Reginn gerði yfirtökutilboð í Eik um miðjan júní. Reitir og Eik hófu samrunaviðræður 30. júní.
Reginn gerði yfirtökutilboð í Eik um miðjan júní. Reitir og Eik hófu samrunaviðræður 30. júní. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Á hluthafafundi okkar á föstudaginn gáfu hluthafar stjórn félagsins umboð til að halda áfram samningum við Reiti til að búa til þann möguleika fyrir hluthafa að þeir hefðu að lokum val á milli þriggja leiða; að taka yfirtökutilboði Regins, að …

„Á hluthafafundi okkar á föstudaginn gáfu hluthafar stjórn félagsins umboð til að halda áfram samningum við Reiti til að búa til þann möguleika fyrir hluthafa að þeir hefðu að lokum val á milli þriggja leiða; að taka yfirtökutilboði Regins, að sameinast Reitum eða að Eik héldi áfram að starfa eitt og sér,“ segir Bjarni K. Þorvarðarson, stjórnarformaður fasteignafélagsins Eikar, í samtali við ViðskiptaMoggann spurður um stöðu mála og framtíð fyrirtækisins.

Eins og mbl.is greindi frá í síðustu viku breytti Reginn valfrjálsu yfirtökutilboði sínu í allt hlutafé Eikar þannig að tilboðsverð fyrir hvern hlut í Eik var hækkað úr 0,452 hlutum í Regin í 0,489 hluti í félaginu. Það þýðir að taki allir hluthafar Eikar hinu breytta tilboði munu þeir fá í endurgjald að hámarki 48% útgefins hlutafjár í Regin í kjölfar viðskipta. Stjórn Eikar lagði fyrir hluthafa að hafna yfirtökutilboði Regins á hluthafafundi á föstudaginn. Að mati stjórnar er hlutfall hluthafa Eikar í Regin samkvæmt tilboðinu ósanngjarnt.

Bjarni segir að uppfært yfirtökutilboð Regins liggi nú fyrir og stjórn Eikar þurfi nú að vinna að því að skilmálar og kjör í mögulegum samruna við Reiti liggi sömuleiðis skýrt fyrir.

„Hluthafar Eikar gáfu okkur klárt umboð til að vinna þessa vinnu. Yfir 83% hluthafa samþykktu þá leið. Það gæti ekki verið mikið skýrara.“

Frestur sem Reginn gaf hluthöfum Eikar til að taka tilboði sínu rennur út 16. október nk.

„Það má ætla að Reginn óski eftir frekari fresti ef Samkeppniseftirlitið verður ekki búið að úrskurða í málinu fyrir þann tíma,“ segir Bjarni.

Spurður að því hvort staða Eikar sé ekki góð, að vera með tvo aðila sem vilja sameinast félaginu, segir Bjarni að stjórnin sinni einfaldlega þeirri skyldu sinni að hámarka virði félagsins í gegnum ferlið.

Um tímamörk segir Bjarni að viðræður taki bara þann tíma sem þær taki. „Það er tvennt sem skiptir mestu máli núna þegar kemur að næstu skrefum í samrunaferli með Reitum. Að félögin, Eik og Reitir, reikni sig niður á skiptahlutföll og haldi áfram viðræðum við Samkeppniseftirlitið sem verið hafa í gangi. Það er það sem við í stjórninni notum tíma okkar í núna.“

Bjarni segir að raunhæft sé að ætla að Eik og Reitir verði komin töluvert lengra í sínum viðræðum fyrir 16. október þegar frestur Regins rennur út. „Við erum meðvituð um þá dagsetningu.“