Friðrik Ragnar Hansen fæddist í Reykjavík 3. apríl 2021. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar 5. september 2023 á Barnaspítala Hringsins.

Foreldrar hans eru Ragnar Hansen, f. 15. mars 1989, og Karen Björg Ingólfsdóttir, f. 24. janúar 1986. Systkini Friðriks eru Natan Elís, f. 6. september 2007, og Sara Dögg Hansen, f. 12. september 2013.

Útför Friðriks fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 20. september 2023, klukkan 13.

Hinn 3. apríl 2021 kom í heiminn áttunda barnabarnið okkar, lítill og svo dásamlega fagur og fullkominn drengur. Til allrar óhamingju veiktist elsku Friðrik Ragnar lífshættulega fljótlega eftir fæðingu sem hafði því miður miklar og alvarlegar afleiðingar. Hann háði erfiða lífsbaráttu allt þar til hann fékk hvíldina í faðmi stórfjölskyldunnar á Barnaspítalanum hinn 5. september síðastliðinn.

Þrátt fyrir sína stuttu ævi gaf hann okkur margt og sýndi fljótlega sterkan persónuleika. Hann elskaði að hlusta á tónlist og brosti út að eyrum og tónaði með þegar við hlustuðum á hin ýmsu lög, mest hlustuðum við saman á Pílu pínu.

Minningin um litla strákinn okkar með fallega kastaníubrúna lubbann sinn mun lifa með okkur um alla tíð.

Ástarkveðja,

amma Kata og afi Frikki.

Mér er svo minnisstætt þegar Friðrik kom í fyrsta skipti inn í fjölskylduna mína í lok maí 2022, þá rétt rúmlega eins árs. Hann var svo skemmtileg viðbót og alltaf tilhlökkun hjá okkur öllum þegar von var á honum því hann bræddi hjörtu okkar allra og varð strax partur af fjölskyldu minni.

Þó svo yngri börnin mín tvö, Agnes og Andri, væru ekki há í loftinu, Andri hálfu ári eldri en Friðrik og Agnes tveimur og hálfu, vildu þau alltaf vera svo góð við hann. Andri dældi í hann leikföngum og mátti ég oft passa upp á að hann kaffærði hann ekki í dóti, en Agnes mín vildi fá að hjálpa mér í öllu sem tengdist honum eins og að skipta á honum, klæða, greiða og gefa að borða. Endirinn varð sá að ég varð að setja hnapp og slöngu í dúkkuna hennar alveg eins og Friðrik var með svo við gætum verið saman að sinna börnunum okkar. Eldri strákarnir mínir tveir, Bjarki 12 ára og Matti 15 ára, elskuðu að fá að knúsa hann, enda gaf hann bestu knúsin á móti.

Bestu stundirnar okkur voru þegar allt var komið í frið og ró heima og við Friðrik gátum sest saman í sófann á kvöldin og kúrt yfir góðri mynd eða tónlist.

Annars gat hann verið alveg óttalegur pjakkur stundum, því hann átti það til að vera svo þreyttur þegar hann kom heim eftir leikskólann að hann varla gat haldið augunum opnum, en þegar allir voru komnir undir sæng og ljósin slökkt þá byrjaði partí hjá honum. Hann átti það nefnilega til að rífa sig upp og blaðra þessi líka lifandis býsn langt fram á nótt og skildi svo ekkert í því af hverju aðrir voru ekki til í að spjalla og syngja með honum.

Við eigum margar skemmtilegar minningar með honum þar sem við vorum dugleg að gera skemmtilega hluti saman þar sem hann var alltaf partur af fjölskyldunni og með í því sem við vorum að gera. Við eigum margar skemmtilegar minningar úr Húsdýragarðinum, úti á róló, í sundi (sem voru hans uppáhaldsstundir), úr heimsóknum til vina og ættingja eða úr afmælum innan fjölskyldunnar svo ég tali ekki um í heimsóknum til ömmu Svövu þar sem hann fékk alltaf stórt knús áður en amma greip í gítarinn og hélt partí fyrir smáfólkið sitt, eða Friðrik glamraði á píanóið og allir sungu með.

Friðrik skilur eftir mikið tómarúm innan fjölskyldunnar minnar sem erfitt verður að fylla, en um leið erum við svo óendanlega þakklát fyrir allar minningarnar sem hann skilur eftir og að hafa fengið þessa stóru gjöf að fá tækifæri til að taka þátt í lífi hans.

Um leið og við þökkum fyrir allt sem hann hefur gefið okkur biðjum við góðan Guð að geyma elsku Friðrik Ragnar okkar.

Ragnhildur og fjölskylda.

Ég kynntist Friðriki fyrst þegar Ragnhildur dóttir mín gerðist liðveislan hans í lok maí 2022. Hún var búin að segja mér frá því að von væri á litlum sólargeisla sem ætlaði að koma nokkra daga í mánuði til hennar. Ég gleymi aldrei þegar ég hitti hann fyrst. Það gerðist eitthvað innra með mér sem ég get ekki lýst með orðum. Hann kúrði sig upp að mér og fangaði algerlega hjarta mitt.

Í september 2022 var ég svo heppin að hann fékk pláss á Lyngási þar sem ég starfa og fékk ég þá tækifæri til þess að verja deginum með honum í leik og starfi, ásamt því að hitta hann einstaka kvöld og helgar þegar hann var hjá Ragnhildi og taka þátt í því sem þau voru að bralla saman. Ég var ekki búin að þekkja hann lengi þegar mamma hans spurði mig hvort þau mættu ekki kalla mig ömmu Svövu. Þetta er ein fallegasta bón sem ég gat fengið og naut ég þess að mega nota ömmunafnbótina þegar ég var að tala við hann.

Hann var svo falleg og dýrmæt viðbót við ömmuhópinn minn. Meðal okkar bestu stunda var þegar við Friðrik vorum að spila og syngja saman, hvort sem það var á leikskólanum eða utan hans. Hann kom oft með Ragnhildi heim til mín og eins kom hann stundum einn og gisti þá jafnvel. Þá var tekinn fram gítarinn og sungið og var alveg ótrúlegt að fylgjast með þessum litla snáða reyna að tóna með. Einnig hafði hann mjög gaman af því að sitja í fangi mínu á meðan ég var að spila á píanóið og hjálpa mér að slá á nóturnar. Tónlistin var okkar tungumál.

Friðrik var mikill karakter og gat alveg látið mann vita ef honum mislíkaði eitthvað eða gat verið ofsa kátur, bablað heil ósköp og brosað allan hringinn þegar sá gállinn var á honum, sem reyndar var oftast þegar honum leið vel. En suma daga var hann mjög þreyttur og vildi helst fá að sofa. Veit ég að það var oft þegar hann hafði misskilið eitthvað hlutverk sitt og haldið að sér hefði verið falið skemmtistjórahlutverkið nóttina áður þegar allir væru lagstir á koddann. Brosti ég þá oft út í annað þegar dauðþreyttir foreldrar mættu með hann þar sem hann geispaði um leið og þau voru farin og gaf til kynna að hann vildi fá að leggja sig. „Það getur nú verið mikil vinna að halda næturpartí fyrir þá sem ekki nenna að taka þátt í því.“

Það var svo gaman að fylgjast með hve miklum þroska og framförum hann tók á þessu ári sem hann var á Lyngási. Þar fékk hann tækifæri til þess að æfa sig og þjálfa í gegnum leik á hverjum degi og var alveg greinilegt að hann naut þess. Þegar ég skoða myndir sem teknar voru af honum í leik og starfi frá þessu ári er undantekning ef hann er ekki brosandi. Hann var svo mikill vinur og gleðigjafi sem endalaust gaf af sér.

Elsku hjartans Friðrik minn.

Takk fyrir tímann sem við áttum saman og takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér. Þú munt alltaf eiga stórt pláss í hjarta mínu.

Þín amma,

Svava.