Birkir segir íslenskum tryggingafélögum ekki hafa tekist nógu vel að skapa sér sérstöðu og skýra aðgreiningu í huga neytenda.
Birkir segir íslenskum tryggingafélögum ekki hafa tekist nógu vel að skapa sér sérstöðu og skýra aðgreiningu í huga neytenda. — Morgunblaðið/Eyþór
Það urðu kaflaskil hjá Birki Jóhannssyni á dögunum þegar hann settist í forstjórastólinn hjá TM og tók jafnframt sæti í stjórn Kviku. Ýmsar áskoranir eru fram undan enda tryggingamarkaðurinn líflegur og hræringar á fjármálamörkuðum

Það urðu kaflaskil hjá Birki Jóhannssyni á dögunum þegar hann settist í forstjórastólinn hjá TM og tók jafnframt sæti í stjórn Kviku. Ýmsar áskoranir eru fram undan enda tryggingamarkaðurinn líflegur og hræringar á fjármálamörkuðum.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Hagvöxtur hér á landi hefur verið umtalsverður á undanförnum misserum. Auknum umsvifum ber að fagna en þau leiða hins vegar almennt til aukinnar tíðni tjóna. Á sama tíma hefur verðlag hækkað hratt, umfram væntingar, sem leiðir til mun hærri kostnaðar við uppgjör hvers tjóns. Það getur reynst viðskiptavinum okkar þungbært þegar þessum kostnaðarhækkunum er velt út í verðlagið á sama tíma og vaxtakostnaður heimila og fyrirtækja fer hækkandi.

Fjármálamarkaðir hafa einnig verið þungir, sem veldur því að ávöxtun fjárfestingareigna er óviðunandi. Það er hætta á að verðbólga reynist þrálát og það muni kalla á meiri samdrátt til að ná tökum á henni að nýju.

Hver var síðasta ráðstefnan sem þú sóttir?

Í þessari viku sótti ég endurtryggingaráðstefnu í Mónakó. Endurtryggingafélög eru tryggingafélög tryggingafélaganna, þar sem tryggingafélög kaupa sér almennt tryggingar gegn stærri tjónum. Ég held að ég hafi aldrei sótt skilvirkari samkomu á ævi minni, en á tveimur og hálfum degi fundaði ég með yfir þrjátíu endurtryggjendum. Fyrirkomulagi ráðstefnunnar mætti líkja við hraðstefnumót, þar sem hver þátttakandi fær úthlutað borði, þar sem skipulagðir eru þrjátíu mínútna fundir með hverjum aðila. Tíminn nýttist því afar vel en það var lítið eftir á tankinum þegar ég lagðist á koddann á kvöldin.

Hvaða hugsuður hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Ég var svo heppinn að fá að vinna með Helga Bjarnasyni, fyrrverandi forstjóra VÍS. Mér hafði oft liðið eins og ég þyrfti að vera með einhvern skjöld eða grímu þegar ég sinnti ábyrgðarstörfum. Helgi hjálpaði mér að sýna kjark til að vera ég sjálfur; það væri besta útgáfan af sjálfum mér. Fyrir það verð ég honum ævinlega þakklátur.

Ég á einnig hlaupafélaga mínum Jóni Björnssyni forstjóra Origo mikið að þakka. Fyrir ungan stjórnanda er auðvelt að sökkva sér ofan í og skýla sér á bak við excel-skjöl og ársreikninga. Í hlaupatúrunum með Jóni hjálpaði hann mér að skilja hversu miklu máli stefnumótun skiptir í rekstri fyrirtækja og hvernig aðlaga þarf allar ákvarðanir og skipulag í rekstrinum að þeirri stefnu, svo að árangur náist. Þessi lærdómur hefur mótað mjög fyrstu mánuði mína í starfi hjá TM og mun vonandi gera áfram.

Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Tölvunarfræði, ekki spurning. Stafrænar lausnir munu leika sífellt stærra hlutverk í lífi okkar allra. Fæst okkar skilja til fulls hvernig vélnám og gervigreind munu breyta flestu sem við gerum. Ég myndi gjarnan vilja hafa betri grunnþekkingu á tækni og forritun, en reyni að fylgjast með þróun þessara mála eins og ég get og skil.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Tryggingafélögum á Íslandi hefur ekki tekist sérstaklega vel að mynda sér sérstöðu í huga almennings og aðgreina sig hvert frá öðru. Ég horfi oft til matvöruverslananna í þessu samhengi, en þeim hefur tekist þetta frábærlega. Við vitum öll hvaða matvöruverslun við kjósum helst að versla í og hvers vegna við kjósum þá matvöruverslun. Þegar keppinautar á markaði skapa sér enga aðgreiningu er verðið það eina sem viðskiptavinur getur horft til þegar hann velur sér við hvern á að eiga viðskipti. Fræðin segja okkur að slík staða leiði til kapphlaups á botninn (e. race to the bottom), enda er taprekstur af skaðatryggingahluta flestra tryggingafélaga á Íslandi, sem þau bæta svo upp með góðri afkomu af líftryggingum. Þótt þetta sé óheppileg staða hljóta að felast í henni tækifæri.

ævi og störf

Nám: Stúdentspróf af eðlisfræðibraut Menntaskólans í Reykjavík 2003; embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands 2008 og meistaragráða í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík 2014 með viðurkenningu VÍ fyrir framúrskarandi námsárangur. Lauk í sumar stjórnunarnámi (AMP) við viðskiptaháskólann IESE í Barselóna. Hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og aflað sér réttinda sem héraðsdómslögmaður.

Störf: Lögmaður hjá Lögmönnum Höfðabakka 2008 til 2010; fyrirtækjaráðgjöf Arion banka 2010 til 2015; framkvæmdastjóri fjármála og reksturs hjá greiðslumiðlunarfyrirtækinu Valitor 2015 til 2020; framkvæmdastjóri kjarnastarfsemi og stafrænna lausna hjá VÍS frá júní 2021 til desember 2022. Hóf störf sem forstjóri tryggingafélagsins TM í apríl 2023 og tók á sama tíma sæti í framkvæmdastjórn Kviku.

Áhugamál: Ég stunda hlaup og skíði og stefni á að hlaupa maraþon í desember í Valencia á Spáni. Ég bý ekki að neinum grunni í íþróttum, þar sem í stað íþrótta var ég í kór og lúðrasveit í æsku. Ég byrjaði að hlaupa fyrir þremur árum, með það að markmiði að hlaupa maraþon á góðum tíma. Áður stundaði ég hjólreiðar af miklu kappi. Mér finnst gaman að hella mér út í svona verkefni og ná ákveðnum árangri og snúa mér svo að öðru. Það skemmtilegasta sem ég geri er hins vegar að fara á skíði.

Fjölskylduhagir: Kvæntur Sunnu Dóru Sigurjónsdóttur, verkefnastjóra hjá FSRE, Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum, og á börnin Bjarka, Burkna og Sól.