska sveit íslenskra sjónvarpsveðurfræðinga, yfirveguð og traustvekjandi kona sem hrellir okkur dauðlega menn ekki umfram það sem brýn nauðsyn krefur.

Höf.: Orri Páll Ormarsson