Jimmy Lai er án vafa þekktasti íbúi Hong Kong, upphaflega sem viðskiptajöfur, en síðan sem stjórnmálamaður, blaðaútgefandi og baráttumaður fyrir lýðræði. Og nú sem samviskufangi.
Lai hefði í krafti auðs og áhrifa getað komist hjá því að verða pólitískur fangi, einfaldlega með því að hafa sig á brott. En það gerði hann ekki.
Einræðisstjórn Xi Jinping og Kommúnistaflokksins sveik öll fyrirheit og samninga um sérstöðu Hong Kong; hefur skipulega svipt borgarana frelsi sínu og lýðréttindum, svo þessi áður einstæða heimsborg er nú aðeins enn ein borgin í víðfeðmu lögregluríki Xi formanns.
Árlega frá 1989 minntust Hong Kong-búar fjöldamorða stjórnvalda kommúnista á Torgi hins himneska friðar í Peking, en það var gert ólöglegt fyrir nokkrum árum, þó margir héldu áfram þeirri venju. Í lok árs 2021 voru átta manns sakfelldir fyrir þann glæp að kveikja á kerti og minnast hinna föllnu og Jimmy Lai var einn þeirra.
Það er nokkur hetjudáð að kjósa þannig helsið fyrir frelsið.
Jimmy Lai hefur verið í fangelsi frá árslokum 2020 en stjórnvöld lokuðu einnig blaði hans, Apple Daily. Lai var dæmdur fyrir að minnast blóðbaðsins, en það dugði ekki, svo hann hefur líka verið dæmdur fyrir fjársvik og ólöglega fundi. Nýlega var Lai ákærður fyrir brot á þjóðaröryggislögum, sem banna gagnrýni á ríkisvaldið.
Jimmy Lai verður vafalaust dæmdur fyrir það líka. Með því vill einræðisstjórnin senda skýr skilaboð um að fyrst þau komist upp með þetta gagnvart frægum auðkýfingi eins og honum, þá megi enginn sín nokkurs gagnvart valdstjórninni.
En það er rangt. Með því kemur Xi formaður upp um óöryggi sitt, að gervallt Kínaveldi hans þoli ekki að einn maður í Hong Kong segi satt. Og umheimurinn tekur eftir því, að í Hong Kong situr hetja í fangelsi, en í Peking er hræddur maður í hásætinu.