Eysteinn Bjarnason fæddist 20. september 1943 í Eskiholti í Borgarhreppi og ólst þar upp. Eysteinn er yngstur fjögurra barna foreldra sinna, Bjarna Sveinssonar og Kristínar Guðmundsdóttur bænda í Eskiholti.
Eysteinn gekk í barnaskóla í landi Brennistaða í Borgarhreppi þar sem nú stendur Valfell. Þá tíðkaðist ekki skólakeyrsla heldur urðu börnin að ganga í skólann. Skólinn var fámennur og voru 7-8 einstaklingar í bekk. Heimavistarskólinn á Varmalandi í Stafholtstungum var byggður fyrir alla Mýrasýslu og var tekinn í notkun 1956. Þá var skólinn lagður niður á Brennistöðum og Eysteinn fór í heimavistarskólann á Varmalandi þar sem hann var í tvö ár í heimavist. Hann segir að það hafi verið gaman að byrja í heimavistinni og fá að kynnast fleiri jafnöldrum.
Síðan lá leiðin í Héraðsskólann í Reykholti árið 1957 og Eysteinn lauk þaðan bæði landsprófi og gagnfræðiprófi árið 1960. Dvölin þar var ánægjuleg að sögn Eysteins og kynntist hann þar mörgum vinum sem halda enn góðu sambandi. Hópur samnemenda úr Reykholti hittist enn vikulega til að fara saman í göngutúra og á kaffihús.
Upp úr 1960 hóf Eysteinn búskap í sambýli við foreldra sína í Eskiholti. Þar var rekið myndarlegt kúabú ásamt sauðfjárræktun. Kristín móðir Eysteins var mikil hestakona og áhugi hennar hafði mótandi áhrif á hestaáhuga hans. Eysteinn hefur alla tíð haft mikinn áhuga á hrossarækt og átti m.a. hesta undan Hrafni frá Holtsmúla og Viðari frá Viðvík.
Eysteinn kynntist Katrínu Ragnheiði Hjálmarsdóttur árið 1967. Hún var þá kennari við Húsmæðraskólann á Varmalandi. Þau giftu sig í Kópavogskirkju 11. apríl 1968 og byrjuðu búskap þá um sumarið í Eskiholti. Eysteinn var meðlimur í JC hreyfingunni í Borgarnesi og Kiwanisklúbbnum Smyrli í Borgarnesi. Eysteinn og Katrín seldu jörðina árið 1994 og fluttu þá búferlum til Reykjavíkur. Eysteinn hóf störf hjá Mjólkursamsölunni (MS) og vann þar til starfsloka þegar hann var 68 ára gamall. Eysteinn sat í trúnaðarmannaráði Dagsbrúnar og Eflingar fyrir hönd iðnverkafólks í MS.
Eysteinn og Katrín keyptu hlut í hesthúsi í Víðidal og tóku með sér hesta suður er þau seldu jörðina. Hann stundaði hestamennsku lengst af en er nýhættur. Yngsta dóttir hans, Jenna Huld og Eysteinn Ingi barnabarn hans hafa nú tekið við keflinu í hestamennskunni. Önnur áhugamál Eysteins eru ferðalög, fjölskyldan og samvera með góðum vinum.
Eysteinn og Katrín eru nú búsett í Þingahverfinu í Kópavogi og eru dugleg að sinna hreyfingu með göngu og sundi.
Fjölskylda
Eiginkona Eysteins er Katrín Ragnheiður Hjálmarsdóttir, sérkennari og fyrrverandi deildarstjóri í Rimaskóla, f. 2.10. 1945. Katrín fæddist í Stykkishólmi en var uppalin á Hellissandi og flytur þaðan 4 ára til Reykjavíkur.
Foreldrar Katrínar voru hjónin, Hjálmar B. Elíesersson, f. 3.12. 1913, d. 3.10. 1972, skipstjóri í Reykjavík og Jensína Ágústa Jóhannsdóttir, f. 8.6. 1918, d. 26.3. 1998, húsmóðir í Reykjavík.
Börn Eysteins og Katrín eru 1) Hrund f. 17.1. 1969, verkefna- og kennslustjóri við Fjarháskólann í Hagen, búsett í Sprockhövel, Þýskalandi, maki: Volker Köhnen. Þau eiga þrjá syni. 2), Helga f. 17.4. 1972. forstöðumaður Hringsjár náms- og starfsendurhæfingar, búsett í Reykjavík, maki: Ingi Torfi Sigurðsson. Þau eiga tvö börn og Ingi Torfi á tvö börn fyrir. Helga og Ingi Torfi eiga 5 barnabörn. 3) Jenna Huld, f. 26.2. 1976 húðlæknir Phd. á Húðlæknastöðinni, búsett í Reykjavík, sambýlismaður: Gestur Þór Óskarsson. Jenna Huld á þrjú börn og Gestur Þór á tvo syni. 4) Bjarni Kristinn, f. 18.10. 1977, framkvæmdastjóri Húðlæknastöðvarinnar, búsettur í Reykjavík, maki: Gréta Hlín Sveinsdóttir. Þau eiga þrjú börn.
Systkini Eysteins: Guðmundur Bjarnason, bóndi á Brennistöðum í Borgarhreppi, f. 29.5. 1929, d. 6.7. 2016, Sveinn Bjarnason, bóndi á Brennistöðum, f. 9.10. 1930 og Helga Sólveig Bjarnadóttir, húsmóðir á Akranesi, f. 13.9. 1933.
Foreldrar Eysteins voru hjónin Bjarni Sveinsson, f. 18.9. 1890, d. 24.9. 1976, frá Kolsstöðum í Dölum, bóndi í Eskiholti í Borgarhreppi frá 1925, og Kristín Guðmundsdóttir f. 19.11. 1899, d. 24.3. 1978, frá Skálpastöðum í Lundarreykjadal, bóndi í Eskiholti.