Justin Trudeau
Justin Trudeau
Indversk stjórnvöld höfnuðu í gær öllum ásökunum þess efnis að þau bæru ábyrgð á morðinu á Hardeep Singh Nijjar, einum af leiðtogum síka sem búa í Kanada. Nijjar, sem studdi aðskilnað síka frá Indlandi, var myrtur í júní síðastliðnum, en Justin…

Indversk stjórnvöld höfnuðu í gær öllum ásökunum þess efnis að þau bæru ábyrgð á morðinu á Hardeep Singh Nijjar, einum af leiðtogum síka sem búa í Kanada.

Nijjar, sem studdi aðskilnað síka frá Indlandi, var myrtur í júní síðastliðnum, en Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada tilkynnti kanadíska þinginu í fyrradag að stjórnvöld hefðu heyrt „trúverðugar ásakanir“ um að leyniþjónusta Indlands hefði staðið að morðinu.

Trudeau skoraði á indversk stjórnvöld að vinna með Kanadamönnum að lausn málsins. „Aðild nokkurrar erlendrar ríkisstjórnar að morði á kanadískum þegn á kanadískri grundu er óviðunandi brot á fullveldi okkar,“ sagði Trudeau.

Kanadamenn tilkynntu einnig á mánudaginn að þeir hefðu vísað úr landi Pavan Kumar Rai, indverskum diplómata sem sagður er hafa leitt starfsemi indversku leyniþjónustunnar í Kanada.

Indverjar svöruðu brottvísun hans í gær með því að reka einn sendiráðsstarfsmann Kanada heim frá Indlandi. Sagði indverska utanríkisráðuneytið að ástæða brottvísunarinnar væri áhyggjur Indverja af „afskiptum kanadískra diplómata í innanríkismálum okkar og þátttaka þeirra í and-indverskum athöfnum“.

Uppljóstrun Trudeaus í fyrradag þykir varpa nýju ljósi á stirð samskipti hans við Narendra Modi forsætisráðherra Indlands að undanförnu, en Trudeau mun hafa borið málið upp við Modi á leiðtogafundi G20 í mánuðinum. Þá frestuðu Kanadamenn fríverslunarviðræðum við Indland fyrr á árinu.