Kolefnissporið Nýju umbúðirnar geta brotnað niður með lífrænum úrgangi, sem var útgangspunktur fyrirtækisins til að minnka kolefnissporið.
Kolefnissporið Nýju umbúðirnar geta brotnað niður með lífrænum úrgangi, sem var útgangspunktur fyrirtækisins til að minnka kolefnissporið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Það eru nokkur ár síðan við fórum að skoða möguleika á því að breyta umbúðunum hjá okkur með það að leiðarljósi að hafa þær umhverfisvænni og við höfðum þá samband við Sorpu og vorum með þá í ráðum um hvaða möguleika við hefðum,“ segir Guðmundur Halldórsson, framkvæmdastjóri hjá Te & kaffi. Það kom þó í ljós fyrir stuttu að þær upplýsingar sem fyrirtækið fékk í breytingaferlinu áttu ekki við lengur en ekkert hafði verið haft samband við fyrirtækið um breytingarnar. Þá var Te & kaffi búið að skipta um umbúðir og kosta miklu til, því nýju umbúðirnar kosta þrefalt á við þær gömlu.

Guðmundur segir að þótt umbúðaskiptin hafi verið stór biti fyrir fyrirtækið hafi samt verið ákveðið að sem hluti af bættri umhverfisstefnu fyrirtækisins væri sá kostnaðarauki réttlætanlegur, ekki síst vegna þess að nýju umbúðirnar væru endurvinnanlegar með lífrænum úrgangi.

Ákvörðun tekin í samráði

„Við vorum, eins og flestir í kringum okkur, að nota svokallaðar samsettar umbúðir úr áli og plastfilmu en vildum halda áfram veginn á okkar sjálfbærnivegferð og stíga stærri skref áfram. Við vildum skoða mismunandi lausnir, en það er ekki hægt í matvælaframleiðslu að hafa hvaða umbúðir sem er, því það þarf alltaf að tryggja full gæði vörunnar. Svo fengum við þær upplýsingar að Sorpa væri að setja á laggirnar gas- og jarðgerðarstöð sem myndi þýða að umbúðir sem væru jarðgeranlegar gætu farið inn í það ferli hjá Sorpu og verða hluti af lífrænum úrgangi. Við fundum fyrirtæki sem gat búið til þannig umbúðir fyrir okkur sem hélt bæði gæðum vörunnar og myndi brotna niður í iðnaðarmoltu og byrjuðum að nota þær í ársbyrjun 2021. Svo biðum við bara spennt eftir því að tunnum undir lífrænan úrgang yrði úthlutað fyrir öll heimili á höfuðborgarsvæðinu.“

Alveg frá því að haft var samband við Sorpu áður en farið var í umbúðaskiptin hjá fyrirtækinu hafa stjórnendur þess staðið í þeirri trú að umbúðirnar myndu fara í lífrænan úrgang bæði hjá heimilum og eins fyrirtækjum, eins og um hafði verið rætt við Sorpu í upphafi breytingaferilsins. „Umbúðirnar áttu að geta farið í þetta jarðgeranlega ferli og þar yrði búið til úr því metan og molta. Þetta var með fullum stuðningi Sorpu alla leið og okkur hafði verið sagt að þetta yrði niðurstaðan, enda umbúðirnar með vottanir þess eðlis.“

Brostnar forsendur

Svo þegar lífrænu tunnurnar eru komnar við hvert heimili núna í haust kemur í ljós að forsendur umbúðabreytinga fyrirtækisins eru brostnar. „Á umbúðunum stendur að hægt sé að setja þær í lífrænt sorp, eins og rætt hafði verið um og vottanir segja til um. Þegar viðskiptavinur hefur svo samband við Sorpu til að staðfesta að það sé rétt fær hann þau svör að það megi ekki setja umbúðirnar í lífræna sorpið, sem eru allt önnur svör en við höfum fengið á síðustu árum.“

Guðmundur segir þessar fréttir hafa verið áfall og að haft hafi verið samband við Sorpu til að spyrja hvað sé í gangi, bæði varðandi þessa stefnubreytingu og einnig af hverju enginn hafi haft samband við fyrirtækið til þess að greina frá þessari stefnubreytingu. Svarið sem fékkst var á þá leið að ákveðið hefði verið að hafa eingöngu matarleifar til að moltan sem yrði unnin væri ennþá hreinni en svokölluð iðnaðarmolta, sem rætt var um í upphafi.

„Það voru gerðar tilraunir í upphafi hjá Sorpu sem sýndu fram á niðurbrot umbúðanna í iðnaðarmoltu, en þeir hafi ekki tíma til þess að vinna úr þeim og þurfi því að taka út ýmislegt sem áður var leyft,“ segir Guðmundur og ítrekar að nýju umbúðirnar séu eftir sem áður umhverfisvænar og brotni niður við urðun.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir