Norður
♠ Á97
♥ ÁG3
♦ DG
♣ KG1085
Vestur
♠ DG10532
♥ D52
♦ 9
♣ 643
Austur
♠ 64
♥ 10876
♦ 1076532
♣ 2
Suður
♠ K8
♥ K94
♦ ÁK84
♣ ÁD97
Suður spilar 7♣.
„Þriðja lotan var afgerandi.“ Magnús mörgæs sat við tölvuna allan sunnudaginn og fylgdist með úrslitaleik bikarkeppninnar í beinni útsendingu á BBO. Þar mættust sveitir InfoCapital og Hótels Norðurljósa í fjórum 16 spila lotum. Norðurljósin fóru vel af stað og leiddu eftir tvær lotur, en í þriðju lotunni snerist dæmið rækilega við og svo fór á endanum að Info vann 166-118. Sigursveitina skipa Aðalsteinn Jörgensen, Bjarni Einarsson, Matthías Þorvaldsson, Sigurbjörn Haraldsson og Birkir Jón Jónsson. Aðalsteinn og Bjarni náðu fallegri alslemmu í umræddri þriðju lotu. Aðalsteinn opnaði á eðlilegu laufi í suður og Bjarni neitaði hálit með gervisvari á 1♠. Alli sagði 2G (17-19), Bjarni 4♣, Alli 4♦ (fyrirstaða), Bjarni 4G (spurning um lykilspil) og stakk upp á sjö með 5G þegar öll lykilspil reyndust til staðar. Það var auðsótt mál, enda suður með gott hámark.