Útlit er fyrir að vaxtagjöld ríkissjóðs Íslands verði rúmlega 29 milljörðum króna hærri á næsta ári en þau voru áætluð. Háir vextir bíta því ríkissjóð ekki síður en heimilisbókhald landsmanna. Vaxtagjöld á rekstrargrunni á árinu 2024 eru áætluð um…

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

Útlit er fyrir að vaxtagjöld ríkissjóðs Íslands verði rúmlega 29 milljörðum króna hærri á næsta ári en þau voru áætluð. Háir vextir bíta því ríkissjóð ekki síður en heimilisbókhald landsmanna. Vaxtagjöld á rekstrargrunni á árinu 2024 eru áætluð um 110,7 milljarðar króna samanborið við 94,7 milljarða í fjárlögum yfirstandandi árs.

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2024 segir m.a. að vaxtagjöld séu áætluð 13,8 milljörðum hærri en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun. Breytinguna megi að stærstum hluta rekja til hærra vaxtastigs en ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hafi hækkað skarpt á undanförnum mánuðum sem leiði til þess að gjaldfærðir vextir séu áætlaðir um 11 milljörðum hærri en gert var ráð fyrir við vinnslu fjármálaáætlunar. Þá leiði spá um hærri verðbólgu til um 3 milljarða hækkunar á áætlun verðbóta verðtryggðra lána.

Aðhald hefur verið boðað í ríkisrekstrinum en fjallað er um lána- og vaxtamál í lánsfjárkafla frumvarpsins. Vonir standa til að heildarskuldir ríkissjóðs lækki lítillega milli ára, úr 1.702 milljörðum í ár í 1.699 milljarða á næsta ári. Gert er ráð fyrir að eftirstöðvar láns í evrum á gjalddaga á árinu verði greiddar upp án endurfjármögnunar.

Lánsfjárþörf A1-hluta ríkissjóðs mun lækka af þessum sökum á milli ára og er áætluð 107 milljarðar. Skuldahlutföll ríkissjóðs munu lækka, hvort sem litið er til brúttó- eða nettóskulda í hlutfalli af vergri landsframleiðslu (VLF). Óhagstæðara umhverfi á innlendum og erlendum lánamörkuðum og vaxandi verðbólga hefur leitt til versnandi lánakjara.

Eftir mikla hækkun skulda A1-hluta ríkissjóðs á undanförnum árum er útlit fyrir að þær lækki um 1% af VLF árið 2023 og um önnur 1,2% árið 2024. Gangi það eftir jafngilda skuldir ríkissjóðs samkvæmt skuldareglu 30,9% af VLF í árslok 2024. Það er talsvert hagstæðari niðurstaða en áætlanir fyrri ára hafa sýnt. Betri horfur má helst rekja til áframhaldandi aðhalds í ríkisfjármálum og mikils hagvaxtar sem hefur bæði haft jákvæð áhrif á tekjur ríkissjóðs og haft bein áhrif á skuldahlutfallið með hækkandi landsframleiðslu. Þróun efnahags ÍL-sjóðs (áður Íbúðalánasjóðs) þykir þó vera óvissuþáttur í langtímaþróun skulda ríkissjóðs.

Útgáfa ríkisbréfa er sögð hafa gengið vel það sem af er árinu. Í lok ágúst 2023 höfðu verið gefin út ríkisskuldabréf fyrir rúmlega 106 milljarða af 140 milljarða hámarki ársins. Undanfarin tvö ár hefur eitt af helstu forgangsmálum ríkisfjármála verið að bæta afkomu og hægja á vexti skulda m.a. til að draga úr þenslu- og ruðningsáhrifum hins opinbera í hagkerfinu.

Útlit er fyrir að skuldir ríkissjóðs samkvæmt skuldaviðmiði í lögum um opinber fjármál hafi náð hámarki árið 2022 í 33% af VLF þegar litið er til áranna frá 2017. Bætt afkoma og mikill nafnvöxtur VLF geri það að verkum að hlutfallið muni lækka í 32% í árslok 2023.

Í fjármálaáætlun 2024-2028 helst það nokkuð stöðugt út tímabil fjármálaáætlunar en í henni var gert ráð fyrir að sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka yrði helsta ástæða skuldalækkunar árin 2023 og 2024. Gert er ráð fyrir að sala hlutanna færist að hluta til yfir á árið 2024 og dregur það um leið úr fjárþörf ríkissjóðs á því ári. Það byggist m.a. á forsendum um eignasölu.

Krónutölugjöld, utan bifreiðagjalda, munu uppfærast um 3,5% um næstu áramót ólíkt fyrra ári þegar þau voru látin fylgja verðlagshækkunum. Fyrir vikið rýrna gjöldin að raunvirði milli ára þótt tekjur ríkissjóðs aukist um 3,4 milljarða við breytinguna.

Áformum um upptöku gistináttaskatts á nýjan leik, sem var felldur niður í heimsfaraldrinum, er ætlað að tryggja ríkissjóði aukalega tekjur upp á 1,5 milljarða fyrir utan nýja skattlagningu á skemmtiferðaskip sem kemur til viðbótar og er gjaldinu ætlað að skila alls yfir fjórum milljörðum á næsta ári.

Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum nemi 12 milljörðum árið 2024. Þar af er 2,1 milljarður tilkominn vegna verðmætagjalds af fiskeldi. Aukningin er í senn tilkomin vegna aukinnar framleiðslu en þó að mestu vegna hækkunar verðmætagjalds úr 3,5% í 5% og samspils þeirrar hækkunar við sólarlagsákvæði sem sett var á við upptöku gjaldsins og rennur út í skrefum til ársins 2026.

Höf.: Hörður Vilberg