Það er sjaldan sem kampavíni er umhellt. En það má þegar um kröftugt og ekki of gamalt vín er að ræða. Þá opnar það sig vel.
Það er sjaldan sem kampavíni er umhellt. En það má þegar um kröftugt og ekki of gamalt vín er að ræða. Þá opnar það sig vel.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fátt vekur með manni jafn góða tilfinningu og að sjá turnspírur dómkirkjunnar í Reims birtast handan við lágreistar hæðirnar sem leiða mann í austurátt frá París og til höfuðborgar Champagne-héraðs. Borg þessi er ekki aðeins höfuðstaður…

Hið ljúfa líf

Stefán Einar Stefánsson

skrifar frá Champagne

Fátt vekur með manni jafn góða tilfinningu og að sjá turnspírur dómkirkjunnar í Reims birtast handan við lágreistar hæðirnar sem leiða mann í austurátt frá París og til höfuðborgar Champagne-héraðs. Borg þessi er ekki aðeins höfuðstaður kampavínsframleiðslunnar heldur mikillar sögu og þar býr gott fólk sem gaman er að sækja heim. Nautnaþrungnir veitingastaðir á hverju götuhorni og stutt í bestu vínekrur héraðsins. Er hægt að hugsa sér það eitthvað betra?

Við lögðum í hann í liðinni viku og hópurinn var fyrstu dagana stór og myndarlegur. Nítján ferðalangar þar sem markmiðin voru aðeins tvö: Að kynnast Champagne og að njóta. Af langri reynslu veit ég að það er auðvelt að tvinna þetta tvennt saman – og ég held að það hafi tekist.

Röng og rétt tímasetning

Við höfðum reyndar valið þennan ferðatíma í vissu um að þegar hingað yrði komið væri uppskerutíminn, annasamasta skeið ársins, rétt að baki. Miðað við reynslu síðustu ára hefði tínslan átt að hefjast í lok ágúst og henni að ljúka í síðasta lagi 10. september. En ógurlegt vorkul (sem við Íslendingar bjuggum við allt til síðustu vikunnar í júní) olli því að þroski berjanna varð ekki ákjósanlegur til tínslu fyrr en í fyrstu viku september og alla jafna stendur svo vertíðin yfir í 12-15 daga. Það varð raunin nú og þess vegna var handagangur í öskjunni hjá húsunum sem við heimsóttum. Þar fundum við sveitta og þreytta bændur, rétt eins og þá sem við hittum fyrir í réttum eða í heyskap heima á Íslandi. Það gerði svo sem ekkert til og raunar varð upplifunin meiri fyrir vikið. Að sjá tínslukassana berast í hús og berjum komið fyrir í pressum, það er veruleikinn sem fæstir fá að kynnast en er þó forsendan fyrir því að hægt sé að framleiða kampavínið.

Chardonnay á sviðið

Og vinir okkar bera sig vel. Hjá Philipponnat eru menn hæstánægðir með uppskeruna. Það er mikið af berjum og gæðin að því er virðist mikil. Pinot Noir í góðu standi en Chardonnay-þrúgan virðist hafa átt sitt besta ár í langan tíma. Svipaða sögu segja þau hjá Leclerc Briant. Vilja greinilega leggja betra mat á Pinot-þrúgurnar (Noir og Meunier) en eru bjartsýn, ekki síst vegna þess að Chardonnay kom brakandi ferskt í hús og sýra og sykur í hinu fínasta jafnvægi. Nú tekur við gerjunartíminn (sá fyrri) og honum ætti að ljúka á næstu tveimur til þremur vikum ef allt gengur að óskum. Þá verður betur hægt að meta hvaða möguleikar verða til framleiðslu árgangsvína og eins í hvaða hlutföllum fjölárgangavínin (NV) verða blönduð.

Gott í þeim hljóðið

Það er gott að sjá hversu jákvæðir bændurnir í Champagne eru þessa dagana. Sumarið hefur heppnast vel og stundum er sagt að á slíkum árum eigi vínekrurnar sviðið. Víngerðarmennirnir þurfi litlu að bæta við. Þegar illa árar veðurfarslega reynir meira á handtökin í kjöllurum húsanna og gjarnan koma síðri vín út úr slíku samspili.

Það skiptir miklu máli að vel spilist úr sumrinu. Það er ekki lítið átak að framleiða allt það kampavín sem markaðir víða um heim kalla eftir. Sá stærsti er reyndar heimamarkaðurinn með tæplega helming neyslunnar en þar á eftir koma Bandaríkin og Bretland með sinn góða smekk.

Að jafnaði reyna þeir sem standa vaktina í Champagne að framleiða á bilinu 320-350 milljón flöskur á ári. Það er talsvert, ekki síst í ljósi þess að ekkert af víninu sem nú er framleitt mun líta dagsins ljós á markaði fyrr en að u.þ.b. tveimur árum liðnum. Langoftast líða þó 3-5 ár og þegar um vönduðustu vínin er að ræða má gera ráð fyrir að uppskera ársins 2023 komi á markað um miðjan næsta áratug.

Átakið heldur áfram

Í helgarlok hélt hópurinn góði til Parísar en undirritaður varð eftir og hafði ýmsum hnöppum að hneppa. M.a. að hitta fleiri Íslendinga sem hér eru í víking en svo að taka þátt í uppskerulokum hjá góðum vinum.

Meðal þess sem við fengum að upplifa á sunnudag var að opna og bragða á 1937-árgangi af Clos de la Commaraine sem nýlega fannst í vínkjallara hér í Champagne. Þar voru á ferðinni nokkrar flöskur. Um þriðjungurinn í lagi og lifandi. Hitt hafði lagt af stað inn í eilífðina fyrir allnokkru og sérrítónar tekið yfir. Clos de la Commaraine er afgirtur víngarður, 3,75 hektarar að stærð og hefur verið í einkaeigu allt frá 12. öld. Hann er staðsettur í Pommard í Búrgúnd og af honum sprettur aðeins eitt vín sem framleitt er eftir ströngustu og metnaðarfyllstu aðferðum. Pinot Noir að sjálfsögðu og látið þroskast í 12-15 mánuði á eik. Þar af er um helmingur tunnanna nýr. Í dag er svo stefnan sett á Pommard og þá ætlum við að smakka nýjustu árgangana af þessu víni ásamt mörgu því besta sem kemur frá Domaine Belleville, Parcellaires de Saulx og Olivier Leflaive. Þar þarf að hyggja að mörgu, leggja við hlustir og virkja bragðlaukana sem allra, allra best.

Eftir þessa flóknu rannsóknarvinnu leggjum við svo aftur í víking til norðurs og þá er ætlunin að verja nokkrum dögum í Champagne. Þar er margt ókannað, m.a. hjá frábæru fjölskylduhúsi í Dizy og öðru í Cuis. Á þessum tíma árs er best að fara þar á milli á hjóli.

Í næstu viku mun ég segja betur frá því sem fyrir augu bar í Búrgúnd og þessum góðu vinum sem áður er getið.