Bárður Jónsson fæddist í Reykjavík 11. nóvember 1970. Hann lést á heimili sínu 13. ágúst 2023.
Foreldrar hans voru Sigurleif Jóna Sigurjónsdóttir, f. 15. desember 1930 á Lýtingsstöðum, Holtum, Rangárvallasýslu, d. 2. janúar 2018 og Jón Þórarinn Bárðarson, f. 10. maí 1930 í Vík í Mýrdal, d. 2. október 2018.
Barn Sigurleifar Jónu og Jóns Þórarins óskírður sonur, f. 18. júní 1969, lést sama dag.
Systkini Sigurleifar Jónu: María Guðmunda, f. 24. september 1928, d. 13. febrúar 2007, Eiríkur, f. 16. september 1939, d. 14. september 1999, Tryggvi, f. 6. október 1935, d. 16. desember 1969, Sigríður, f. 27. febrúar 1937, d. 29. júlí 1986, Þórður Matthías, f. 27. október 1941, d. 3. nóvember 2006 og Sigrún Erna, f. 1. apríl 1943.
Systkini Jóns Þórarins: Sigrún Sesselja, f. 3. mars 1928, Oddný Jóna, f. 6. október 1931 og Ágúst, f. 12. apríl 1934, d. 24. apríl 1934. Bárður ólst upp í Garðabæ og útskrifaðist stúdent frá FG 1991.
Heilsubrestur varð til þess að hann náði ekki markmiðum sínum í námi og starfi. Bárður var ókvæntur og barnlaus.
Útför Bárðar fór fram í kyrrþey 25. ágúst 2023.
Við systur og mamma viljum minnast Bárðar frænda með nokkrum orðum.
Leiðir foreldra Bárðar, Sillu og Jonna, lágu saman þegar þau voru tæplega fertug. Mikil eftirvænting var þegar von var á honum í heiminn, sérstaklega þar sem rúmu ári áður höfðu foreldrar hans eignast dreng sem lést sama dag.
Fyrstu árin bjó fjölskyldan í starfsmannaíbúð á Vífilsstöðum þar sem Silla var starfandi hjúkrunarfræðingur. Okkur systrum fannst gaman að heimsækja fjölskylduna og fá að líta eftir litla frænda. Við lékum okkur við vatnið og nutum þess að eiga frændfjölskyldu í þessu yndislega umhverfi.
Garðabær var Bárðar uppeldisstaður, þar átti hann góða æsku og útskrifaðist sem stúdent frá FG 1991. Foreldrar Bárðar skildu árið 1990 og fór Bárður fljótlega að búa í íbúðinni á Ásbrautinni. Hann leit iðulega til föðurömmu sinnar Þóreyjar sem bjó í næsta stigagangi. Þegar hann borðaði með henni ásamt pabba sínum, var oft og tíðum annaðhvort saltfiskur eða fýll í matinn. Fýlinn sóttu þeir feðgar á ferðalögum sínum austur í Mýrdal þar sem pabbi hans fæddist, ólst upp og starfaði fram á fullorðinsár.
Bárður átti auðvelt með að læra. Hann tók meirapróf, keyrði strætó um tíma og vann við umönnun á LSH sem honum líkaði vel. Hann reyndi fyrir sér í háskólanámi en heilsubrestur gerði það að verkum að hann náði ekki markmiðum sínum í námi og starfi.
Bárður fór í ferðalög með foreldrum sínum meðan þau höfðu heilsu til og aðdáunarvert var hvað hann hugsaði vel um þau eftir að heilsu þeirra hrakaði.
Bárður var mjög viðmótsgóður, ljúfur og áhugasamur um ættingja sína. Yndislegt var að fá hann í kaffi í Laufbrekkuna og sérstaklega gaman þegar hann mætti í skötuboð á Þorláksmessu.
Minning þín lifir.
Þín föðursystir,
Sigrún Sesselja, og frænkurnar Valgerður, Þórey, Ingibjörg og Helga Guðlaug.