Árni Þorkelsson fæddist 20. september 1945. Hann lést 15. apríl 2023. Útför
Útför Árna fór fram 22. apríl 2023.
Elsku hjartans pabbi minn.
Ég ákvað að pára niður nokkrar línur í tilefni afmælis þíns. Mér finnst eins og orðin sem ég skrifa þurfi að ná yfir gjöfina sem þú gafst mér, þau munu þó með engu móti gera það. Því þú gafst mér lífið, og stærri verða gjafirnar ekki.
„Þú getur ekki neitað fyrir að eiga þessa stúlku” var setning sem við fengum svo gjarnan að heyra þegar við vorum á einhverju flandri saman, því það voru jú ákveðin líkindi okkar á milli. En það var ekki einungis útlitið sem við áttum sameiginlegt því við elskuðum líka bæði sólina og gátum vel hugsað okkur að búa sunnan við miðbaug. Þrátt fyrir vinskap ykkar á milli varstu ekki endilega alltaf sólarmegin í lífinu. Skuggarnir áttu eftir að elta þig á röndum og fylgja þér við hvert fótmál.
Því miður er staðreyndin sú að við festumst gjarnan í hugsunum um hvað við fórum á mis við í uppvextinum, og líkaminn sér til þess að neikvæðar minningar stija frekar eftir en þær sem eru gleðilegar. En það er aldrei of seint að eiga góða æsku. Ef við beinum hugsunum okkar að því sem jákvætt er minnkar vægi þess neikvæða. Ég kýs að gefa kærleikanum gaum og muna gleðina sem fólst í samverunni við þig. Gleðina sem fylgdi ísnum sem þú keyptir, skelinni sem þú tíndir í fjörunni og myndinni sem þú saumaðir út fyrir mig, sem prýðir nú heimili mitt.
Dagar koma og fara, áfram líður tíminn og allt í einu er stundin komin. Stundin sem við óhjákvæmilega þurfum að horfast í augu við á lífsleiðinni. Er ég rýni í baksýnisspegilinn er mér þakklæti ofarlega í huga, fyrir allt það sem þú gafst mér og allt það sem þú kenndir mér, fyrir allan þann þroska sem ég tók út fyrir þína tilvist. Ég uni sátt við og varðveiti þig í hjartanu.
Skál fyrir þér, gamli minn.
Megi Elvis syngja fyrir þig og Monroe kyssa þig á kinn.
Guðbjörg Árnadóttir.