Barnamenning Fjölbreytt dagskrá er á Púkanum, barnamenningarhátíð Vestfjarða, sem nú stendur sem hæst. Hátíðin stendur út næstu viku.
Barnamenning Fjölbreytt dagskrá er á Púkanum, barnamenningarhátíð Vestfjarða, sem nú stendur sem hæst. Hátíðin stendur út næstu viku. — Ljósmynd/Björgvin Hilmarsson
Púkinn, barnamenningarhátíð Vestfjarða, stendur nú sem hæst. Þetta er í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin en hún fer fram í öllum grunnskólum fjórðungsins auk þess sem fjöldi viðburða er utan skólaveggjanna

Púkinn, barnamenningarhátíð Vestfjarða, stendur nú sem hæst. Þetta er í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin en hún fer fram í öllum grunnskólum fjórðungsins auk þess sem fjöldi viðburða er utan skólaveggjanna. Hátíðin er tileinkuð menningu barna, menningu með börnum og menningu fyrir börn.

Skúli Gautason, skipuleggjandi hjá Vestfjarðastofu, segir að Púkinn sé „einstök viðbót í menningarlíf vestfirskra barna, hátíð sem aðstandendur hyggjast tryggja tilverugrundvöll til framtíðar. Lýðræðisvitund unga fólksins var virkjuð með kosningu um nafn hátíðarinnar, en þar var Púkinn hlutskarpastur, enda löng hefð fyrir því að Vestfirðingar kalli börn púka.“

Hátíðin var sett á mánudaginn og stendur út næstu viku. Þegar hefur fjöldi viðburða farið fram en í dag hefst í skólum fjórðungsins námskeið í gervigreind með áherslu á gervigreindina í MidJourney. Þá mun vinnusmiðja Krakkaveldis, Barnabærinn, taka yfir Hrafnseyri við Arnarfjörð í dag. Þátttakendur í smiðjunni eru börn á miðstigi grunnskólanna á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri. „Barnabærinn er samfélagstilraun þar sem börnunum er frjálst að prófa sig áfram með hugmyndir sínar líkt og á tilraunastofu. Bærinn verður lítið útópískt samfélag þar sem börn ráða ríkjum og reynir þannig að svara spurningunni: Hvernig væri heimurinn ef börnin réðu öllu? Útkoma smiðjunnar er sviðslistaverk þar sem börnin bjóða almenningi að stíga inn í sinn draumaheim á sviðinu,“ segir í kynningu.