Hlutfallsleg umsvif hins opinbera raða Íslandi neðar á lista.
Hlutfallsleg umsvif hins opinbera raða Íslandi neðar á lista. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Ísland er í 14. sæti á lista af 165 löndum í niðurstöðum alþjóðlegrar samanburðarrannsóknar á efnahagslegu frelsi í heiminum. Það er Fraser-stofnunin í Kanada sem tók niðurstöðurnar saman. Ísland var í 11

Ísland er í 14. sæti á lista af 165 löndum í niðurstöðum alþjóðlegrar samanburðarrannsóknar á efnahagslegu frelsi í heiminum. Það er Fraser-stofnunin í Kanada sem tók niðurstöðurnar saman. Ísland var í 11. sæti árið 2022 en í því 16. árið 2021. Í samantektinni segir að staða Íslands helgist einkum af sterkum lagalegum og pólitískum innviðum, ríkri vernd eignarréttar, en íþyngjandi regluverki í viðskiptaumhverfi fyrirtækja og á vinnumarkaði í samanburði við önnur lönd. Hlutfallslega mikil umsvif hins opinbera raða Íslandi líka neðar á lista.

Efnahagslegt frelsi er mest í Singapúr samkvæmt skýrslunni, þar á eftir kemur Hong Kong, svo Sviss og Nýja-Sjáland. Þá koma Bandaríkin, Írland, Danmörk, Ástralía, Bretland og Kanada í sætum frá 5 til 10. Af öðrum Norðurlandaþjóðum þá deila Finnar og Svíar í 17. sætinu, og Norðmenn verma það 29.

Sé litið til stærstu hagkerfanna eru helstu niðurstöður: Bandaríkin í 5. sæti, Japan í 20. sæti, Þýskaland er í 23. sæti, Frakkland í 47. sæti, Ítalía í 53. sæti, Mexíkó í 68. sæti, Indland í 87. sæti, Brasilía í 90. sæti, Rússland í 104. sæti og Kína í 111. sæti. Botn listans verma svo Súdan, Sýrland, Simbabve og Venesúela.

Samkvæmt skýrslunni eru hornsteinar efnahagslegs frelsis valfrelsi einstaklinga, viðskiptafrelsi, samkeppnisfrelsi, sterkir lagalegir innviðir, aðgangur að traustum gjaldmiðli og vernd eignarréttar.

Í samantektinni segir að einna brýnast virðist fyrir Íslendinga að ráðast í að minnka umsvif hins opinbera og minnka reglubyrði. Umsvif hins opinbera séu töluvert áhyggjuefni og hlutur opinberra aðila í landsframleiðslunni er mikill í alþjóðlegum samanburði.