Fyrirliði Arnór Smárason fyrirliði ÍA í leik með liðinu gegn Þór á Akureyri í 1. deildinni í sumar. Skagamenn stóðu uppi sem sigurvegarar í deildinni.
Fyrirliði Arnór Smárason fyrirliði ÍA í leik með liðinu gegn Þór á Akureyri í 1. deildinni í sumar. Skagamenn stóðu uppi sem sigurvegarar í deildinni. — Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.is „Tilfinningin er náttúrlega frábær. Þetta var auðvitað markmið sumarsins þegar maður kom heim og settist niður með stjórnarmönnum og þjálfurum,“ sagði Arnór Smárason fyrirliði ÍA í samtali við Morgunblaðið.

Fótbolti

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

„Tilfinningin er náttúrlega frábær. Þetta var auðvitað markmið sumarsins þegar maður kom heim og settist niður með stjórnarmönnum og þjálfurum,“ sagði Arnór Smárason fyrirliði ÍA í samtali við Morgunblaðið.

Arnór gekk til liðs við uppeldisfélagið fyrir tímabilið og átti stóran þátt í því að Skagamenn unnu 1. deild með glæsibrag um síðustu helgi og tryggðu sér þar með sæti í Bestu deildinni að nýju eftir eins árs dvöl í næstefstu deild.

„Það er frábært að taka þetta skref aftur upp í Bestu deildina á fyrsta tímabili. Það er náttúrlega frábært að koma heim og vinna deildina og fagna með fjölskyldu og vinum í stúkunni. Það er æðislegt,“ hélt hann áfram.

Snemma á tímabilinu var útlitið ekki gott þar sem ÍA hafði einungis unnið einn af fyrstu fimm leikjum sínum í deildinni og var aðeins búið að vinna sér inn fimm stig. Leikirnir fimm voru þó vissulega gegn fimm sterkustu liðum deildarinnar fyrir utan lið Skagamanna.

Þeim mun sætara í lokin

Upp frá því hrökk vélin hins vegar í gang, ÍA vann 14 af næstu 17 leikjum sínum og vann að lokum deildina sannfærandi, sex stigum fyrir ofan Aftureldingu í öðru sæti, en Mosfellingar voru á toppnum stærstan hluta sumarsins.

„Okkur var spáð góðu gengi. Við byrjuðum mótið ekkert sérstaklega vel, erfitt prógramm og allt í kringum það. Úrslitin voru ekki góð en við leikmenn, þjálfarar og stjórnarmenn misstum ekki trúna og vissum að við værum á réttri vegferð.

Um leið og þetta byrjaði að tikka varð ekki aftur snúið. Við höfðum alltaf á trú á því að þetta myndi ganga. Útlitið var svart á tímabili en þetta var þeim mun sætara núna í lokin,“ sagði Arnór um upplifun sína af tímabilinu.

Ekki unnið marga leiki

Hvernig vann ÍA sig í gegnum þessa slæmu byrjun?

„Skaginn hefur verið með mikið jójó-lið síðustu ár og það eru kannski ekkert margir í þessum hópi sem hafa unnið rosalega marga fótboltaleiki á síðustu árum.

Það gæti alveg verið að við höfum tekið það aðeins með okkur inn í byrjun mótsins, af því að spilamennska liðsins var alls ekki slæm.

Úrslitin duttu ekki með okkur en bara það að ná að snúa þessu við og komast á sigurbraut, byrja aðeins að skapa sigurhefð og vinna fótboltaleiki, skipti miklu. Með sigrum kemur betri stemning og betri liðsheild.

Þetta eru mestmegnis Skagamenn með alvöru Skagahjarta í þessu liði. Við sýndum fyrst og fremst frábæran karakter í mörgum af þessum lokaleikjum í sumar og það er það sem sigldi þessu í höfn fyrir okkur,“ sagði hann.

Allar líkur á því

Arnór skrifaði undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild ÍA fyrir tæpu ári og er því samningsbundinn út næsta tímabil. Sagði hann ekki útlit fyrir annað en að hann léki með liðinu í Bestu deildinni á næsta tímabili.

„Það er að sjálfsögðu stefnan og allar líkur á að ég geri það. Það var gott að taka þetta fyrsta skref og koma Skaganum aftur í deild þeirra bestu. Það hefur náttúrlega verið draumur minn síðan ég var lítill krakki að fá að spila fyrir uppeldisfélagið í efstu deild, þannig að ég er bara fullur tilhlökkunar fyrir því. En það er verk að vinna. Við þurfum að gefa í, það þurfa allir að leggjast á eitt og vinna vel í vetur, taka réttar ákvarðanir og reyna að gera liðið samkeppnishæft fyrir deild þeirra bestu á næsta ári.“

Arnór, sem er 35 ára gamall, var að ljúka sínu fyrsta tímabili í meistaraflokki með ÍA á ferlinum eftir að hafa leikið hér á landi með Val í tvö ár á undan og lengi vel sem atvinnumaður erlendis fyrir það.

Tímabært fyrir ÍA

Spurður hvernig hann sæi fyrir sér að næsta tímabil þróaðist hjá ÍA í Bestu deild sagði Arnór:

„Það er kominn tími til þess að gera ÍA aftur að stöðugu félagi í Bestu deildinni. Það þarf að vinna vel og vinna rétt í þeim efnum. Það þarf að taka réttar ákvarðanir, bæði hvað varðar leikmannakaup og félagið í heild, og fara ekki fram úr sér.

Að sama skapi vita leikmenn að þeir þurfa að leggja enn harðar að sér til þess að mæta klárir til leiks á næsta ári. Það er búið að setja ákveðinn standard hérna í öllu og það þarf að halda honum við og gera enn betur.“

Hann kvaðst bjartsýnn á að ÍA tækist ætlunarverkið.

„Að sjálfsögðu. Núna fögnum við þessum titli í smá tíma og svo hefst undirbúningur fljótlega fyrir vegferðina í Bestu deildinni,“ sagði Arnór að lokum í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson