Skólafélagar Hákon Örn og Helgi Grímur hlutu styrk úr Sviðslistasjóði til að setja verkið upp.
Skólafélagar Hákon Örn og Helgi Grímur hlutu styrk úr Sviðslistasjóði til að setja verkið upp. — Ljósmynd/Sverrir Páll Sverrisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta er svona klassísk „odd couple“-saga. Annar er kassalaga og hinn er hringlaga,“ segja þeir Hákon Örn Helgason og Helgi Grímur Hermannsson, leikarar og höfundar gamanleikritsins Pabbastráka sem frumsýnt verður annað kvöld í Tjarnarbíói

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

„Þetta er svona klassísk „odd couple“-saga. Annar er kassalaga og hinn er hringlaga,“ segja þeir Hákon Örn Helgason og Helgi Grímur Hermannsson, leikarar og höfundar gamanleikritsins Pabbastráka sem frumsýnt verður annað kvöld í Tjarnarbíói.

Gamanleikritið segja þeir fyrsta samstarfsverkefni sitt síðan þeir skipulögðu busadjamm í MH en báðir eru þeir útskrifaðir af sviðslistabraut LHÍ. Í millitíðinni hefur Hákon Örn meðal annars gert garðinn frægan með grínhópnum VHS og Helgi Grímur kom til dæmis að How to Make Love to a Man með leikhópnum Toxic Kings í Borgarleikhúsinu í fyrra.

„Við erum báðir með sterkar gríntaugar og það sameinar okkur í þessu verki.“ Verki sem þeir segja að sé úrvinnsla á nostalgíu sígildra sólarlandaferða Íslendinga.

„Leikritið gerist árið 2007 en þá vorum við 12 ára. Þarna er Windows Vista besta stýrikerfið. Allir áttu MP3-spilara og þetta er mikil nostalgía fyrir okkur og í sjálfu sér erum við að setja á svið frí sem við fórum sjálfir í.“

Þeir segja söguþráð leikritsins í stuttu máli óvæntan vinskap tveggja ólíkra karlmanna sem staddir eru í fríi á Spáni.

„Playa Buena, nánar tiltekið. Fjölskyldufaðirinn Ólafur hefur þaulskipulagt fríið til að styrkja tengslin við táningsson sinn en allt fer úr skorðum þegar hann ruglast á töskum við sveimhugann Hannes, sem er á Playa Buena í allt öðrum erindagjörðum. Í þessari sólstrandarflækju þurfa tveir pabbastrákar að fóta sig í fríinu.“

Ein frí spóla með

„Þessir tveir ólíku menn kynnast sem sagt fyrir slysni. Tilviljanakennd óreiða lífsins leiðir þá saman og þótt þeim semji ekkert endilega vel í fyrstu læra þeir að vinna saman og koma út úr þessu vonandi sem betri menn.“ Þeir félagar segjast vitna grimmt í kvikmyndir sem þeir ólust upp við og öll fagurfræði verksins leitist við að fanga þá stemningu.

„Það ætti eiginlega að vera hægt að leigja þetta leikrit á vídeóspólu,“ segir Hákon Örn og hlær.

Hvaða kvikmyndir mynduð þið nefna sem dæmi?

Stepbrothers. Eiginlega allur Will Farrell-katalógurinn. Allar rómantískar gamanmyndir með Meg Ryan. French Kiss til dæmis,“ segir Helgi Grímur.

„Þannig að orkan í sýningunni er mjög létt og við erum mikið að leika okkur með kvikmyndaformið, uppbyggingu þessa dæmigerða kvikmyndahandrits og frásagnartækni. Erum til dæmis með „montage“ eins og lög gera ráð fyrir og fleira í þeim dúr,“ heldur hann áfram.

En þetta er ekki eintómt grín heldur.

„Við erum líka að kanna samskipti karlmanna á milli,“ segir Hákon Örn. „Ekki bara samskipti miðaldra karlmanna heldur líka karlmanna af ólíkri kynslóð. Við erum ekki alveg orðnir miðaldra enn og hvorugur okkar á börn en við höfum grínast með að við séum eiginlega í pabbó – svona eins og stelpur fara í mömmó. Tveir strákar að leika sér að vera pabbar.“

Verkið hlaut styrk úr Sviðslistasjóði og þeir segjast afskaplega þakklátir fyrir þann stuðning. „Þetta er ekki merkilegt tímakaup en allt telur,“ segja þeir að lokum.

Miðasala er á Tix.is.

Sena úr Pabbastrákum

Ruglað dæmi

Hannes:

Hei, sérðu þennan … Þessi er svolítið líkur …

(Báðir á sama tíma):

Ashley Cole.

Ólafur:

HAH! Já! bíddu, ertu Arsenal-maður?

Hannes:

Heldur betur.

Ólafur:

Líst mér á þig.

Hannes:

Fjórða sæti, þetta var tæpt. Hvernig fannst þér lokaleikurinn? Thierry Henry með þrusuþrennu.

Ólafur:

Ég sá hann reyndar ekki.

Hannes:

Sástu hann ekki?

Ólafur:

Nei ég sagði upp SÝN. Hækkuðu gjaldið alveg fram úr hófi þarna um áramótin. Þannig að ég sagði bara upp á staðnum, mér hreinlega ofbauð. En ég horfi stundum á þetta ruglað.

Höf.: Höskuldur Ólafsson