Guðný Kom í Amalíuborgarhöll til að spá.
Guðný Kom í Amalíuborgarhöll til að spá. — Ljósmynd/Úr blaðaauglýsingu
Stundum er ég afar þakklát fyrir tæknina, milli þess sem ég fæ þrjóskuröskunarköst og neita að tileinka mér einstakar nýjungar. Ég tek opnum örmum tækni sem kemur í veg fyrir að ég missi af góðu útvarps- eða sjónvarpsefni

Kristín Heiða Kristinsdóttir

Stundum er ég afar þakklát fyrir tæknina, milli þess sem ég fæ þrjóskuröskunarköst og neita að tileinka mér einstakar nýjungar. Ég tek opnum örmum tækni sem kemur í veg fyrir að ég missi af góðu útvarps- eða sjónvarpsefni. Ég nýti mér sarpinn á RÚV mikið, því ekki er ég alltaf með eyru eða augu nálægt viðtækjum þegar eitthvað áhugavert fer í loftið. Ég hafði t.d. heyrt fyrir algera tilviljun, akandi í bifreið minni, brot af þáttum sem voru á Rás 1 í fyrrahaust og heita Sjáandinn á Vesturbrú. Þar segja þær Þórdís Gísladóttir og Þorgerður Sigurðardóttir frá afar áhugaverðri manneskju, Guðnýu Eyjólfsdóttur Vestfjörð sem fæddist 1888 og ólst upp í torfkofa í Nauthólsvík. Upp úr tvítugu sigldi hún til Kaupmannahafnar þar sem hún vann láglaunastörf, varð einstæð móðir, komst í kast við lögin og gerðist spákona og heilari yfirstéttar Kaupmannahafnarborgar. Víða er leitað fanga í þáttunum. m.a. rætt við ættingja Guðnýjar og sagnfræðinga. Nú, tæpu ári eftir frumflutning þáttanna, sótti ég mér þá á sarpinum og gleypti í mig kostulega lífssöguna hennar Guðnýjar, en hún tengdist m.a. mest umræddu morðum í sögu Danmerkur. Einnig koma falsaðir peningaseðlar frá Þýskalandi nasismans við sögu. Mæli með að fólk hlusti á.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir