Anna Margrét Jensdóttir fæddist í Reykjavík 14. júlí 1921. Hún lést 8. september 2023.

Foreldrar hennar voru Ása Sigurðardóttir, f. 1895, d. 1984 og Jens Ebeneser Eiríksson, f. 1885, d. 1923. Albræður hennar voru Baldur Eiríkur, f. 1918, d. 2014 og Bragi Sigurður, f. 1919, d. 1921. Seinni maður Ásu var Steinarr St. Stefánsson, f. 1896, d. 1980. Hálfbræður Önnu voru Leifur, f. 1927, d. 2006, Atli, f. 1929, d. 2017 og Bragi Jens, f. 1936, d. 2012.

Anna giftist 21. október 1944 Helga Markúsi Kristóferssyni, f. 1918, d. 2010. Börn þeirra eru: 1) Guðný Árdís, f. 1. janúar 1946, hennar maður er Karl Ragnarsson, f. 1948. Þeirra börn: a) Helgi Már, b) Guðríður Linda, c) Margrét Ása, d) Ragnar Freyr. 2) Áslaug, f. 15. febrúar 1949, hennar maður er Carl Kjettrup, f. 1943. Þeirra börn: a) Anja, b) Robert. 3) Hulda, f. 22. nóvember 1950, hennar maður Hjálmar Sigurðsson, f. 1949, d. 2014. Þeirra börn: a) Ólafur Ragnar, b) Anna Elín, c) Hallgrímur, d) Helga Sigríður. 4) Jens Björgvin, f. 2. júní 1952, kona hans er Guðrún Ragnars, f. 1953, þeirra synir: a) Arnar Þór, b) Ólafur Ágúst, c)Helgi Ragnar. Langömmubörnin eru 27.

Anna missti föður sinn ung og var komið í fóstur í fimm ár. Almenna skólagöngu hóf hún tíu ára. Síðar var hún tvo vetur í kvöldskóla með vinnu. Vann hún m.a. á saumastofu og í sælgætisgerð. Var hún heimavinnandi á meðan börnin voru að alast upp og þá saumaði hún föt, bæði á sig og börnin. Eftir fimmtugt vann hún á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans í u.þ.b. 20 ár. Þau hjónin höfðu til afnota landspildu við Úlfarsfell,Þar dvöldu þau flesta daga að sumarlagi, enda var stutt að fara. Hún var heilsuhraust alla ævi og bjó í sömu íbúðinni í 76 ár. Síðustu þrettán árin bjó hún þar ein og hugsaði um sig sjálf að langmestu leyti.

Útförin verður frá Laugarneskirkju í dag, 20. september 2023, kl. 11.

Elskuleg tengdamóðir mín er fallin frá 102 ára gömul. Með henni er gengin sómakona sem aldrei lét bilbug á sér finna. Hún var hraust og með góða andlega heilsu fram á síðasta dag, fylgdist með allri fjölskyldunni jafnt sem málefnum líðandi stundar. Anna var sjálfstæð og ákveðin kona með sterkar skoðanir. Ég átti því láni að fagna að kynnast henni og Helga tengdaföður mínum fyrir tæpum 50 árum. Ég minnist hennar með hlýhug og þakklæti fyrir ómetanlegar samverustundir og hjálpsemi.

Það var alltaf gott að koma á Silfurteiginn þar sem fjölskyldan sameinaðist í kaffiboðum þar sem alltaf var boðið upp á hlaðborð af kræsingum. Henni var umhugað um að allir fengju nóg að borða og spurði oft ítrekað hvort ekki mætti bjóða meira.

Ferðirnar upp í land með strákana okkar verða lengi í minnum hafðar. Þar áttum við yndislegar samverustundir með kaffi á brúsa og eitthvað gott til að narta í.

Þau hjónin nutu samvista hvort við annað og voru mjög samrýnd. Þeirra bestu stundir voru í landinu þar sem þau áttu griðastað rétt fyrir utan bæjarmörkin. Helgi lést árið 2010. Anna æðrulaus að vanda hélt áfram búi sínu ein í íbúðinni á Silfurteig þar sem þau bjuggu frá árinu 1946.

Ég vil þakka henni samfylgdina í gegnum öll árin og bið góðan guð að varðveita hana.

Guðrún Ragnars.

Elsku amma á silfó.

Mikið var gott að eiga nokkrar stundir með þér síðastliðið sumar. Ég verð að viðurkenna að það tekur mikið á að vera langt í burtu á skilnaðartímum. Við vorum reyndar margoft búin að ræða saman um það þegar sá tími rynni upp. En það er margt sem ég mun sakna.

Ég mun sakna kakósins sem þú komst alltaf með í Landið. Það var svo gott að fá sér heitan sopa eftir að hafa verið að leika sér í Landinu, ævintýralandinu við rætur Úlfarsfells sem þú og afi ræktuðuð af svo mikilli ástríðu.

Ég mun sakna að bíta sem smástrákur í nýuppteknar gulrætur upp úr garðinum í Landinu. Lyktin og bragðið af gulrótunum sem voru nýþvegnar af þér upp úr þvottabala í lok sumars munu vara í huga mínum lengi.

Ég mun sakna kvöldkaffisins sem þú bjóst svo oft til þegar ég gisti hjá ykkur afa. Það eru svo dýrmætar minningar að sitja með ykkur í stofunni sem barn og horfa saman á kvikmynd kvöldsins í ríkissjónvarpinu. Sama hversu góð eða slæm myndin var þá var kvöldið gæðastund.

Ég mun sakna ristaða brauðsins með hunangi og osti. Það mun aldrei verða það sama. Ég hef margsinnis prófað að borða það undir öðrum kringumstæðum en hjá þér í eldhúsinu og það bragðast ekki eins.

Ég mun sakna að lesa í gegnum blöðin sem voru á skrifborðinu inni í herbergi. Róin sem þessar aðstæður bjuggu til var einstök.

Ég mun sakna að leggja mig á gólfinu uppi í stofu hjá þér um hábjartan dag þegar ég var flugþreyttur.

Ég mun sakna allra samtalanna við þig. Þú varst svo skýr, ávallt meðvituð um það sem var að gerast í stjórnmálum og alltaf með skoðanir sem byggðust á réttlætiskennd og góðri siðfræði.

Mörg tár hafa runnið niður við allar þær minningar sem komu upp við að skrifa þessa grein. Þetta er einungis brot af því besta. Þín verður lengi minnst, amma. Ekki eingöngu sökum þess að þú hafir náð einstökum aldri heldur vegna alls þess sem þú kenndir mér.

Ég veit að bræður mínir taka undir flest af því sem ég mun sakna. Við munum allir sakna þín.

Arnar Þór, Ólafur Ágúst og Helgi Ragnar.

Það er margt sem fer í gegnum hugann við fráfall ömmu Önnu sem nú hefur kvatt okkur í hárri elli en hún náði því að verða 102 ára í sumar. Að hafa fengið tíma með henni í heil 53 ár er alveg einstakt sem ég get ekki verið annað en þakklátur fyrir. Amma lifði alveg hreint út sagt ótrúlega tíma eða allt frá upphafi þriðja áratugar síðustu aldar, þegar Kristján tíundi konungur Danmerkur var enn konungur Íslands. Hún sagði mér frá bernsku sinni við kröpp kjör þegar hún flutti ásamt móður sinni og bróður frá Önundarfirði til Reykjavíkur og árunum sem þá tóku við þegar hún var m.a. send í fóstur norður í Eyjafjörð. Hún ræddi við mig um lýðveldishátíðina sem haldin var á Þingvöllum árið 1944 sem hún sótti með afa, síðari heimsstyrjöldina og þá óvissu sem íslenskt samfélag var í á þeim tíma. Alla uppbygginguna sem átti sér stað að loknu stríðinu, haftatímann sem fór í hönd, verðbólgu og tíðar gengisfellingar. Það var sannarlega áskorun að halda heimili, koma fjórum börnum til manns og sækja vinnu við þær aðstæður, en allt leystu amma og afi þetta með útsjónarsemi og samtakamætti. Alla þá atburði sem síðar komu á daginn s.s. tæknibólu, bankahrun og síðast heimsfaraldur Covid 19. Ég vil minnast þess þegar amma og afi komu í heimsókn til okkar þegar ég bjó í Vík í Mýrdal og þá dvöldu þau í hvert sinn í 2-3 daga í senn. Alltaf höfðu þau góðgæti með í sínum fórum sem glöddu okkur systkinin. Ferðalög sem farin voru um Vestfirði, Snæfellsnes og víðar um land með stórfjölskyldunni þegar gist var í tjöldum eru mér í fersku minni. Þegar ég sótti nám í framhaldsskóla í Reykjavík bjó ég í kjallaraíbúð ömmu og afa við Silfurteig við gott atlæti. Hús sem afi og bræður hans byggðu saman árið 1947 og amma bjó í í heil 76 ár en sú íbúð er á 2. hæð þar sem engin er lyftan. Heimili þeirra hefur skipað fastan sess í huga allra afkomenda þeirra öll þessi ár. Þar var ég alltaf velkominn og var gott að koma, ræða málin eða til þess að hvílast og slaka á frá dagsins önn. Að ógleymdu „Landinu“ sem var gróðurreitur þeirra hjóna sem var þeim svo kær og á stóð lítill sumarbústaður í Hamrahlíðinni/ suðurhlíðum Úlfarsfells. Þar átti ég með þeim margar dýrmætar ánægjustundir á árum áður. Amma átti svo sannarlega farsælt og kærleiksríkt líf og er 41 afkomandi hennar á lífi í dag. Það sem ég kunni best að meta í hennar fari var hversu hreinskilin hún var alla tíð. Hún stóð föst á sínu og sagði sínar skoðanir hreint út. Hún átti það til að hnippa í mig og minna mig á ýmis atriði sem betur mættu fara hjá mér sem ég hef haft að leiðarljósi.

Að lokum vil ég þakka þér amma mín fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig.

Minning þín mun lifa í hjarta okkar.

Helgi Már Karlsson.

Elsku amma mín er látin. Við fráfall ömmu rifjast upp margar minningar en ein stendur þó upp úr, þegar ég og Sveinbjörg vinkona mín fórum til Reykjavíkur á ráðstefnu og gistum hjá ömmu og afa. Svo fórum við eitt kvöldið í bíó og bað amma okkur að láta sig vita þegar við kæmum heim, sem við gerðum. Við vorum kaldar og blautar þegar heim var komið því það rigndi svo mikið um kvöldið. Amma sagði okkur að fara niður í kjallara og fara í hrein og þurr föt og koma svo aftur upp, sem við gerðum. Þegar upp var komið var amma búin að gera heitt súkkulaði og leggja á borð og sagði okkur að fara að drekka til að fá hita í kroppinn. Eftir það sagði hún okkur að fara úr sokkunum og setja fæturna á ofninn til að hlýja okkur. Svona var amma, maður sagði henni að hafa ekkert fyrir okkur þegar við komum í heimsókn en hún tók ekki annað í mál.

Hvíldu í friði elsku amma og takk fyrir allt saman. Þín verður sárt saknað.

Anna Elín Hjálmarsdóttir.

Anna á Silfurteig föðursystir mín hefur nú lokið jarðvistinni, sem í hennar tilviki var óvenju löng, 102 ár. Hún hefur alla mína tíð verið kennd við Silfurteiginn enda hefur hún búið þar í yfir 70 ár í húsinu númer 4 sem hún byggði með Helga manninum sínum og hans bræðrum og fjölskyldum. Á fallega heimilinu þeirra hefur alla tíð allt verið í röð og reglu og hlýleiki og friðsemd mætir manni þegar inn kemur. Þar er líka allt eins og það hefur alltaf verið og engar stórvægilegar breytingar verið gerðar enda hefur þar alltaf verið farið vel með hlutina. Helgi og Anna voru gift í 66 ár og eignuðust fjögur börn; Guðnýju, Áslaugu, Huldu og Jens, og stór ættbogi kominn út frá þeim. Nú eru 13 ár síðan Helgi lést.

Anna var ungleg kona bæði í útliti og í sér enda fylgdist hún vel með, las mikið og fylgdist með fréttum. Hún var ákveðin og stefnuföst. Hún var einstaklega minnug og sagði skemmtilega frá. Ég hef alla tíð laðast að henni og fundist mjög fróðlegt og skemmtilegt að fá hjá henni innsýn í horfna tíð og ekki síst líf ömmu Ásu. Það voru erfið ár þegar amma missti manninn sinn og yngsta barnið úr berklum og hún stóð ein uppi með Önnu og bróður hennar Baldur. Síðar giftist amma Steinari afa og eignaðist þrjá syni með honum, þ. á m. pabba minn en honum þótti alltaf afar vænt um systur sína. Það var heilmikill svipur með þeim enda þau einu af systkinunum sem notuðu gleraugu.

Iðni, reglusemi og snyrtimennska fannst mér einkenna Önnu. Hún var flink að sauma og prjóna og margir hafa notið þess að klæðast ullarsokkunum sem hún var iðin við að gera á seinni árum. Hún hafði mikla unun af fallegri náttúru og sinnti ræktunarstörfum með Helga í landinu þeirra við Úlfarsfell. Ég fékk nokkrum sinnum að fara með þeim þangað og man vel hvað lundurinn þeirra var fallegur og vel gróinn.

Að leiðarlokum vil ég þakka fyrir allar góðu stundirnar sem ég hef átt með Önnu frænku. Ég votta börnum hennar og fjölskyldum samúð mína vegna fráfalls hennar en minningar um hana munu lifa með okkur um ókomna tíð.

Ása Steinunn Atladóttir.