[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mótið var haldið í Akademie Deutsches Bäckerhandwerk í hinni sögufrægu borg Weinheim í Þýskalandi dagana 11.-12. september og var hið glæsilegasta í alla staði. Haraldur Árni Þorvarðarson þjálfari liðsins, alla jafna kallaður Árni bakari, segir að…

Sjöfn Þórðardóttir

sjofn@mbl.is

Mótið var haldið í Akademie Deutsches Bäckerhandwerk í hinni sögufrægu borg Weinheim í Þýskalandi dagana 11.-12. september og var hið glæsilegasta í alla staði.

Haraldur Árni Þorvarðarson þjálfari liðsins, alla jafna kallaður Árni bakari, segir að markmiðið hafi ávallt verið að vinna til verðlauna á mótinu. Landsliðið hefur æft stíft síðustu vikur undir leiðsögn Árna og má með sanni segja að liðið hafi uppskorið eins og það sáði.

Árni er fagstjóri bakaradeildar í Hótel- og matvælaskólanum og hefur verið viðriðinn fagið síðastliðinn 27 ár. „Ég öðlaðist meistararéttindi í faginu árið 2014 og hef komið víða við gegn um árin. Ég vann sem konditor í Kaupmannahöfn í þrjú ár, rak Okkar bakarí í fjölda ára og hef komið að vöruþróun hjá nokkrum íslenskum fyrirtækjum í matvælaiðnaði,“ segir Árni, sem hefur ástríðu fyrir sínu fagi.

Góð tenging milli náms og atvinnulífs skiptir sköpum

Árni hefur mikinn metnað fyrir því að leiðbeina og þroska ungt fólk til dáða í heimi matvæla enda kemur hann af mikilli matarfjölskyldu. „Mamma starfaði lengi vel sem smurbrauðsdama og bróðir minn hóf ungur að árum að reka bakarí fyrir vestan sem ég kom öðru hverju inn í og vann að sérverkefnum með stóra bróður.“

Sem fagstjóri bakaradeildar hefur Árni einnig unnið markvisst að því að halda góðu sambandi milli skólans og atvinnulífsins. „Það skiptir sköpum fyrir skólann og þá sem þar stunda nám að það sé góð tenging á milli náms og atvinnulífsins og sérstaklega í iðngreinum, eins og bakaraiðn,“ segir Árni. Góður samstarfsaðili og félagi Árna í faginu er Sigurður Már Guðjónsson. Hann þarf vart að kynna en hann er formaður Landssambands bakarameistara á Íslandi og hefur gegnt því embætti síðan í júní 2022.

Í fótspor feðranna

Sigurður hóf ungur nám í bakaraiðn árið 1992 í fjölskyldufyrirtækinu, Bernhöftsbakaríi. „Ég er því búinn að vera viðloðandi fagið síðan ég fæddist ef svo má að orði komast en það eru yfir 30 ár síðan ég vissi að ég ætlaði að feta sama veg og forfeðurnir,“ segir Sigurður og hlær. Sigurður tók sveinspróf í bakaraiðn árið 1996. Stundaði síðan meistaranám við Hótel- og matvælaskólann í Kópavogi 1997-1998. „Það var fyrsti árgangur meistaranema frá MK og hlaut meistararéttindi í bakaraiðn árið 1998, þá var ég aðeins 22 ára.“

Seinna stundaði Sigurður nám í kökugerð, konditor, í Þýskalandi við Handwerkskammer Chemnitz og lauk prófi þar með hæstu einkunn. Sigurður er í dag meistari og framkvæmdastjóri hjá Bernhöftsbakaríi sem stofnað var 25. september 1834. „Gaman er að segja frá því að Bernhöftsbakarí verður 189 ára núna í mánuðinum en með stofnun þess hófst saga bakarastéttarinnar á Íslandi,“ segir Sigurður og er þakklátur fyrir að hafa getað fetað í fótspor feðranna. Sigurður er einn fáum á Íslandi sem eru bæði með meistararéttindi í bakaraiðn og kökugerð. Hann hefur líka tekið þátt í fjölmörgum keppnum og unnið þær margar, listinn er langur: Sigurður var sigurvegari í keppni um Kahlúa-kökuna 2009; um köku ársins 2011, 2018 og 2019 og brauð ársins 2013. Sendi keppendur og var í dómnefnd á heimsmeistaramóti ungra bakara í Berlín 2022 þar sem Ísland hafnaði í 4. sæti og hlaut verðlaunin „New Country Award“. Loks er vert að nefna að Sigurður vann keppnina Alheims kökugerðarmaður ársins 2022, „UIBC World Confectioner of the Year 2022“.

Unnu með jörðina, býflugur og blóm

Þeir félagar hafa mikinn metnað fyrir hönd landsliðs bakara og síðustu vikur og mánuði hafa þeir verið að undirbúa liðið fyrir komandi mót. „Á nýafstöðnu Norðurlandamóti var markið sett hátt og unnið vel að því að fara eftir keppnisreglum í einu og öllu. Yfirskrift keppninnar var „hope for the future“ og þurftu liðin að framleiða skrautstykki, vínarbrauð, croissant og sætdeig ásamt matbrauðum og smábrauðum. Allar þessar vörur bar að tengja saman í áðurnefnt þema en íslenska liðið vann mikið með jörðina, býflugurnar og blómin í þessari keppni,“ segir Árni.

Landslið íslenskra bakara er skipað eftirtöldum meðlimum:

Stefán Pétur Bachmann
Bjarnason hjá Hygge – fyrirliði

Matthías Jóhannesson hjá Passion Reykjavík

Smári Yngvason frá Gæðabakstri

Haraldur Árni Þorvarðarson landsliðsþjálfari

Aðspurður segir Árni að til að komast í landsliðið þurfi bakarinn að vera framúrskarandi í faginu. „Hann þarf að vera skipulagður, eiga frítíma til að nota í verkefnið og geta unnið með öðrum. Þegar valið er í liðið er íþróttalið haft að leiðarljósi. Menn verða að geta unnið saman sem lið og tekið bæði leiðbeiningum og hrósi hver frá öðrum. Styrkleikar hvers og eins þurfa að vega upp veikleika hjá hinum. Menn eru mikið saman á undirbúningstímabilinu, byrjað er á ákveðnu plani sem keppendur fá í hendurnar en svo smám saman eykst æfingaálagið. Þegar nær dregur keppni eru kallaðir inn fleiri álitsgjafar sem hafa reynslu af viðfangsefninu og geta gefið aukaorku inn í hópinn. Hlutverk þjálfara er að hvetja liðið áfram, koma að hönnun þeirrar vöru sem keppt er með og leiðbeina hópnum í sömu áttina. Einnig hefur skipulag móts og fararstjórn verið í höndum þjálfara,“ segir Árni.

Stuðningur við landsliðið er gríðarlega mikilvægur og baklandið skiptir ekki síður máli þegar á hólminn er komið. „Landssamband bakarameistara ásamt einstaka birgjum hefur stutt vel við bakið á þeim landsliðum sem haldið hafa út til keppni á síðustu misserum. Hótel- og matvælaskólinn hefur hýst landsliðið og útvegað aðstöðu fyrir æfingar og undirbúning.

Mikill meðbyr hefur verið með landsliðinu frá kollegum í faginu enda hefur árangurinn verið frábær,“ segir Sigurður og bætir jafnframt við að metnaðurinn sé í fyrirrúmi. „Íslenska landsliðið á að vera í fremstu röð og hefur verið virkt í alþjóðlegum keppnum núna í tvö ár með miklum sóma. Landslið ungbakara lenti til að mynda í 4. sæti á heimsmeistaramótinu í fyrra og er okkur boðið að vera með aftur. Markið er sett æ hærra og verður spennandi að sjá hvernig gengur í Weinheim. Ef bakararnir mæta rétt gíraðir til leiks, vinna markvisst, halda ró og láta ekkert koma sér út af sporinu þá getur allt gerst. Það er líka mjög mikilvægt að kunna að bregðast við óvæntum aðstæðum,“ segir Sigurður.

Stefnan að vinna til verðlauna Aðspurður segir Árni að næsta verkefni sé heimsmeistaramótið í bakstri í München. Keppni á Norðurlandamótinu var hluti af undirbúningnum fyrir heimsmeistaramótið en það hefst hinn 23. október næstkomandi. „Silfurverðlaunin eru hvatning fyrir landsliðið, sem stefnir áfram markvisst að því að vinna til verðlauna á heimsmeistaramóti bakara og æfingarnar munu halda áfram að fullum krafti,“ segir Árni. Heimsmeistaramót ungbakara er síðan á dagskrá á nýju ári en nánari fyrirkomulag liggur ekki fyrir. „Eftir velgengni okkar á síðasta ári, og silfurverðlaunin á Norðurlandamótinu núna síðast ásamt áherslubreytingum í kennslu, hefur áhugi á bakaraiðn aukist verulega og mun aukast meira. Okkur finnst því mjög mikilvægt að halda vel á spöðunum þannig að unga kynslóðin og eldri bakarar geti unnið saman í faginu og þróað með sér eftirsóknarverða starfsstétt sem gaman er að tilheyra,“ segja þeir Árni og Sigurður að lokum.

Höf.: Sjöfn Þórðardóttir