Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Við höfum ekki neina vitneskju um þetta aðra en þá sem við lesum um í blöðum, því miður. Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar úr matvælaráðuneytinu aðrar en þær að þetta sé ákveðið á þeim grundvelli að ESA hafi sett ofan í við ráðuneytið yfir því að reglugerðin hafi verið sett,“ segir Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtakanna í samtali við Morgunblaðið.
Gunnar vísar hér til þess að matvælaráðherra hefur tilkynnt um þá fyrirætlan sína að afnema reglugerð frá 2022 um blóðmerahald, en fella þá starfsemi þess í stað undir reglugerð um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni. Með þeirri reglugerð er innleidd tilskipun sem felld var inn í EES-samninginn árið 2014. Á heimasíðu matvælaráðuneytisins kemur fram að þetta eigi að gera í kjölfar samskipta á milli ráðuneytisins og Eftirlitsstofnunar EFTA, þ.e. ESA, en í formlegu áminningarbréfi ESA frá 10. maí sl. komi fram að Ísland hafi brotið gegn ákvæðum tilskipunarinnar sem og EES-samningsins með setningu sérreglna um málefnið.
Kemur og fram að téðar reglur um blóðtöku úr fylfullum hryssum verði felldar úr gildi 1. nóvember nk. Að óbreyttu hefði reglugerðin gilt til 6. október 2025. Gunnar segir að Bændasamtökin hafi óskað eftir upplýsingum frá ráðuneytinu um það hvernig fyrirkomulagið eigi að vera eftir áformaða breytingu 1. nóvember, en engin viðbrögð hafi fengist við þeim óskum.
Útflutningstekjur af blóði teknu úr fylfullum merum eru um 2 milljarðar á ári að sögn Gunnars, en 90 bændur hafa hagsmuna að gæta af þessari starfsemi.
„Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar um hvað þetta þýðir fyrir starfsemina aðrar en þær sem ráðherrann hefur sagt, að þetta hafi litlar breytingar í för með sér gagnvart blóðmerahaldi, en ég veit ekki hvað það þýðir. Við getum ekki skilið þetta öðruvísi en svo að þetta falli þá undir reglugerð um tilraunadýr og í íslensku regluverki sem gilda um þau eru tilraunadýr engin önnur en mýs og hamstrar, þannig að ég veit ekki hvernig þeir ætla að koma merunum þar fyrir,“ segir Gunnar.
„Ég er verulega hugsi yfir því hvað hefur breyst gagnvart ESA, þar sem þessi starfsemi hefur verið stunduð í meira en fjörutíu ár á Íslandi. Við fáum engar upplýsingar úr ráðuneytinu um það hvernig reglugerðin sem á að taka við á að hljóma. Það er bara vitnað í ESA og að það hafi einhverjar skoðanir á íslensku regluverki. Gott og vel, en hvað varð um sjálfstæði íslensku þjóðarinnar sem hefur stundað þennan búskap í meira en fjörutíu ár?“ spyr Gunnar.
„Mér finnst það ekki mjög skynsamlegt. Ef menn fella eitthvað úr gildi þá hljóta menn að vera búnir að teikna upp hvað eigi að taka við. Við erum að kalla eftir því hvað gerist næst, en samráðið við okkur er núll,“ segir Gunnar.
„Ef menn ætla að breyta regluverki af því að tilskipun berst frá ESA, er þá ekki lágmarkið að birta það í samráðsgátt?“ spyr Gunnar Þorgeirsson.