Adólf Sigurgeirsson fæddist á Sæbergi í Vestmannaeyjum 15. ágúst 1930.
Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 7. september 2023.
Foreldrar hans voru Sigurgeir Þorleifsson, f. 12. júlí 1902, d. 24. ágúst 1950, og kona hans Júlía Gísladóttir, f. 16. júlí 1904, d. 19. sept. 1933.
Fósturforeldrar hans voru Gróa Þorleifsdóttir, f. 20. okt. 1896, d. 10. júlí 1991, og Gunnsteinn Eyjólfsson, f. 14. mars 1893, d. 27. mars 1972.
Systir Adólfs, samfeðra, Júlía, f. 31. ágúst 1937.
Börn Gunnsteins og Gróu, fóstursystkini Adólfs, voru: Kristín, f. 13. ágúst 1919, d. 17. sept. 2011, og Sigurður, f. 4. feb. 1925, d. 1. mars 2008.
Adólf kvæntist 17. maí 1959 Önnu Jenný Marteinsdóttur frá Björgvin í Vestmannaeyjum, f. 31. mars 1937, d. 16. maí 2018. Foreldrar hennar voru Margrét I. Halldórsdóttir, f. 25. mars 1909, d. 18. ágúst 2012 og Martin Frederiksen, f. 25. maí 2010, d. 24. feb. 1988.
Börn Adólfs og Önnu eru: 1) Sigurgeir Halldór, f. 24. des. 1959, d. 18. ágúst 1967. 2) Kjartan Friðrik, f. 6. nóv. 1964, kvæntur Geirlaugu Geirdal, f. 16. ágúst 1964. Börn: Jenný Geirdal (2002), Davíð Geirdal, andvana fæddur (2005) og Edda Geirdal (2005). 3) Margrét, f. 27. sept. 1966, gift Inga Birgi, f. 1. ágúst 1959, d. 27. okt. 2018. Barn: Anna Þóra, andvana fædd (1992). 4) Sigrún, f. 13. des. 1969, gift Thomasi Gausepohl, f. 4. nóv. 1969. Börn: Linda Björg (2001) og Aron Benedikt (2003).
Barnsmóðir Adólfs var Stefanía Guðmundsdóttir, f. 24. maí 1932, d. 27. feb. 2019. Börn: 1) Júlía, f. 24. nóv. 1952, d. 5. des. 2020. Börn: Sigurbjörn (1970) og Gunnsteinn (1972). 2) Elísa, f. 24. des. 1953. Börn: Jón (1971), Róbert (1976), Lovísa (1979) og Hlynur (1986).
Adólf var sjómaður í 20 ár, m.a. á Þórunni VE og Maggý VE, lauk námi í plötu- og ketilsmíði, vann í Vélsmiðjunni Magna fram að gosi. Flutti þá til Grindavíkur, lauk meistaraprófi og vann í Vélsmiðju Grindavíkur, síðar áhaldahúsi bæjarins.
Adólf og Anna bjuggu saman frá 1958, fyrst á Kirkjubæjarbraut 5, byggðu síðan húsið í Grænuhlíð 25, fluttu inn 1965. Eftir gos festu þau kaup á Suðurvör 2, Grindavík. Fluttu inn haustið 1973, þar bjó hann alla tíð síðan, að undanskildum síðustu þremur mánuðum er hann bjó í Víðihlíð, heimili aldraðra.
Adólf var áhugasamur um verkalýðsmál. Tók virkan þátt í starfi sinna félaga, fyrst Iðnsveinafélagi Vestmannaeyja (ISFV) fram yfir gos er hann fór að sækja fundi hjá Iðnsveinafélagi Suðurnesja (ISFS). Tók fljótt sæti í stjórn félagsins og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum, m.a. formennsku málmiðnaðardeildar, þar til félagið sameinaðist FIT árið 2007. Eftir það gegndi hann um tíma stöðu skoðunarmanns reikninga. Adólf var gerður að heiðursfélaga Iðnsveinafélags Suðurnesja 1. maí 2007.
Útför Adólfs verður gerð frá Grindavíkurkirkju í dag, 20. september 2023, kl. 13.
Elsku pabbi hefur kvatt þennan heim eftir stutta sjúkrahúslegu og haldið á vit nýrra ævintýra með Önnu sinni, sem hann saknaði svo eftir að hún lést árið 2018.
Á svona stundum verður maður eigingjarn og vill halda í þá sem standa næst sem allra lengst, þó aldur færist yfir. Pabbi varð 93 ára í ágúst en lifði í heild góðu lífi þrátt fyrir áföll.
Missti móður sína þriggja ára og fór í fóstur til Gróu og Gunnsteins að Stafholti í Vestmannaeyjum sem reyndust honum afar vel. Þau Anna misstu elsta son sinn einungis átta ára gamlan úr hvítblæði. Líkt og margir misstu þau heimili sitt í gosinu 1973, fluttu til Grindavíkur og bjuggu þar æ síðan.
Sem ungur maður stundaði hann sjóinn, lauk sveinsprófi í plötu- og ketilsmíði og starfaði í Magna fram að gosi. Í Grindavík lauk hann meistaraprófi í sömu iðngrein og starfaði í Vélsmiðju Grindavíkur og áhaldahúsinu þar til hann varð sjötugur.
Hann þótti fær suðumaður og óskuðu margir sérstaklega eftir honum, þegar sinna þurfti vandasömu verki.
Pabbi var ætíð duglegur að fara út að labba og minnast margir þess.
Fylgdist vel með ÍBV og Man. Utd. Ja og Arsenal, aðallega þegar þeir töpuðu. Í Grindavík bjó hann nánast alla tíð að Suðurvör 2, utan síðustu þriggja mánaða er hann bjó á heimili aldraðra. Hann var frumbyggi í svokallaðri eyjabyggð og var eini íbúinn sem hafði verið í hverfinu frá upphafi.
Mamma og pabbi voru alla tíð samrýmd hjón. Voru dugleg að ferðast. Minnist ég sérstaklega allra veiðiferðanna á Þingvelli, Kleifarvatn, Snæfellsnes og sumarbústaðaferðanna. Þegar yngsta dóttirin flutti utan voru þau dugleg að fara að heimsækja hana.
Hann var áhugasamur um veður og hélt dagbók í mörg ár. Fannst gaman að elda mat, enda kokkur til sjós. Þótti gaman að koma mömmu á óvart með allskyns tilraunastarfsemi.
Það var því honum mikið áfall þegar mamma féll frá. Hann vann sig úr því og var ákveðinn í að standa sig þrátt fyrir einmanaleika. Hélt eigið heimili fram á síðasta dag. Eldaði hafragraut á morgnana og stöku kvöldmat. Var kominn í hádegismat í Víðihlíð. Síðustu árin kom hann a.m.k. á sunnudögum í mat til okkar Gógóar.
Var lengi vel ekki tilbúinn að flytja úr Suðurvörinni í Víðihlíð, en eftir alla jarðskjálftana og gos gafst hann nánast upp og flutti í júní sl. Því miður varð tíminn ekki langur til að njóta þar.
Elsku pabbi, komin er kveðjustund, það verður skrýtið að fá þig ekki í mat á sunnudögum eða kíkt í heimsókn. Það verður skrýtið að geta ekki „pirrað“ sig á að þurfa að stökkva til þegar hringt er því þú ýttir á vitlausan takka í tölvunni. Eða eins og hann sagði gjarnan: „Það liggur ekkert á.“
Já, það verður margt skrýtið.
Ég veit að hún Anna mín, eins og hann kallaði mömmu ávallt, mun taka vel á móti þér og Sigurgeir. Ég veit líka að þið munið hugsa vel um strákinn okkar Gógóar, hann Davíð.
Elsku pabbi, komin er kveðjustund, minningar um ykkur geymum við í hjörtum okkar um ókomna tíð. Kveðjum þig með þessum fátæklegu orðum og loforði um að passa vel upp á afastelpurnar þínar.
Þinn sonur og tengdadóttir,
Kjartan og Geirlaug (Gógó).
Elsku afi, minningin um þig verður ávallt í hjarta okkar. Takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman, afakexið, ísinn, heimsóknirnar og að vera svona góður við okkur.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum)
Takk fyrir allt.
Jenný Geirdal og
Edda Geirdal.