Höfundur um borð í varðskipinu Baldri þegar verið var að ganga frá togvíraklippunum 1. júní 1976.
Höfundur um borð í varðskipinu Baldri þegar verið var að ganga frá togvíraklippunum 1. júní 1976. Ljósmynd/Jón Páll Ásgeirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Núna þegar við Íslendingar erum að drukkna í reglugerðafargani og endalausum nefndarskipunum gæti ég vel ímyndað mér að atburðarásin yrði eitthvað á þessa leið…

Halldór B. Nellett

Þegar fylgst er með þjóðmálum í dag er ég sterklega farinn að fá þá tilfinningu og hún eykst með degi hverjum að íslenskir ráðamenn óttist það að taka ákvarðanir.

Ákvarðanafælni heitir það víst. Kannski vegna þess að þær hafa undanfarin ár margar verið kolrangar. Endalaust skipaðar nefndir og ráð sem kosta okkur skattgreiðendur mikla peninga. Sama hvert horft er, loftslagsmál, samgöngumál, útlendingamál, virkjanamál og margt fleira.

Nýjasta dæmið er ákvörðun sjávarútvegsráðherra um nefndarskipan í stefnumótun í sjávarútvegsmálum sem mun víst kosta einhverjar 125 milljónir króna!

Mér finnst alveg með ólíkindum að svo miklum peningum sé varið í slíka hluti, vitandi það að t.d. einungis í matvælaráðuneytinu, sem er víst heitið á gamla sjávarútvegsráðuneytinu, er fjöldi manns að vinna, margir tugir, og hver ráðherra að auki með sérstaka tvo aðstoðarmenn.

Ég vil deila með lesendum nýlegum hugleiðingum mínum um þetta efni hér á síðum Morgunblaðsins:

Í dag er nákvæmlega 51 ár síðan varðskipsmenn á Ægi notuðu fyrst togvíraklippurnar í þorskastríðunum á árunum 1972 til 1976. Þvílík guðslukka að árið var 1972 en ekki 2023.

Núna þegar við Íslendingar erum að drukkna í reglugerðafargani og endalausum nefndarskipunum gæti ég vel ímyndað mér að atburðarásin yrði eitthvað á þessa leið í dag ef svipað kæmi upp á!

Fyrir notkun varðskipsmanna með togvíraklippur yrði að leita formlegs leyfis frá dómsmálaráðuneytinu. Þar á bæ myndi enginn þora að taka ábyrgð á leyfi til togvíraklippinga. Málið hefði verið sent í einhverja úrskurðarnefnd sem færi með málið í umhverfismat og endirinn eflaust sá að algjörlega ótækt væri að skera veiðarfæri frá skipum og skilja þau eftir út um allan sjó.

Málið færi síðan eflaust líka fyrir einhverja öryggisnefnd sem myndi komast að þeirri niðurstöðu að klippurnar væru stórhættulegar, bæði áhöfnum varðskipa og togara, þegar togvírar væru klipptir í sundur. Togvírar slægjust í allar áttir og gætu slasað og jafnvel drepið fólk.

Svo að endingu færi málið fyrir fagráð sem yrði sett á laggirnar sem væri fullt af vel menntuðum gáfumönnum með fjöldann allan af háskólagráðum en ættu það örugglega sameiginlegt að enginn þeirra hefði nokkurn tíma migið í saltan sjó og er ég nokkuð viss um niðurstöðuna þar líka.

Allar þessar nefndir og ráð hefðu kostað okkur skattgreiðendur fúlgur fjár og niðurstaðan sú að togvíraklippur hefðu aldrei verið leyfðar.

Niðurstaðan eftir þorskastríðin: Togvíraklippurnar skiptu sköpum í þorskastríðunum frá 1972-1976. Segja má að klippurnar hafi lagt grunninn að yfirráðum okkar Íslendinga yfir fiskimiðunum. Enginn slasaðist þrátt fyrir fjölda togvíraklippinga og trollin komu flestöll upp síðar með veiðarfærum annarra skipa.

Meðfylgjandi mynd tók Jón Páll Ásgeirsson um borð í varðskipinu Baldri af undirrituðum þegar verið var að ganga frá togvíraklippunum 1. júní 1976 þegar þorskastríðunum lauk.

Guðmundur heitinn Kjærnested, sem var skipherra á Ægi, sagði svo frá fyrstu klippingunni 5. september 1972:

„Varð mikið uppistand meðal bresku togaranna sem þarna voru að veiðum um 22 sjómílur innan nýju 50 mílna markanna. Allir hífðu upp trollin og komu siglandi á fullri ferð. Við á Ægi fórum hring um óþekkta togarann og komum nærri stjórnborðsskuthorni hans. Áhöfnin stóð á bátaþilfari og skipverjar köstuðu kolamolum og alls kyns rusli yfir í varðskipið. Einn skipverja á togaranum kastaði stórri brunaöxi sem fór í sjóinn á milli skipanna.“

Höfundur er fyrrverandi skipherra hjá Landhelgisgæslunni.

Höf.: Halldór B. Nellett