Lögfræði
Bjarki Már Baxter
Lögmaður á Málþingi lögmannsstofu
Alþingi var sett fyrr í mánuðinum og hefur ríkisstjórnin lagt fram þingmálaskrá sína fyrir komandi þingvetur. Þar kennir ýmissa grasa og eru samtals 212 lagafrumvörp, skýrslur og tillögur til þingsályktana boðuð í skránni frá 12 ráðuneytum í stjórnarráði Íslands.
Eitt af málunum var þónokkuð til umræðu í upphafi ársins en það er frumvarp félags- og vinnumarkaðsráðherra til breytinga á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Lögin eru í grunnin frá árinu 1938 þótt þau hafi tekið breytingum nokkrum sinnum frá þeim tíma. Frumvarpið, sem verður ekki lagt fram fyrr en í janúar á næsta ári, mun fjalla um auknar valdheimildir ríkissáttasemjara og mun byggjast á tillögum starfshóps sem fengið hefur það hlutverk „að kanna hvort, og þá hvernig, rétt sé að styrkja enn frekar hlutverk og heimildir ríkissáttasemjara hér á landi, samanber markmið sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.“
Tilefni lagasetningarinnar ætti að vera flestum í fersku minni eftir flóknar og harðar kjarasamningsviðræður Eflingar stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins. Þáverandi ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu í deilu aðilanna í janúar sl. sem féll um sjálfa sig þegar Efling neitaði að afhenta skrá yfir félagsmenn stéttarfélagsins svo framkvæma mætti atkvæðagreiðslu um tillöguna. Ágreiningurinn fór fyrir Landsrétt sem taldi í stuttu máli að lögin kvæðu ekki á um lögbundið tilkall ríkissáttasemjara til að fá kjörskrána afhenta. Þar með varð ljóst að nauðsynlegt var að endurskoða lögbundnar valdheimildir ríkissáttasemjara, a.m.k. að því er miðlunartillögur varðar. Það eru hins vegar fleiri atriði sem mætti skoða við fyrirhugaða lagasetningu.
Á árinu 2013 kom út skýrsla vinnuhóps aðila vinnumarkaðarins um kjarasamninga og vinnumarkað á Norðurlöndum. Skýrsluna má nálgast á vef stjórnarráðsins. Skýrslan er um margt áhugaverð og væri óskandi að hún verði rifjuð upp nú í þeirri vinnu sem stendur yfir við lagafrumvarp um valdheimildir ríkissáttasemjara. Af lestri skýrslunnar má ráða að valdheimildir ríkissáttasemjara hér á landi eru ekki jafn víðtækar og heimildir sambærilegra embætta annars staðar á Norðurlöndum. Sem dæmi má nefna að í Danmörku getur sáttasemjari eftir að kjarasamningar hafa verið gerðir í iðnaði og á stærstum hluta af vinnumarkaðnum lagt fram miðlunartillögu sem tekur til alls almenna vinnumarkaðarins. Í Noregi gildir sú regla að ef samningaviðræður aðila sigla í strand og aðkoma ríkissáttasemjara er nauðsynleg eru ekki í boði meiri launahækkanir en samkvæmt þeim kjarasamningum sem mótað hafa launastefnuna.
Þótt ekki verði efast um sjálfstæðan samningsrétt stéttarfélaga hér á landi til að semja um kaup og kjör fyrir félagsmenn sína er að sama skapi ljóst að skýra þarf þær reglur sem gilda við gerð kjarasamninga. Þar eru ekki aðeins undir hagsmunir þeirra aðila sem semja í hvert og eitt skipti heldur samfélagsins alls, enda geta deilur á vinnumarkaði, og þ.m.t. verkföll, haft víðtækar og neikvæðar afleiðingar fyrir fólk og fyrirtæki í landinu.
Undirritaður hefur verið þeirrar skoðunar lengi að eftir að deilu um gerð kjarasamnings hefur verið vísað til ríkissáttasemjara eigi kröfugerðir, útreikningar og önnur gögn sem viðræðunum tengjast að vera opinber, t.d. á vefsíðu ríkissáttasemjara. Það er regla frekar en undantekning í slíkum átökum að formenn samninganefnda tali hver í sína áttina um það hvaða kröfur eru hafðar uppi, hvaða tilboð hafi verið lögð fram og þar með hvaða kjarabóta hafi verið krafist eða boðnar af hálfu atvinnurekenda. Af því leiðir að almenningur getur oft með engu móti áttað sig á stöðu viðræðna eða raunverulegum ágreiningi þótt margir séu fljótir að skipa sér í lið með öðrum hvorum samningsaðilanum.
Að sama skapi ættum við hér á landi að geta lært af reynslu og fyrirkomulagi Norðurlandanna í þessum málaflokki, eins og öðrum. Markmiðið ætti að vera að bæta vinnubrögðin, fækka hörðum kjarasamningsdeilum, tryggja frið á vinnumarkaði, tryggja efnahagslegan stöðugleika og aukinn kaupmátt. Í því sambandi er mikilvægt að sá aðili sem hefur það hlutverk að annast sáttastörf í vinnudeilum fái raunverulegar valdheimildir til að stíga inn í deilur og tryggja gerð kjarasamninga hér á landi.