Hringbraut JL-húsið verður heimili fyrir fólk á flótta á næstu misserum.
Hringbraut JL-húsið verður heimili fyrir fólk á flótta á næstu misserum. — Morgunblaðið/sisi
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í að JL-húsið við Hringbraut verði að fullu nýtt fyrir þjónustu við flóttafólk.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í að JL-húsið við Hringbraut verði að fullu nýtt fyrir þjónustu við flóttafólk.

Á fundi skipulagsfulltrúa 31. ágúst síðastliðinn var lögð fram fyrirspurn Yrkis arkitekta ehf. um hvort breytingar á JL-húsinu á lóð nr. 121 við Hringbraut, samkvæmt uppdrætti Yrkis arkitekta, væru í samræmi við gildandi deiliskipulag. Breytingarnar fela í sér að innrétta 2. og 3. hæð sem gistiskála eða farfuglaheimili (hostel) ásamt því að innrétta jarðhæð sem þjónustumiðstöð, kaffihús, aðstöðu fyrir börn og kennslustofur. Áður höfðu 4. og 5. hæðir hússins verið innréttaðar fyrir gististarfsemi og þar býr flóttafólk í dag.

Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnastjóra. Umsögnin var lögð fram á fundi skipulagsfulltrúa 14. september 2023 og samþykkt. Þar kemur fram að í gildi sé deiliskipulag fyrir Hringbraut 121/Lýsisreitinn, samþykkt í borgarráði 15. febrúar 2007 með síðari breytingum.

„Húsið á lóð nr. 121 við Hringbraut er atvinnuhúsnæði en í dag er starfrækt á annarri og þriðju hæð hússins Myndlistaskóli Reykjavíkur, fjórða og fimmta hæð hússins eru innréttaðar og nýttar sem farfuglaheimili. Jarðhæð hússins stendur tóm sem stendur en þar var áður rekið kaffihús, bar, píla og veitingastaður,“ segir í umsögninni.

Óskað sé eftir afstöðu skipulagsfulltrúa til þess hvort fyrirhugaðar breytingar innanhúss séu í samræmi við gildandi deiliskipulag fyrir húsið en til stendur að nýta húsið undir tímabundið aðsetur fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Jákvætt er tekið í fyrirspurnina fyrir Hringbraut 121 varðandi breytingu á starfsemi innan byggingarinnar en húsið yrði að fullu nýtt undir þjónustu við flóttafólk/gistiheimili, segir í niðurstöðu verkefnastjórans. Huga þurfi að góðum sameiginlegum rýmum fyrir fólk til að koma saman, hvort sem það er eldhúsaðstaða, snyrtiaðstaða eða kaffiaðstaða hvers konar.

Hringbraut 121 er fjórlyft hús með risi, byggt úr vikursteini, steinsteypu og stáli. Það var reist fyrir Vikurfélagið, síðar Jón Loftsson hf., á árunum 1945-1957. Á jarðhæð var um árabil verslun Nóatúns en síðar veitingastarfsemi. Á efri hæðum hefur verið ýmis starfsemi í gegnum árin, svo sem myndlistarkennsla og gististarfsemi.

Borgin leigir eina hæð

Borgarráð samþykkti í maí 2023 að Reykjavíkurborg tæki á leigu 4. hæðina í JL-húsinu við Hringbraut fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Húsnæðið er 1.060 fermetrar að stærð með 22 herbergjum. Eldhús fylgir hinu leigða rými en án búnaðar. Húsaleiga er 4.250.000 krónur á mánuði. Gert er ráð fyrir þessum kostnaði í greiðslum ríkisins til Reykjavíkurborgar fyrir móttöku á hælisleitendum.

Fram kemur í leigusamningnum að þinglýstur eigandi hins leigða húsnæðis sé Íslandsbanki en það sem kallað er grunnhúsaleigutaki sé félagið Eykt ehf.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson