Það þótti sjálfsagt langt fram á síðustu öld að sýna erlendum ferðahópum, ekki síst skógræktarfólki, það sem innlendir kölluðu skóg og voru stoltir af, þó gestirnir stæðu hálfir upp úr ísaldarbirkinu.
Þarna blandaðist saman minnimáttarkennd gagnvart skógleysinu og þráin eftir að vera eins og hinir.
Gestirnir voru auðvitað kurteisir og sögðu „det er meget smukt hos jer“.
Nær hefði verið að sýna Dönum fjöll og hinum hveri og hraun.
Nú er löngu komið í ljós að skógur getur þrifist á Íslandi, þakkað sé hlýnandi veðurfari og nú er að vita hvort við kunnum með að fara.
Skógarbelti meðfram þjóðvegum er slæm hugmynd og eyðileggur útsýni og breytir upplifun af landinu.
Land þar sem skógur hefur fengið að vaxa í hálfa öld verður ekki notað til annars nema með mikilli fyrirhöfn við rótaruðning og hreinsun.
Það er létt verk að vinna grjótmel í tún miðað við að ryðja skóg fyrir akurlendi.
Þeir kynntust því Vestur-Íslendingarnir.
Sunnlendingur