Mælitæki Veðurstofunnar greindu hreyfingar í hlíðinni ofan við Seyðisfjörð í gær. Þrátt fyrir það þótti ekki ástæða til að grípa til frekari ráðstafana, að sögn Kristjáns Ólafs Guðnasonar, yfirlögregluþjóns á Austurlandi.
„Þegar mælastaða var skoðuð uppi í hlíðinni, borholur og annað þá var það mat Veðurstofunnar að ekki þyrfti að grípa til frekari ráðstafana að sinni,“ sagði Kristján Ólafur við mbl.is í gærkvöldi.
Á vef Veðurstofunnar sagði að hreyfing hefði greinst ofan byggðar, við Hæðarlæk og ofan Neðri-Botna við Dagmálalæk. „Ekki er vitað nákvæmlega í hvernig jarðlögum hreyfingin þar er en hún virðist vera í eða á milli kletta á þessu svæði. Ekki hefur áður orðið vart við hreyfingu á þessum stað. Skriður þarna gætu fallið niður í Dagmálalæk og valdið hlaupi eða skriðum niður farveg lækjarins,“ sagði í umfjöllun á vef Veðurstofunnar.
Seint í gærkvöldi var ítrekað að spár gerðu ráð fyrir því að draga myndi töluvert úr rigningu eftir miðnætti. Búist er við því að lítilsháttar úrkoma verði að líkindum í dag og næstu daga.
Nokkrar skriður féllu að Norðfjarðarvegi í Fannardal í gær, á Borgartanga utan við byggðina í Seyðisfirði, og lítil skriða féll í sunnanverðum Reyðarfirði í gærmorgun.
Þjóðvegi 1 á milli Skaftafells og Jökulsárlóns var lokað síðdegis í gær. Búist var við því að hann yrði opnaður klukkan sex í morgun, að því er fram kom á vef Vegagerðarinnar.
Þak fauk af húsi á Aðalgötu á Siglufirði í fyrrinótt. Tjón varð á nálægum húsum og mannvirkjum og þurfti að rýma eitt hús.