Sylvía Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar hjá Icelandair segir að horfurnar í flugrekstri séu góðar.
Sylvía Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar hjá Icelandair segir að horfurnar í flugrekstri séu góðar. — Morgunblaðið/Eyþór
  Hér kemur punktur

Sylvía Kristín Ólafsdóttir er að taka við sem framkvæmdastjóri rekstrar hjá Icelandair. Hún hefur komið víða við í atvinnulífinu bæði hér á landi og utan landsteinanna en segir í samtali við ViðskiptaMoggann að fluggeirinn hafi ávallt heillað hana. Blaðamaður ViðskiptaMoggans hitti hana á skrifstofu Icelandair við Nauthólsveg og ræddi við hana um ferilinn, áherslur hennar í starfi framkvæmdastjóra rekstrar, áskoranirnar í rekstrinum og tækifærin í fluggeiranum.

Sylvía starfaði áður hjá Icelandair, fyrst sem forstöðumaður á rekstrarsviði og síðar forstöðumaður leiðakerfis Icelandair. Hún söðlaði síðan um nokkru síðar og fór til Origo en sneri loks aftur til Icelandair. Spurð hvers vegna hún hafi tekið þá ákvörðun að snúa aftur til Icelandair segir Sylvía að hún hafi einfaldlega upplifað að verkefnum hennar hjá Icelandair væri ekki lokið.

„Tíminn hjá Origo var frábær og ég lærði ótrúlega margt á skömmum tíma en þegar tækifæri bauðst til að snúa aftur til Icelandair gat ég ekki hafnað því. Fluggeirinn hefur alltaf heillað.“

Sylvía lærði verkfræði við Háskóla Íslands. Að grunnnámi loknu flutti hún til Bretlands ásamt eiginmanni sínum til að nema aðgerðagreiningu við London School of Economics.

„Ég hafði gaman af öllu því sem tengdist bestun og námið reyndist afar góður grunnur fyrir margar þær áskoranir sem ég síðar átti eftir að mæta í atvinnulífinu. Ég kenndi líka í verkfræðideildinni, rekstrarfræði og aðrar greinar.“

Eftir námið við LSE sneri Sylvía aftur heim og hóf störf hjá Seðlabankanum árið 2007, rétt fyrir efnahagshrunið.

„Í því starfi gat ég nýtt aðferðafræðina sem ég lærði í skólanum. Þegar ég starfaði hjá Seðlabankanum sótti ég einnig námskeið hjá The Bank of England þar sem ég lærði ýmislegt sem tengdist krísustjórnun, að gera sviðsmyndagreiningar og hagnýta margt sem ég lærði í náminu. Það hefur nýst mér vel í fleiri störfum.“

Eftir tímann hjá Seðlabankanum hóf Sylvía störf í höfuðstöðvum Amazon í Lúxemborg og segir að það hafi verið mikill skóli. Spurð hvort vinnustaðamenningin í stórfyrirtækjum erlendis annars vegar og íslenskum fyrirtækjum hins vegar sé ólík segir Sylvía svo vera.

„Helsti munurinn liggur í því að störfin í erlendum stórfyrirtækjum eru oft sérhæfðari miðað við hvað tíðkast í fyrirtækjum á Íslandi. Hérlendis er fólki treyst fyrir meiri ábyrgð og meiri breidd í starfi og það er með fleiri tegundir af verkefnum á sinni könnu. Þar að auki tók ég eftir að fólk hjá Amazon var oft óhræddara við að segja sína skoðun heldur en fólk í íslenskum fyrirtækjum. Það er mikilvægt að opin skoðanaskipti eigi sér stað innan fyrirtækja því það gerir það að verkum að betri ákvarðanir eru teknar.“

Sylvía bætir við að sér þyki fyrirtækjamenningin, þar sem hún þekkir til, á Íslandi afar gefandi og góð.

„Íslendingar eru lausnamiðaðir og við erum ávallt reiðubúin að prófa nýja hluti og nýjar vinnuaðferðir. Vinnustaðamenningin hér heima er að einhverju leyti ólík því sem er erlendis en alls ekki verri á neinn hátt.“

Tíminn hjá Origo lærdómsríkur

Sylvía réð sig til Origo árið 2021 þar sem hún stýrði viðskiptaþróun og markaðsmálum ásamt því að taka þátt í stefnumótun félagsins. Hún segir að hún hafi komið inn í fyrirtækið á virkilega spennandi tímapunkti.

„Það var stutt síðan forstjóraskipti áttu sér stað og mikil stefnumótunarvinna var í gangi sem ég tók þátt í. Origo er líka mjög fjölbreytt fyrirtæki með gríðarlega reynslu á sviði upplýsingatækni og hugbúnaðarþróunar. Fyrirtækið stendur einnig vel að vígi í nýsköpun og margir spennandi hlutir eru að gerast hjá fyrirtækinu í þeim efnum. Samanber söluna á Tempo og mikinn vöxt hjá Syndis. Félagið er meðal annars í heilbrigðisgeiranum, orkugeiranum og ferðaþjónustu þannig að það er óhætt að segja að þetta sé spennandi félag.“

Sylvía hefur ekki einungis starfað hjá stórfyrirtækjum í framkvæmdastjórn heldur hefur hún einnig gegnt stjórnarsetu í Ölgerðinni og Símanum og starfaði einnig um tíma hjá Landsvirkjun.

„Það að sitja í stjórnum og að starfa hjá Landsvirkjun kenndi mér ótrúlega margt. Þó að fluggeirinn og orkugeirinn séu mjög ólíkir geirar þá þarf að huga að viðhaldsáætlunum, öryggismenningu og gæðaeftirliti. Hjá Landsvirkjun öðlaðist ég þekkingu á rekstri viðhalds sem á vonandi eftir að gagnast mér í nýju starfi.“

Spurð hvaða áskoranir hafi verið stærstar á ferlinum segir Sylvía að þær hafi verið margar og hún hafi verið heppin á ferlinum að fá stór verkefni til að glíma við.

„Stærsta áskorunin er tvímælalaust að takast á við sjálfan sig og finna hvar styrkleikarnir liggja og hverjar takmarkanirnar eru. Það var líka mikil áskorun að vinna í Seðlabankanum í fjármálakrísunni og að vinna að markmiðasetningu fyrir Amazon og Kindle. Það sem skilar manni árangri er að læra á sjálfan sig.“

Sylvía segir að áherslur hennar í nýju starfi séu að mikilvægt sé í flugrekstri eins og öðrum rekstri að fylgjast vel með nýjungum, svara óskum viðskiptavina og nýta þau mörgu tækifæri sem þau sjái í framtíðinni. En hún taki við góðu búi sem auðvelt sé að byggja á.

„Það verður að hafa í huga að það eru svo ótrúlega margir mismunandi aðilar sem koma að því að halda flugfélagi gangandi. Til þess að halda leiðakerfinu gangandi þarf að snúa flugvélum á mjög stuttum tíma. Þá þurfa allir að vinna þétt saman, fólkið sem hleður og þrífur vélarnar, flugmenn, flugfreyjur og -þjónar, flugvirkjar, þau sem sinna þjónustu við farþega á flugvellinum, flugumsjón og töluvert fleiru. Það er svo mikilvægt að hlusta og fá hugmyndir frá fólkinu. Stofna til skoðanaskipta til að taka sem bestar ákvarðanir og nýta reynsluna. Icelandair er vinsæll vinnustaður og við leggjum áherslu á að skapa gott umhverfi.“

- Svo við snúum okkur að rekstrinum. Hvernig gekk sumarið hjá Icelandair?

„Það gekk ótrúlega vel og við erum að sjá svipaðar farþegatölur og á árinu 2019, fyrir covid sem sagt. Þannig að við sjáum mikinn árangur sérstaklega á Norður-Ameríkumarkaði þar sem við erum að fljúga um 600 flug á mánuði þegar mest lætur sem er sterkur grunnur til að byggja á. Reksturinn gengur vel og horfurnar eru góðar, við erum t.d. með sterka bókunarstöðu. Horft fram á við erum við á virkilega góðum stað og erum búin að taka margar góðar ákvarðanir sem munu fara með okkur enn lengra,“ segir hún.

Aukin samkeppni í fluggeiranum

Icelandair hefur gengið í gegnum margar áskoranir á undanförnum misserum, eins og covid, kyrrsetning Max-vélanna, stríðið í Úkraínu og hækkandi olíuverð að undanförnu. Sylvía segir að miklar breytingar hafi átt sér stað í fluggeiranum á undanförnum misserum og ýmsar áskoranir fylgi því. „Samkeppnin hefur verið að aukast og það er alltaf háværari krafa frá neytendum um að fá upplýsingar hraðar og á þægilegan hátt. Við höfum verið að vinna í stafrænni þróun, í appi, bókunarvél og á vefnum ásamt því að bæta upplýsingagjöf til viðskiptavina sem hefur leitt af sér styttri biðtíma í þjónustuveri. Það hefur einnig orðið hröð tækniþróun í geiranum. En fluggeirinn er í stöðugri þróun og er síbreytilegur. Nú þegar höfum við innleitt nýjar gerðir af flugvélum sem hafa hreyfla og tækni sem dregur verulega úr notkun flugvélaeldsneytis.“

Spurð hvernig Icelandair bregðist við aukinni samkeppni bæði innlendri og erlendri segir Sylvía að samkeppnin sé það sem geri geirann svo skemmtilegan.

„Icelandair er alltaf í samkeppni og hefur verið það í 86 ár. Það eru 30 flugfélög sem fljúga til Keflavíkur en ég tel að samkeppnin sé góð fyrir okkur og haldi okkur á tánum. Fólk kann að meta góða þjónustu og þá vöru sem við bjóðum og það skiptir máli fyrir viðskiptavininn að hann viti hvað hann er að velja þegar hann velur Icelandair. Síðan eru ýmis spennandi verkefni sem tengjast sjálfbærnimarkmiðum og auðvitað það að við erum að fara að innleiða Airbus-vélar í okkar rekstur.“

Sylvía nefnir hækkandi olíuverð á undanförnum misserum sem áskorun. „Þróun olíuverðs skiptir flugfélög gríðarlegu máli og er stór liður í okkar rekstri. Við verjum okkur upp að ákveðnu marki gagnvart olíuverði tólf mánuði fram í tímann og markmið okkar með því er að auka stöðugleika. Við viljum minnka sveiflur og hafa eins mikinn fyrirsjáanleika og hægt er.“

Hún segir jafnframt að Icelandair hafi gripið til ýmissa aðgerða til að bregðast við breytingum í fluggeiranum.

„Við erum að taka þátt í tækniþróun á ýmsum sviðum. Þá erum við þátttakendur í alþjóðlegum verkefnum sem tengjast þróun nýrrar tækni í flugi en tvö þeirra snúa að þróun vetnis- og rafmagnsknúinna flugvéla fyrir innanlandsflug. Það eru mikil tækifæri fyrir Ísland þegar kemur að þessari þróun. Við erum í mikilli sérstöðu hvað varðar græna orku og flugleiðir innanlands eru jafnframt stuttar. Orkuskiptin skipta okkur gífurlegu máli og við hjá Icelandair höfum lagt mikla áherslu á þau mál á undanförnum misserum.

Stærsta einstaka verkefnið sem flugfélög geta ráðist í í dag til að draga úr losun er endurnýjun flugflota og við höfum fjárfest fyrir yfir 100 milljarða króna síðan 2018 í nýjum sparneytnari vélum sem jafnframt menga minna. Hins vegar er það sjálfbært flugvélaeldsneyti sem verður lykillinn að því á næstu árum að flugiðnaðurinn nái settum markmiðum um kolefnishlutleysi. Til þess að það takist þarf að stórauka framboð á slíku eldsneyti og í því verkefni er mikilvægt að allir leggist á eitt – stjórnvöld og aðrir hagaðilar.“

- Áskoranirnar eru margar en hvar liggja tækifærin?

„Tækifærin eru ótrúlega mörg og með nýjum vélum sem geta farið lengra koma ný tækifæri. En í náinni framtíð hefjum við flug frá Akureyri beint til Keflavíkur og er það liður í að tengja saman innanlandsflugið og alþjóðaflugið. Við sjáum líka mikil tækifæri á norðurslóðum og í Grænlandsfluginu.“

Mikilvægt að huga að samkeppnishæfninni

Sylvía bætir við að innleiðing Airbus-vélanna sé þegar hafin og stefnt sé að því að þær komi inn í reksturinn fyrir sumarvertíðina 2025.

„Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem við erum að innleiða nýjar vélar í okkar rekstur. Við erum að byggja á þeirri reynslu sem við öðluðumst þegar við innleiddum Max-vélarnar á sínum tíma. Það er þó mismunandi hugsun á bak við Airbus og Boeing þannig að við munum taka mið af því og vanda vel til verka í innleiðingunni.“

Sylvía segir að það sé mikilvægt fyrir stjórnvöld að búa til hvata og skapa umhverfi fyrir samkeppnishæfan flugrekstur.

„Við störfum á alþjóðlegum markaði og erum að skila inn verulegum tekjum í þjóðarbúið. Stjórnvöld eiga ekki að setja sértæka íslenska skatta og gjöld á flugfélög í alþjóðlegum rekstri því það er þjóðhagslega mikilvægt að hafa öflugar tengingar. Landfræðileg staða Íslands gerir okkur kleift að fljúga til yfir 50 áfangastaða og sumra þeirra nokkrum sinnum á dag, það eru fá önnur lönd með 400.000 manns sem gera það. Stjórnvöld og fluggeirinn ættu að stilla sig saman og setja markmið fyrir Ísland, þá einkum í sjálfbærnimálum. Þar skiptir samtalið máli. Ísland er flugþjóð og þetta er stór útflutningsgrein hjá Íslendingum, því er mikilvægt að huga vel að henni.“

Talið berst að íslensku vinnulöggjöfinni og þeim áskorunum sem fylgja því að vera í alþjóðlegri samkeppni.

„Það skiptir máli að við getum verið samkeppnishæf við erlend flugfélög. Það er ekki bara hagur okkar heldur hagur fólksins sem starfar hjá okkur. Fyrirtækin eru fólkið sem hjá þeim starfar og það er mikilvægt að muna að hagsmunir fyrirtækisins og starfsfólks fara saman. Icelandair er eftirsóttur vinnustaður og við viljum vera það áfram,“ segir Sylvía og bætir við að mikil starfsreynsla og drifkraftur sé til staðar hjá starfsmönnum Icelandair.

„Það eru ábyggilega fá fyrirtæki á Íslandi með jafnháan meðalstarfsaldur og hjá Icelandair. Reynslan sem starfsfólkið býr yfir er mjög mikil. Það sem var eitt af því fyrsta sem ég tók eftir þegar ég hóf störf á rekstrarsviði Icelandair var sú mikla reynsla og þekking sem fólkið okkar býr yfir. Það má líka bæta við að það eru oft heilu fjölskyldurnar sem starfa hjá okkur.“

Alþjóðlegur skortur ekki haft áhrif

Sylvía segir að alþjóðlegur skortur á flugmönnum hafi ekki haft áhrif á Icelandair enn sem komið er. Fyrirtækið fái árlega margar umsóknir um flugmannsstörf.

„Við vorum síðast í síðustu viku með kynningarfund fyrir fólk sem er áhugasamt um að verða flugmenn. Mikil ásókn er í það hjá okkur en það er mikilvægt að huga vel að flugmannsnáminu hér á landi og byggja það upp til framtíðar,“ segir Sylvía.

„Við verðum samt að vera meðvituð um að það er alþjóðlegur skortur á flugmönnum. En við stöndum vel að vígi miðað við önnur flugfélög. Við finnum fyrir miklum áhuga á að starfa hjá okkur. Við viljum kynna fyrir ungu fólki kostina og tækifærin sem felast í að starfa í þessum geira. Það skiptir máli að við hugsum þetta til framtíðar.“

Spurð hvað sé fram undan hjá félaginu segir Sylvía að það sé ýmislegt spennandi á döfinni.

„Ég hef alltaf haft dálæti á haustinu. Það er svo spennandi tími, sérstaklega í fluggeiranum. Þá erum við að læra af sumrinu og fara inn í veturinn. Það eru alltaf tækifæri til að læra af sumrinu og gera betur og þá er gott að huga að breytingum á haustin. Við erum að fá nýjar vélar inn í flotann og stilla okkur upp til að ná þeim árangri sem við viljum ná. Við byggjum á góðum grunni og ætlum að nýta tækifærin til að halda áfram á þeirri vegferð sem við erum á.“

Horfur í farþegaflugi góðar
og bókunarstaðan sterk

Icelandair flutti 547 þúsund farþega í ágústmánuði og hefur flutt tæpar þrjár milljónir farþega það sem af er ári, 21 prósenti fleiri en á sama tímabili í fyrra. Sumarmánuðirnir þrír, júní, júlí og ágúst, eru jafnan stærstir hvað farþegafjölda varðar hjá félaginu og flutti félagið 1,6 milljónir farþega þessa þrjá mánuði. Farþegar til Íslands voru 249 þúsund, frá Íslandi 51 þúsund, tengifarþegar voru 223 þúsund og innanlandsfarþegar tæplega 25 þúsund. Sætanýting var 83,9 prósent og stundvísi var 78,9 prósent.

Sylvía segir að horfur í farþegaflugi séu góðar og bókunarstaðan sé sterk það sem eftir lifi árs.

„Sömuleiðis eru horfur í leiguflugsstarfsemi góðar og markaðsaðstæður hafa gert fraktflutninga krefjandi á þessu ári. Fjárhagsstaða Icelandair er mjög sterk og félagið vel í stakk búið til áframhaldandi arðbærs vaxtar. Þegar hefur verið gengið frá samningum um þrjár farþegavélar til viðbótar í flota félagsins fyrir næsta ár sem munu skapa tækifæri fyrir félagið til að stækka leiðakerfið og auka framboð um í kringum 10 prósent á milli ára.“

Spurð hvort efnahagsaðstæður í Bandaríkjunum og Evrópu hafi einhver áhrif á bókunarstöðuna segir hún að þær séu eitt af mörgu sem hafi áhrif.

„Við sáum að með sterkari gengi dollarans jókst eftirspurn frá Norður-Ameríku síðastliðið sumar og efnahagsaðstæður í Evrópu og Ameríku eru eitt af mörgu sem hefur áhrif á það hvernig við stillum upp leiðakerfinu okkar því flæði farþega getur breyst í takt við það.“