Samningar við útlagaríki hafa varasamar afleiðingar

Joe Biden Bandaríkjaforseti fagnaði því í fyrradag að hafa náð samkomulagi um fangaskipti við útlagaríkið Íran. Fimm Bandaríkjamenn voru leystir úr haldi þar í landi og eru án efa frelsinu fegnir og jafn margir fangelsaðir Íranir fengu náðun forseta Bandaríkjanna og voru sendir heim.

Þetta er þó ekki allt því að samhliða þessu losaði Biden sex milljarða bandaríkjadala og sendi til Mið-Austurlanda til notkunar fyrir stjórnvöld í Teheran. Katar hafði milligöngu um þessi viðskipti og á að sjá um að þessar fúlgur fjár, sem byltingarstjórnin fær nú aðgang að, verði aðeins notaðar í mannúðlegum tilgangi. Það kann að ganga eftir, en það breytir auðvitað engu, því að með því að þetta fé verður nýtt í slíka hluti, svo sem lyf og mat, þá sparast sama upphæð sem útlagaríkið getur nýtt til óhæfuverka.

Fyrir slíku eru fordæmi. Í forsetatíð Obama, og varaforsetatíð Bidens, var gerður svipaður samningur við Íran, að vísu með lægri upphæð en nú, og í framhaldinu nutu vígasveitir íslamskra öfgamanna í Mið-Austurlöndum stuðnings frá Íran til að halda úti ófriði á svæðinu.

Vissulega má hafa samúð með þeim sem fangelsaðir hafa verið í Íran og geta nú um frjálst höfuð strokið. En hverjar verða afleiðingarnar? Samningar Obama um kjarnorkumál eða fangaskipti gegn lausnargjaldi hafa ekki haldið eða gert stjórnvöld í Teheran síður hættuleg. Þvert á móti.

Með sex milljarða bandaríkjadala aukalega til umráða verða þessi stjórnvöld aðeins enn hættulegri, og það sem verst er; þau og önnur slík sjá að gíslatökur vestrænna borgara skila árangri. Það gerir ferðalög Vesturlandabúa mun hættulegri, ekki aðeins til Írans, sem enginn ætti að hætta sér til, heldur til fleiri ríkja þar sem varasamir ráðamenn fylgjast vitaskuld með slíkum samningum.