Valskonur eru einar með fullt hús stiga á toppi úrvalsdeildar kvenna í handknattleik eftir sigur á ÍBV, 23:21, á Hlíðarenda í gærkvöld, í uppgjöri liðanna sem léku til úrslita um Íslandsmeistaratitlinn síðasta vor.
Bæði lið höfðu unnið báða leiki sína í fyrstu tveimur umferðunum.
Valskonur komust í 13:6 í fyrri hálfleik. ÍBV minnkaði muninn í 15:9 fyrir hlé og skoraði síðan fimm fyrstu mörk síðari hálfleiks. Eftir það var leikurinn spennandi til leiksloka en mark Sigríðar Hauksdóttur á lokamínútunni tryggði endanlega sigur Vals.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði 7 mörk fyrir Val og Sigríður Hauksdóttir 4. Thea Imani Sturludóttir átti 5 stoðsendingar og Hafdís Renötudóttir varði 11 skot.
Birna Berg Haraldsdóttir skoraði 10 mörk fyrir ÍBV og Sunna Jónsdóttir 6. Marta Wawrzykowska varði 12 skot.