Kristín Heiða Kristinsdóttir
Stundum er ég afar þakklát fyrir tæknina, milli þess sem ég fæ þrjóskuröskunarköst og neita að tileinka mér einstakar nýjungar. Ég tek opnum örmum tækni sem kemur í veg fyrir að ég missi af góðu útvarps- eða sjónvarpsefni. Ég nýti mér sarpinn á RÚV mikið, því ekki er ég alltaf með eyru eða augu nálægt viðtækjum þegar eitthvað áhugavert fer í loftið. Ég hafði t.d. heyrt fyrir algera tilviljun, akandi í bifreið minni, brot af þáttum sem voru á Rás 1 í fyrrahaust og heita Sjáandinn á Vesturbrú. Þar segja þær Þórdís Gísladóttir og Þorgerður Sigurðardóttir frá afar áhugaverðri manneskju, Guðnýu Eyjólfsdóttur Vestfjörð sem fæddist 1888 og ólst upp í torfkofa í Nauthólsvík. Upp úr tvítugu sigldi hún til Kaupmannahafnar þar sem hún vann láglaunastörf, varð einstæð móðir, komst í kast við lögin og gerðist spákona og heilari yfirstéttar Kaupmannahafnarborgar. Víða er leitað fanga í þáttunum. m.a. rætt við ættingja Guðnýjar og sagnfræðinga. Nú, tæpu ári eftir frumflutning þáttanna, sótti ég mér þá á sarpinum og gleypti í mig kostulega lífssöguna hennar Guðnýjar, en hún tengdist m.a. mest umræddu morðum í sögu Danmerkur. Einnig koma falsaðir peningaseðlar frá Þýskalandi nasismans við sögu. Mæli með að fólk hlusti á.