Jökullinn Höfuðdjásn þjóðgarðsins er á undanhaldi vegna hlýnunar. Svipsterkt fjall sem sést víða að, meðal annars frá höfuðborgarsvæðinu.
Jökullinn Höfuðdjásn þjóðgarðsins er á undanhaldi vegna hlýnunar. Svipsterkt fjall sem sést víða að, meðal annars frá höfuðborgarsvæðinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Stofnun og starfsemi Snæfellsnesþjóðgarðs hefur breytt miklu hér um slóðir. Innviðir svæðisins hafa verið styrktir og sú kynning sem þjóðgarðurinn fær hefur verið mikilvæg. Á ríkan þátt í því að ferðaþjónusta hér á svæðinu hefur eflst og er…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Stofnun og starfsemi Snæfellsnesþjóðgarðs hefur breytt miklu hér um slóðir. Innviðir svæðisins hafa verið styrktir og sú kynning sem þjóðgarðurinn fær hefur verið mikilvæg. Á ríkan þátt í því að ferðaþjónusta hér á svæðinu hefur eflst og er orðin mikilvæg stoð í atvinnulífinu,“ segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ.

Svonefndur dagur íslenskrar náttúru var síðastliðinn laugardag, 16. september. Þann dag tilkynnti Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra að Kristinn hlyti svonefnda Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Sú var nú afhent í 14. skipti og er helguð og tengd nafni baráttukonunnar Sigríðar Tómasdóttur í Brattholti í Biskupstungum sem snemma á 20. öldinni lagði allt í sölurnar til að bjarga Gullfossi frá virkjun, sem líka tókst. Viðurkenning þessi hefur gjarnan farið til fólks sem hefur látið mjög að sér kveða í umhverfismálum og tekið þar frumkvæði.

Umhverfismálin hafa verið áhersluatriði

Kristinn hefur verið bæjarstjóri Snæfellsnesbæjar frá 1998 og beitti sér á sínum tíma mjög fyrir stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi. Sá var stofnaður árið 2001 til að vernda bæði sérstæða náttúru svæðisins og merkilegar sögulegar minjar sem tengjast sjósókn á svæðinu. Umhverfismál hafa verið áhersluatriði í starfi Kristins, sem af þeim sem nú stýra sveitarfélögum hefur setið lengst allra í starfi – alls 25 ár.

Snæfellsnesþjóðgarður er um 170 fermetrar að flatarmáli. Að sunnan liggja mörk hans við Dagverðará og að austan við Gufuskála, skammt utan við Hellissand. Höfuðdjásn þjóðgarðsins er kollur Snæfellsjökuls; sem gefur reyndar hratt eftir. Af öðrum áhugaverðum stöðum í þjóðgarðinum má nefna Lóndranga, Malarrif og Djúpalónssand. Einnig er mikið fuglalíf á svæðinu og minjar um útræði fyrr á tíð.

Þakkarvert starf eldhugans

Um störf í þágu þjóðgarðsins segir umhverfisráðherra að Kristinn sé eldhugi sem hafi unnið mikilvægt og þakkarvert starf. Hafi verið vakandi fyrir tækifærunum sem þjóðgarðurinn felur í sér og að því leyti verið á undan sinni samtíð. Frumkvöðulsstarfið hafi skilað miklu til samfélagsins á Snæfellsnesi.

„Sú reynsla að þjóðgarðar og starfsemi þeirra styrki byggð og mannlíf á hverju svæði er alþjóðleg reynsla. Allar vísbendingar um slíkt, sem við höfðum fyrir framan okkur þegar ákveðið var að stofna Snæfellsnesþjóðgarð fyrir rúmlega 20 árum, hafa gengið eftir,“ segir Kristinn Jónasson og heldur áfram:

„Mér þykir vænt um viðurkenninguna sem ég fékk frá umhverfisráðherra. Lít þó svo á að hún sé til samfélagsins alls. Vitund fyrir mikilvægi náttúruverndar er sterk hér á svæðinu, hvort sem litið er til lands eða sjávar. Endur fyrir löngu voru stór fiskimið hér á Breiðafirði friðuð að frumkvæði útgerðarmanna, sem voru áfram um að ganga ekki á höfuðstól heldur tryggja sjálfbærar veiðar. Sjómennirnir þekktu aðstæður og vissu hvað væri skynsamlegt að gera. Þessi ráðstöfun skilaði sér líka og sjávarútvegur er ein mikilvægasta stoðin í atvinnulífi hér. Sama má segja um ferðaþjónustuna hér á Snæfellsnesi, sem eflist og dafnar.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson