Frjálsar
Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is
Frjálsíþróttakonan Erna Sóley Gunnarsdóttir úr ÍR tók þátt í sínu fyrsta heimsmeistaramóti þegar hún keppti fyrir Íslands hönd í kúluvarpi á HM 2023 í Búdapest undir lok síðasta mánaðar.
Á mótinu varpaði Erna Sóley kúlunni lengst 16,68, metra, hafnaði í 27. sæti af 34 keppendum og komst ekki áfram í úrslit. Þrátt fyrir það var hún hæstánægð með þátttökuna.
„Þetta var frábær reynsla og geggjað að fá að taka þátt í þessu heimsmeistaramóti. Ég er rosalega þakklát fyrir að fá að keppa á svona móti. Ég kom inn í þetta mót núna mjög lágt skrifuð á stigalistanum.
Væntingarnar voru bara þær að komast inn á mótið og gera mitt besta. En að vera með þessa reynslu fyrir næsta stóra mót er geggjað. Með þessa reynslu getur maður stefnt á að gera miklu betur næst,“ sagði Erna Sóley í samtali við Morgunblaðið.
Gríðarleg samkeppni
Íslandsmet hennar í greininni utanhúss er 17,39 metrar og 17,92 metrar innanhúss. Til þess að hafa átt möguleika á að komast í úrslit hefði Erna Sóley þurft að kasta kúlunni 18,59 metra eða meira. Samkeppnin í greininni er enda gríðarleg.
„Hún er það. Það eru rosa margar góðar sem eru að koma upp núna. Það var eiginlega óraunhæft markmið á þessu tímabili að vera á þessum stað. Ég náði stóra markmiðinu mínu á tímabilinu, sem var að komast þarna inn. Ég er mjög sátt við það.“
Búið að vera langt tímabil
Hún viðurkennir þó að hafa viljað komast nær sínu besta í Búdapest.
„Já, algjörlega. Þetta er búið að vera frekar langt tímabil. Með því að vera úti í skólanum voru þjálfararnir mínir þar rosalega mikið að byggja tímabilið upp þannig fyrir mig að ég væri upp á mitt besta á meðan ég var í skólanum.
Það er mjög erfitt að halda svona toppárangri út allt tímabilið. Eins og til dæmis á næsta ári, þá verð ég ekki byrjuð að keppa svona snemma og þá get ég einbeitt mér að því að vera upp á mitt besta á tímabilinu þegar þessi stóru mót fara fram. Það verður rosa spennandi,“ útskýrði Erna Sóley.
Áfram góð stígandi
Hún lauk nýverið fimm ára námi við Rice-háskóla í Houston í Texasríki í Bandaríkjunum og útskrifaðist þaðan með meistaragráðu í alþjóðamálum með áherslu á alþjóðlegt öryggi.
Erna Sóley er flutt heim til Íslands og vonast til þess að finna sér vinnu við hæfi meðfram kúluvarpinu í haust. Spurð hvað tæki næst við í kúlunni sagði hún:
„Heimsmeistaramótið var lokakeppnin á tímabilinu mínu og núna eftir það fór ég í smá frí. Svo byrja ég bara aftur á undirbúningstímabili í næstu viku.
Það verður rosalega spennandi að byggja mig vel upp fyrir næsta ár. Ég ætla að reyna að vera sem best og halda áfram þessari góðu stígandi fyrir næsta ár,“ sagði Erna Sóley að lokum í samtali við Morgunblaðið.