Bryndís Stefánsdóttir fæddist á Grenivík 15. október 1933. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sólvangi, Hafnarfirði, 11. september 2023.

Foreldrar hennar voru Stefán Stefánsson, f. 18. desember 1901, d. 24. mars 1993, og Ingibjörg Kristín Jónsdóttir, f. 17. maí 1901, d. 11. september 1984. Systkini hennar voru: Jón Stefán, f. 14. október 1927, d. 15. maí 2004; Anna Lísa, f. 2. nóvember 1931; Sigurbjörg f. 11. nóvember 1935; Inga Stína, f. 30. júní 1937; Gunnar, f. 18. desember 1938.

Eiginmaður hennar var Knútur Bjarnason, f. 9. mars 1930, d. 1. janúar 2020. Börn þeirra eru: 1) Stefanía dómritari, f. 1959. Eiginmaður Ólafur Helgi Árnason vélstjóri, f. 1958. Börn þeirra eru Brynjar, f. 1982, Ingibjörg. f. 1989, eiginmaður hennar er Ólafur Böðvar Ágústsson, f. 1984, og eiga þau Daníel Myrkva og Matthías Werner. Jón Bjarni, f. 1995, eiginkona hans er Jóhanna Vigdís Ragnhildardóttir, f. 1996, og þeirra barn er Ragnhildur J., f. 20. maí 2022. 2) Knútur verktaki, f. 1961, kvæntist Sigríði Marteinsdóttur, f. 1957, d. 19. nóvember 2022, þau skildu, sonur Sindri Fannar, í sambúð með Elenu Orlovu, f. 1964, og hennar sonur Georg Orlov, f. 2001. 3) Bjarni, f. 1977, hans kona er Pálmey Magnúsdóttir, f. 1981, og þeirra synir eru Bergur Fáfnir og Nökkvi Fenrir.

Bryndís ólst upp á Grenivík og gekk þar í barnaskóla og með fram því var gengið í öll hefðbundin störf sem tilheyra búskap og útgerð. Bryndís var einn vetur í húsmæðraskóla í Reykjavík. Bryndís og Knútur hófu búskap í Sólbergi á Grenivík og bjuggu þar fyrstu árin. Þau fluttu suður til Reykjavíkur kringum 1962 og bjuggu fyrst í Akurgerði 6 en fluttu fljótlega vestur í bæ á Meistaravelli 15 þar sem þau bjuggu í hálfa öld. Síðustu árin bjuggu þau á Kirkjuvöllum í Hafnarfirði. Bryndís starfaði lengi á Grund og síðan hjá leikskólum borgarinnar.

Hún hafði mikinn áhuga á hannyrðum og prjónaskap og voru ófáar lopapeysurnar sem fóru til Hildu hf. Einnig garðrækt og gróðri, sérstaklega eftir að Knútur hætti trilluútgerð sinni og þau eignuðust landskika fyrir austan fjall og var það hugðarefnið síðustu ár á meðan heilsa leyfði. Síðustu mánuði dvaldi hún á Sólvangi í Hafnarfirði.

Útför Bryndísar fer fram í Hafnarfjarðarkirkju í dag, 20. september 2023, og hefst athöfnin klukkan 13.

Þegar maður er barn þá er svo margt sem manni finnst sjálfsagt eða skilur ekki. Ég hélt að allar ömmur væru eins og amma mín og var nánast orðin fullorðin þegar ég áttaði mig á því að það væri ekki sjálfsagt að eiga yndislega ömmu. Við amma bökuðum kleinur saman og ég var alltaf velkomin á fallega heimilið hennar. Hún leyfði mér að vera alveg nákvæmlega eins og ég er og ég þurfti ekki að þykjast neitt með henni. Upp á síðkastið hefur mér fundist ég vilja líkjast minni eigin móður meira og hef verið að velta fyrir mér þessari tengingu á milli kynslóðanna. Þrjár konur, allar smá beyglaðar eftir lífið en allar sterkar á sinn hátt. Bæði mamma og amma hafa þessa stóísku ró yfir sér, það þarf ansi mikið til þess að koma þeim úr jafnvægi. Það var alltaf rólegt og notalegt heima hjá ömmu og það var hver hlutur á sínum stað, eitthvað sem mér fannst ekkert merkilegt en tek nú til fyrirmyndar og reyni að fara að þeirra fordæmi. Að vera svona skipulagðar og hafa yfirsýn yfir allt á heimilinu. Alltaf eitthvað til í skápnum og lítið mál að henda í köku með kaffinu. Hún hleypti manni nú samt ekkert of nálægt sér og það var oft sem ég spurði að einhverju að það var svarað í hálfkæringi eða skipt um umræðuefni. Mögulega skýrist það bara af þessum kynslóðamun á milli okkar, en ég finn það sjálf að ég sveiflast þarna á milli; að vilja vera töffari út á við og kveinka mér ekki og takast á við lífið án þess að sletta mínum vandamálum upp á aðra og svo á hinn bóginn að þurfa að fá að tjá mig, velta upp spurningum og kafa dýpra í hlutina. Ég held að það hafi búið meira í ömmu en hún lét uppi. Lengi vel hélt ég að hún væri að fara að deyja því hún réttlætti alltaf dýrar afmælis- og jólagjafir með því að segja að hún yrði kannski ekki hérna á næsta ári. Það er í sjálfu sér ágætis gildi að njóta lífsins í dag því það er ekki víst að við verðum hérna á morgun, en eitthvað segir mér að ýmislegt hafi legið á henni sem hún talaði ekki um. Ef eitthvað er hefði ég viljað fá að skyggnast betur inn í hugarheim hennar og fengið meira tækifæri til þess að vera til staðar fyrir hana. Mér finnst það sama með mömmu og ég finn að ég geri þetta sjálf gagnvart mínum eigin börnum, maður hlífir þeim. Mömmur eiga að vera sterkar, a.m.k. í þessari fjölskyldu. Ég var svo farin að bíða eftir því að amma fengi hvíldina núna á síðustu vikum. Ég var farin að forðast að heimsækja hana því ég vissi ekki hvort hún væri í þessum heimi eða einhverjum öðrum. Eftir á að hyggja finnst mér það vera ákveðinn heigulsháttur, kannski var það akkúrat þarna þar sem hún þurfti mest á mér að halda. Ef og hefði, það er nú svo. En minning hennar lifir áfram. Ekki aðeins í huga mínum heldur líka þegar ég baka uppskriftirnar hennar, þegar ég hlúi að heimili mínu eða þarf að losa um eitthvað sem liggur á hjarta. Kannski næ ég að losa um hnútinn sem batt þögnina hennar ömmu.

Ingibjörg Ólafsdóttir.