Halla Guðmundsdóttir fæddist á Akranesi 15. mars 1938. Hún lést á Landspítalanum 7. september 2023.

Foreldrar hennar voru hjónin Guðmundur Guðmundsson frá Sigurstöðum, f. 19.9. 1913, d. 16.4. 1990 og Ólöf Guðmundsdóttir frá Vogatungu í Leirársveit, f. 30.9. 1910, d. 25.8. 1997. Systkini Höllu eru þau Böðvar, f. 30.12. 1933, d. 24.10. 2015, Guðmundur, f. 17.2.1935, d. 10.2. 2017, Una f. 15.3. 1938, d. 26.11. 2012, Kristinn, f. 10.8. 1941, d. 27.11. 2006, Kristín f. 10.8. 1941, Guðjón, f. 24.8. 1945 og Dóra, f. 24.7. 1952.

Halla giftist eftirlifandi eiginmanni sínum, Baldri Ólafssyni, f. 12.1. 1942, árið 1968. Þau eiga einn son, Ólaf Baldursson, f. 10.4. 1969. Eiginkona hans er Heiða Guðrún Ragnarsdóttir, f. 4.2. 1972. Fyrsta kona Ólafs var Erna Guðrún Kaaber, f. 23.5. 1973. Dóttir þeirra er Emilía Sara Ólafsdóttir, f. 17.5. 1995. Seinni kona Ólafs var Drífa Sigurjónsdóttir, f. 20.5. 1973. Börn þeirra eru Elísabet Mist Ólafsdóttir, f. 3.5. 2000 og Baldur Nói Ólafsson, f. 21.7. 2004.

Halla verður jarðsungin frá Víðistaðakirkju í dag, 14. september 2023, kl. 11.

Amma Halla elskaði dýr og blóm og okkur sem stóðum henni næst. Hún var hlý og góð og vildi allt fyrir okkur gera. Hún eldaði besta matinn og bakaði frábærar kökur og mjög margar smákökusortir um jólin. Amma var feimin og var stundum meira fyrir dýr en fólk, hundar og kisur voru hennar bestu vinir. Amma og afi voru eiginlega alltaf saman og hugsuðu svo vel hvort um annað og það var alltaf gott að heimsækja þau.

Amma var ánægðust heima á Hjallabrautinni og við munum svo vel eftir henni við eldavélina, standandi og eldandi fyrir okkur, búðingur og hafragrautur, kjúklingur, kokteilsósa og djúpsteiktar franskar og allar góðu kökurnar hennar. Amma í garðinum að hugsa um fallegu blómin sín og klippandi tré og runna, gefa kisunum og fuglunum í hrauninu eða í einum af sínum löngu göngutúrum.

Við munum sakna ömmu, fá knús og hlýju frá henni og fylgjast með henni elda fyrir okkur. Við erum viss um að hún fylgist vel með okkur og afa og við munum oft hugsa til hennar.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Elísabet Mist
og Baldur Nói.